03.09.1942
Neðri deild: 20. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

24. mál, raforkusjóður

Pétur Ottesen:

Ég vil leyfa mér að benda á, að ég held, að þessar umr. séu óþarfar um þá breyt., sem í hv. Ed. var gerð á þessu frv., og það er af því, að þó að þetta frv. verði samþ. í þeirri mynd, sem það nú er í, þá verði ekki nein framkvæmd á þessu önnur en sú í bráð, sem er vitanlega höfuðtilgangurinn með þessu frv., eins og það liggur fyrir, að stofnaður verði þessi 10 millj. kr. sjóður á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í frv., og lagðar verði við hann 500 þús. kr. árlega. Því að það er vitanlegt, að framkvæmd í því verki að útdeila þessu fé er eftir, þó að sjóðurinn verði stofnaður, en hún á að verða framkvæmd eftir reglugerð, sem ríkisstj. setur. Um þetta verður að búa alveg á eðlilegan hátt með því að setja um það l., hvernig þessu fé skuli ráðstafað. Og mér hefur skilizt, að sú afgreiðsla þessa máls frá hv. fjhn. Ed. að taka út úr frv. einmitt ákvæðið um það, hvernig þessu fé skyldi ráðstafað, byggist á, að gengið væri úr frá því, að sett yrðu heildarl., sem ekki beinlínis ættu heima í þessu frv., heldur ætti að réttu lagi að ganga frá sem alveg sérstökum l. En um það geta menn haft mismunandi skoðanir, hvort eigi að færa verksvið frv. út, eins og gert er ráð fyrir. Ég er á móti því, því að afstaða mín til þessara mála er, eins og hún hefur verið, sú, að ég sé enga möguleika í náinni framtíð til þess að gera þær ráðstafanir, sem gera þarf í þessum málum, sem komið geti dreifbýlinu að haldi, en það tvennt, að ríkissjóður leggi fram fé og að einnig komi fjárframlög til þess frá þéttbýlinu. Þess vegna álít ég, að það þurfi ekki að vera neitt deilumál hér þetta, sem komst inn í frv. í hv. Ed., sem ég tel þó miður farið, að samþ. var þar. Því að megintilgangurinn með frv. er að slá því föstu, að af tekjuafgangi ársins 1941 og ársins 1942 skuli lagðar til hliðar 10 millj. kr. og svo áframhaldandi tillag úr ríkissjóði í þessu sama skyni. Og þetta er svo mikilsvert atriði, að þar sem samkomulag hefur náðst um þetta á hæstv. Alþ., þá verður ekki ágreiningur um smáatriði eins og málið liggur fyrir, sem gæti orðið því að fótakefli.

Ég vil því eindregið gera þá till. um miðlun í þessu efni, og vænti þess, að um það geti orðið samkomulag, eins og þetta liggur fyrir, að þrátt fyrir mismunandi og skiptar skoðanir um atriði frv., verði því samt ekki stofnað í hættu nú á allra síðustu dögum þingsins með því að fara að hrekja það milli deilda. Okkur, sem staðið höfum að frv. um þessi rafmagnsmál á undanförnum þingum, en höfum ekki komið þeim málum fram, hefur eðlilega þótt mjög súrt í broti að geta ekki komið þessu máli áfram. Það hlýtur því að vera sameiginleg afstaða okkar, þar sem svo langt er nú komið afgreiðslu þessa frv., þá þurfi nú ekki enn þá svolítil þúfa sem þessi afgreiðsla málsins í Ed. að verða því að fjörtjóni.