03.09.1942
Neðri deild: 20. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

24. mál, raforkusjóður

Sveinbjörn Högnason:

Það mætti segja, að það væri að einhverju leyti hægt að fallast á röksemdir hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. S.-M., ef einhver fyrirmæli væru í frv., sem þeir ætlast til, að sett verði um úthlutun þessa fjár. En þau eru hvergi í frv., heldur stendur þar: „Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um sjóðinn og styrkveitingar úr honum, að fengnum till. rafmagnseftirlits ríkisins.“ Það er því eftir þessu ákvæði þannig, að ef sá ráðh. situr, sem því vill beita, getur hann bara á næsta ári verið búinn að veita allar þessar 10 millj. kr. úr sjóðnum. Og það er áreiðanlegt, að það verður gengið hart eftir því af þeim, sem eru að reyna að stofna rafveitur, ef ekki verður gengið betur frá þessu heldur en nú er. Þessi ágalli er á frv. vegna þess, sem fellt var úr því í hv. Ed., en það hefur ekki verið aðgætt. Ef við samþykkjum frv., eins og það er nú, óbreytt, gætum við alveg eins búizt við því, þegar við kæmum saman til þess að semja löggjöf um það, hvernig verja skyldi fé úr þessum sjóði, þá væru bara þessar 10 millj. kr. allar á burtu. Þess vegna er þetta tómt mál að tala um á sama grundvelli og þessir tveir hv. þm. töluðu um það. Þeir hafa ekki gætt að því sem skyldi, hvernig ákvæði frv. eru að þessu leyti. Ég er sannfærður um, að ef frv. er samþ. í þeirri mynd, sem það nú hefur, kemur það að sáralitlum notum til þess, sem upphaflega var ætlazt til. Því að það er vitanlegt, að þeir, sem nú sitja á þingi, munu ganga eftir því hjá viðkomandi ráðh., þegar þm. eru farnir heim, að ráðh. setji reglugerð um það, hvernig þessu fé skuli varið.