03.09.1942
Neðri deild: 20. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

24. mál, raforkusjóður

Sveinbjörn Högnason:

Ég vil benda á, að þrátt fyrir það, að hæstv. stj. gefi þessa yfirlýsingu, þá er það gefinn hlutur, að hún verður farin frá völdum, áður en Alþ. verður búið að ganga frá nánari reglum um sjóðinn, og þó að hún hangi valdalaus fram að næstu kosningum, þá er vitað mál, að það verður ekki lengur. Það tekur nokkurn tíma að ganga frá slíkri löggjöf, og er ekki að vita, hvaða stj. kann að koma, en það vita allir, að engin stj. mun skoða sig bundna af orðum þessarar stj., sem er gersamlega valdalaus og hefur á bak við sig aðeins 1/3 hluta kjósenda. Það væri sama og ég færi að gefa yfirlýsingu, þegar þessi stj. er að því. Hún er gersamlega valdalaus og verður enn þá valdaminni, þegar stundir líða. Það er því eðlilegt, eins og hv. 1. þm. N.-M. segir, að enginn treysti þessari hæstv. stj., sem tjaldar aðeins til einnar nætur og það í mjög lélegu skýli. Alþ. getur því ekki álitið hana geta skuldbundið neina ríkisstj. stundinni lengur, því að hún hefur ekki þingræðisvald nú, og þó enn þá síður, þegar stundir líða.