03.09.1942
Neðri deild: 20. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

24. mál, raforkusjóður

Sveinbjörn Högnason:

Hæstv. forsrh. segir, að ég hafi vitnað til sjálfs mín, þegar ég hafi talað um, hversu lítið vald hann hefði sem forsrh. Ég játa það, að mér dettur ekki í hug að gefa yfirlýsingu um, að ég hafi meira vald en ég hef, eins og hann hefur gert. Ég vil ekki gefa yfirlýsingu, sem ég get ekki staðið við. Ég vil ekki lýsa yfir, að ég hafi þingræðisvald á bak við mig, vitandi það, að þingið getur rassskellt mig næsta dag fyrir að hafa gert það, yfirlýsingu, sem stendur ekki lengur en nokkrar klukkustundir, en er aðeins gefin til að gera sjálfum mér ánægju, eins og hann hefur gert, en er engum til gagns, og sízt honum sjálfum. Ég veit vel, að ég hef ekkert vald til að gefa slíkar yfirlýsingar og alveg eins er með hann, en sá er bara munurinn að ég vil ekki gefa yfirlýsingar fram yfir það, sem mitt vald nær, eins og hann hefur gert.

Ég get vel skilið, að hann öfundi þann kristna söfnuð, sem hefur þann mann, sem segir til og áminnir, ef hann álítur eitthvað miður fara. Ég held, að hæstv. forsrh. hefði gott af að vera kominn í slíkan söfnuð. Það virðist vera svo, að hann sé annars staðar, þar sem hann er óvanur, að honum sé sagt til, þegar hann hleypur á sig og fullyrðir það, sem hann getur ekki staðið við stundinni lengur. Ég vorkenni þeirri þjóð, sem hefur slíkan mann fyrir forsrh.