12.08.1942
Efri deild: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (662)

9. mál, orlof

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Við flm. þessa máls flytjum það nú í trausti þess, að Alþ. vinnist tími til að afgr. það, enda þótt þingið eigi að vera stutt. Málið var flutt á síðasta þingi, og fylgdi þá frá n., sem samdi frv., ýtarleg grg. og ýmsar upplýsingar í 5 köflum, sem má sjá í þskj.

Við teljum fulla ástæðu til, að Alþ. verði við þeirri ósk verkalýðsins að lögbinda þær till., sem hér er farið fram á, — að orlof til handa hverjum einasta verkamanni eða sjómanni, eða hvaða annað starf sem þegnar þjóðfélagsins inna af höndum, sem eru í þjónustu annars manns, sé 12 virkir dagar. Og samkv. 4. gr. er gert ráð fyrir, að vinnudagana sé lögð til hliðar upphæð, sem nemur 4%, sem nota skal til orlofsins. Þetta er að sjálfsögðu upphæð, sem atvinnurekandanum, hverju nafni sem nefnist, ber að greiða umfram kaupgjald og reiknast af upphæð kaupsins.

Um nauðsyn þessa skal ég ekki vera mjög margorður. En aðeins vil ég benda á, að orlof eru orðin nokkuð föst hjá fjölda mörgum stéttum í landinu. Og nú þykir ekki hlýða í Reykjavík og víðar, t. d. hjá verzlunarmönnum, að bjóða upp á minna en 12 virka daga, 14 að helgidögum meðtöldum. Ýmsar iðnstéttir eru þegar búnar að fá þessari ósk fullnægt, og til eru stéttir, sem hafa öllu rýmra orlof en hér er gert ráð fyrir. En daglaunamannastéttin í landinu hefur allt fram að þessu farið algerlega á mis við það, sem heitir orlof. (BSt: Eru það ekki fleiri stéttir?) Ég get minnzt á það síðar. S. l. ár var þó í tveimur bæjum, Reykjavík og Hafnarfirði, veitt allt að 6 daga orlof fyrir 12 mánaða vinnu. Grundvöllurinn var sá, að fyrir hverja tvo mánuði er einn dagur, en hér er farið fram á einn dag fyrir hvern mánuð. Er þetta í samræmi við það, sem tíðkaðist á Norðurlöndum fyrir styrjöldina og lögfest var fyrir daglaunamenn og iðnaðarmenn. Ég er ekki í neinum vafa, að eins og nú er háttað í landinu, er öllum verkamönnum, hverju nafni sem nefnast, nauðsyn á að taka sér þennan hvíldartíma til að lyfta sér upp frá hinu daglega striti. Í sambandi við orlof þessi þyrfti að gefa verkamönnunum kost á að sjá sitt eigið land sem bezt og betur en hingað til. Það væri menningarlegt atriði að ferðast eftir því, sem fé þetta hrekkur til, og mundi afla mönnum víðsýnis og þekkingar á sínu eigin þjóðlífi. Verkamanninum er þetta eins nauðsynlegt og hverjum öðrum manni í þjóðfélaginu, þó að staða hans sé af sumum mönnum ekki talin eins virðuleg og ýmsar aðrar.

Það mundi vafalaust verða vel séð hjá launastéttum landsins yfirleitt, að þetta lágmark yrði lögfest og hverjum einstaklingi tryggt að þurfa ekki að ganga eftir rétti sínum bónbjargaleiðina.

Það skaut einn hv. þm. fram í, hvort ekki væru fleiri stéttir, sem ekki fengju orlof. Þar sem hann telur sig talsmann bændastéttarinnar, þykist ég vita, að hann hafi átt við hana. Nú er það svo að nafninu til, að bændur, sem reka bú, eru atvinnurekendur og sínir eigin herrar yfir því að taka sín eigin orlof. (BSt: Já, aldeilis!). En því er ekki að neita, að þetta frv. nær einnig til fólks í sveitum, sem er launþegar í einhverri mynd. Nú er það vitanlegt, að bændur hafa sem betur fer leyft sér að taka sér orlof. Við þekkjum hinar kunnu bændareiðir. Bændur að norðan hafa tekið sér orlof til Suðurlands og gagnkvæmt, sér til kynningar, fróðleiks og hressingar. Fordæmið er skapað, og ég býst við, að slíkar reiðir um landið fari í vöxt.

Ég gæti búizt við andmælum gegn till. þessa frv., ekki sízt vegna þess, að þær leggja nokkrar kvaðir á atvinnureksturinn, sem kalla má óbeina kauphækkun. En það er nú víða orðinn sá skilningur á því að njóta ofurlítið heilbrigðrar hvíldar og ánægjulegrar tilbreytingar, að ég býst við, að almennt verði talið tilvinnandi að leggja við þessi 4%, svo að fólkið geti snúið sér að sínum störfum með nýjum kröftum, störfum, sem það vinnur árið út og árið inn.

Ég ætla ekki að fara út í þetta frv. að öðru leyti, því að hv. þm. mun vera það kunnugt. Hvað suma verkamenn snertir er ekki um breyt. að ræða, þar sem þeir hafa undanfarið fengið 12 daga orlof. En víðs vegar um landið hafa þeir ekki enn getað komið þessari réttmætu kröfu fram. Ég legg til, að málinu verði vísað til allshn., og vænti að málið fái afgr. frá n. og þessari hv. deild.