12.08.1942
Efri deild: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (664)

9. mál, orlof

Bjarni Benediktsson:

Um það verður ekki deilt, að þeir, sem eru í stöðugri vinnu allt árið, eiga rétt á orlofi, og er það ekki síður í þágu vinnuveitanda en verkamanna sjálfra. Má segja, að undanfarin ár hafi svo verið háttað í atvinnumálum okkar, að verkamenn hafi fengið sitt frí með öðrum hætti, ef frí skyldi kalla, sem sé fyrir tilstilli atvinnuleysisins. En hvar í flokki sem við stöndum, getum við verið sammála um það, að atvinnuleysi hafi verið einn svartasti bletturinn á atvinnumálum okkar árin fyrir stríðið, og að það hljóti að verða eitt helzta viðfangsefnið eftir stríðið að útrýma því. Menn getur greint á um það, hvernig þetta eigi að gera, en um hitt verður ekki deilt, að það er þjóðarnauðsyn. En þrátt fyrir nauðungarfrí það, sem ég nefndi áðan, hljóta allir að verða sammála um það, að sanngjarnt er, að vinnandi menn hafi frí í hlutfalli við þann tíma, sem þeir hafa unnið á sama stað, og geta ekki verið skiptar skoðanir um, að greiða beri fyrir því, að slík orlof komist á. Það hefur lengi tíðkazt hjá ýmsum stéttum, að þær fengju slík orlof, en hjá öðrum stéttum og þá líka verkamönnum hefur þetta verið að komast á smám saman. Mér er kunnugt um, að verkamenn, sem unnið hafa hjá Reykjavíkurbæ, hafa fengið sumarfrí síðan 1937, þó að það hafi verið nokkru skemmra en það, sem hér er gert ráð fyrir, og hefur þetta gefið góða raun. Og eins og hv. aðalflm. drap á, hafa ákvæði um slík orlof komizt inn í samninga Dagsbrúar og Hlífar við atvinnurekendur. En þrátt fyrir þá aðferð, sem höfð hefur verið um þetta hingað til, er ekki vafi á því, að þörf er allsherjar löggjafar, ekki sízt vegna þess, að nauðsynlegt er, að sömu reglur gildi um þetta í öllum héruðum landsins. En það getur ekki orðið á annan hátt en þennan, nema því aðeins að Alþýðusambandið semdi um þetta við atvinnurekendur, en þá er þess að gæta, að ekki eru allir atvinnurekendur í atvinnurekendasambandinu, og eru því ekki líkur til, að slíkir samningar kæmu brátt. Því fagna ég þessu frv. og fellst á efni þess. Ég get að vísu ekki dæmt um það, hvort tími muni vinnast til að afgreiða það á þessu þingi, og ég hef ekki getað kynnt mér frv. til fullnustu, en við fljótlegan yfirlestur virðist mér fyrirkomulagið vera nokkuð líkt því, sem gert er ráð fyrir í frv. Þó áskil ég mér rétt til að athuga það nánar, og mun ég því ekki að þessu sinni ræða einstök atriði málsins. En ég vil hér með lýsa ánægju minni með málið og fullum stuðningi við slíka löggjöf.