24.08.1942
Efri deild: 13. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (680)

65. mál, notkun byggingarefnis

Flm. (Bjarni Benediktsson) :

Ég hef leyft mér að flytja þetta frv. um notkun byggingarefnis. Ástæðan til þess, að það er flutt, er, að ekki verður um það deilt, að því byggingarefni, sem til landsins hefur komið, hefur verið ráðstafað að verulegu leyti öðruvísi heldur en hyggilegt má telja á þeim tímum, sem nú eru. Hins vegar fæst ekkert byggingarefni flutt til landsins nema fyrir opinbera íhlutun, og að ýmsu leyti eru neyðartímar, sem yfir landið ganga nú, sérstaklega um húsnæðismál. Er því full ástæða til þess, að hið opinbera hafi íhlutun um það, hvernig þessu byggingarefni er varið. Má að vísu segja, að við úthlutun innflutningsleyfa megi binda leyfin vissum skilyrðum um það, hvernig byggingarefnið skuli notað. En bæði er það, að það mundi ekki ná til þess byggingarefnis, sem þegar er búið að flytja inn, og svo líka hitt, að það er óeðlilegt að binda leyfin í upphafi til innflytjenda þessum skilyrðum. Enda mun reyndin hafa orðið sú, að það eftirlit, sem á þennan hátt hefur fengizt, mun ekki hafa komið að gagni.

Eina mótbáran, sem ég get hugsað, að fram komi gagnvart frv. þessu, er, að slík l., sem þetta frv. miðar að, séu okkuð seint sett og nú séu horfur á því, að byggingarefni muni síður flytjast til landsins heldur en áður, og að meira gagn hefði orðið að 1., ef þau hefðu verið sett fyrr. Þetta er eflaust rétt. En þeir, sem þessum málum eru kunnugir, telja óhjákvæmilegt að set ja l. um þetta, og betra er seint en aldrei. Ég hygg því, að sú mótbára ætti ekki að verða til þess að draga úr því, að þessi l. verði sett, heldur leiði hún til þess, að þau verði samþ. sem fyrst. Ég tel fulla ástæðu til þess að setja þessi l., og sérstaklega með tilliti til húsnæðisvandræðanna hér í Rvík tel ég brýna nauðsyn þess, að þetta frv. verði samþ. strax á þessu þingi, sem nú situr. Ég tel þó eðlilegt, að málið gangi til n., og vil ég leyfa mér að leggja til, að því verði að lokinni umr. vísað til allshn.