26.08.1942
Efri deild: 15. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (684)

65. mál, notkun byggingarefnis

Frsm. (Bjarni Benediktsson) :

N. hefur orðið sammála um að mæla með þessu frv. að meginefni til og hefur jafnframt fallizt á það að gera tvær brtt. við frv., 1. og 2. gr. þess. Brtt. við 1. gr. má segja, að sé frekar orðabreyt. Þar stendur nú „timburs, sements og steypustyrktarjárns“ í ,upptalningu byggingarefnisins, sem setja eigi reglur um notkun á, en við leggjum til, að þetta orðist svo: „allra aðaltegunda byggingarefnis, svo sem timburs, sements, steypustyrktarjárns, þakjárns, pappa, hitunartækja og röra til hvers konar lagna innan húss og utan“. Þetta er ekki alveg nógu ljóst í frv., eins og það er orðað. Þessi upptalning er aðeins dæmi, og var talið heppilegt og þarft að bæta nokkrum við, sem sérstök ástæða þótti til að geta um í þessu sambandi. En ef takmörkuð er notkun á þeim byggingarefnum, sem hér eru talin, þá skiptir það litlu máli, hvort slíkar takmarkanir ná til annarra tegunda byggingarefnis, og því er ekki þörf á að taka þær með í upptalninguna. Því að það gagnar mönnum ekkert, þó að þeir fái minni háttar efni til bygginga, ef þeir fá ekki meginefnið, sem til þeirra þarf.

Brtt. við 2. gr. frv. er meira en orðalagsbreyt. Það er líka nauðsynleg breyt. Þar er gert ráð fyrir því í frvgr., að það séu tveir menn í n. þeirri, er úrskurði um notkun byggingarefnis, og að úrskurður þeirra sé fullnaðarúrskurður. En í frv. vantar ákvæði um það, hver eigi að skera úr um notkun byggingarefnis, ef þessa tvo nm. greinir á. Við leggjum til í brtt., að ef þá greinir á, skeri ráðh. úr. Annars er þeirra úrskurður fullnaðarúrskurður.

Ég vona, að hv. þd. fallist á brtt. og frv. að þeim samþ. Einn nefndarmaður hafði að vísu fyrirvara um það, að hann áskildi sér rétt til þess að flytja brtt. eða verða með brtt., ef fram kynnu að koma. Ég get sagt það sama um okkur, formann n. og mig, að við erum óbundnir gagnvart öðrum brtt., ef fram koma, svo framarlega sem þær hagga ekki megintilgangi frv.

En viðvíkjandi því, sem hv. þm. Seyðf. (HG) drap á við fyrri umr., að það kynni að vera ástæða til að setja inn í frv. nánari fyrirmæli um það, hvaða byggingar skyldu ganga fyrir, þá er náttúrlega ákaflega erfitt að kveða á um það með almennum reglum, vegna þess að staðhættir eru mjög mismunandi, og verður nokkuð að fara eftir þeim. Vitanlegt er, að frv. er fyrst og fremst flutt vegna húsnæðisvandræða hér í bænum, og er því sjálfsagt, að íbúðarhús gangi fyrir, þegar ákveðið verður hér um það, hvernig byggingarefni skuli notað, og þá einkum þau íbúðarhús, þar sem flestir íbúar geta rúmazt með sem minnstri óþarfri eyðslu á húsrúmi. Vitanlega verður svo að byggja yfir atvinnufyrirtæki. En það, sem við sérstaklega höfum hugsað okkur, að verði hindrað með þessari löggjöf, er, að allt of stór einbýlishús verði reist á þessum tíma, og líka, að með öllu verði stöðvuð sala á efni til sumarbústaðabygginga og annars slíks, sem bíða má betri tíma. Það er vitanlegt, að frv. er flutt í þessum tilgangi, og ég tel ekki til bóta að taka þetta fram í l. En þetta hlýtur að verða leiðarstjarnan, sem eftir verður farið í framkvæmd þessara l., ef frv. verður að l. Og ég vil vænta þess, að hv. þd. geti fallizt á að samþykkja frv.