26.08.1942
Efri deild: 15. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í C-deild Alþingistíðinda. (685)

65. mál, notkun byggingarefnis

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég vildi leyfa mér að gera fyrirspurn út af þessu frv. til flm., hvernig í raun og veru ber að skilja 1. gr. og þá heimild, sem bæjar- og sveitarfélögum er gefin með þessum l. Nú er vitað, að ákaflega mikið af þessu byggingarefni er flutt til Reykjavíkur. Er þá ekki hættulega gengið á rétt dreifbýlisins, ef það byggingarefni kemur undir ákvæði þessara l., þannig að bæjarstjórn Reykjavíkur eigi að ákveða um það, hvernig þessu byggingarefni skuli varið? Verður þá ekki hætta á, að þeir menn, sem þurfa að sækja byggingarefni sitt hingað og hafa sótt það hingað til Reykjavíkur, en eiga heima úti á landi, beri skarðan hlut frá borði við framkvæmd þessara l., ef n. frá bæjarstjórn á að úthluta þessu efni? Þetta má að vísu fyrirbyggja með reglugerð. En því ber ekki að neita, að reynslan hefur sýnt, að það er svo um ákaflega mikið af járnvörum t. d. og fleiri vörum, að þær er ekki hægt að flytja á þessum tíma í smásendingum beint til verzlunarstaða úti um land, heldur verða vörurnar mjög oft að fara til Reykjavíkur fyrst til þess svo að dreifast héðan út um landið. Ég vil vita, hvort hugsað hefur verið fyrir þessu þannig, að þessi löggjöf verði ekki til að torvelda þeim að fá byggingarefni, sem þannig verða að fá vörur til sín fluttar eða fá þær að öðrum kosti ekki á þessum tímum.