26.08.1942
Efri deild: 15. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (686)

65. mál, notkun byggingarefnis

Hermann Jónasson:

Það er boðað í nál., að ég áskilji mér rétt til þess að vera með brtt., sem fram kynnu að koma, eða bera fram brtt. við frv., en jafnframt er tekið fram í nál., að ég sé eins og hinir nm. samþykkur þeirri megin-hugsun, að eðlilegt sé, að byggingarefni sé á einhvern hátt skammtað. En eins og hv. frsm. (BBen) tók fram, er þetta frv. frá hans sjónarmiði flutt með sérstöku tilliti til þess, að erfiðleikar eru nú með byggingarefni hér í Rvík, og finna menn hér að sjálfsögðu mest, hvar skórinn kreppir að í því efni. Ég vil ekki við þessa umr. fara sérstaklega inn á þá ágalla, sem ég tel vera á frv., eins og það nú liggur fyrir, heldur vil ég eingöngu skýra frá því, að ég mun við 3. umr. málsins koma fram með brtt. við frv., og það með sérstöku tilliti til þess, að svo er ráð fyrir gert í 1. gr., að „ef bæjar- eða sveitarstjórn óskar þess, skal ráðherra sá, sem fer með verzlunarmál, setja reglur um notkun allra aðaltegunda byggingarefnis ...“ En eins og vitað er, flyzt byggingarefni fyrst og fremst til Reykjavíkur og hinna stærri kaupstaða. Þetta ákvæði í frv. gæti þess vegna leitt til þess, ef ekki er sérstaklega komið í veg fyrir það með nánari reglum, sem um það væru settar, að byggingarefnið, sem til kaupstaðanna flyzt, verði tekið til nota fyrir þá kaupstaði, en sveitirnar fái ekki byggingarefni. Og það er ákaflega hætt við þessu, þegar þess er gætt, hvernig á að skipa þá n., sem með þessi mál á að fara. Ég held þess vegna, að það væri eðlilegra að kveða svo á í þessum l., að ráðh. setji um þetta sérstakar reglur, sem yrði einhver leiðarvísir um það, hvernig ákvæði þessara l. eigi að framkvæma. Með því, sem hér er gert ráð fyrir, komumst við inn á þá leið auk þeirra ágalla, sem ég benti á og hv. þm. Barð. (GJ) hefur líka bent á, að ráðh. þyrfti að skipta sér mikið af ákvörðunum um það, hverjum ætti að úthluta byggingarefni. Og það er alltaf óþægilegt fyrir ráðh. að þurfa að standa í því. Hins vegar, ef settar eru um þetta almennar reglur og það er falið einhverri stofnun ríkisins að ákveða um þessa úthlutun, t. d. skömmtunarskrifstofu ríkisins, þá mundi það geta fyrirbyggt, að byggingarefni stöðvist í kaupstöðunum og dreifbýlið fái ekki notið þess. Því að það er svo samkv. 2. gr. frv., að bæjarfélagið á að tilnefna mann í þessa n. og dreifbýlið hefur engan sérstakan fulltrúa í þessari n. Það má benda á það í þessu sambandi — og það var upplýst af einum embættismanni — að það er næstum ómögulegt nú að fá nokkra tegund byggingarefnis á Vestfjörðum. Það er svo t. d. í Strandasýslu. Og það er svo á ýmsum stöðum úti um allt land. Það er vegna þess, að skipi, sem átti að flytja byggingarefni, sem dreifbýlið átti að nota, var sökkt. En nú er hins vegar byggingarefni komið hingað, sem átti að fara hingað til Reykjavíkur. Og þó að skortur sé mikill á byggingarefni hér í bænum, þá er skorturinn á því í dreifbýlinu nú sem stendur miklu meir aðkallandi. En samkvæmt l. þessum, ef frv. verður samþ. eins og það er, og reglugerð, sem eftir því væri sett, er hugsanlegt, að það byggingarefni stöðvist hér, sem á að fara út á land, en er skipað hér upp í Rvík. En víða eru hrein vandræði úti um land vegna skorts á byggingarefni.

Ég er með því að vísa þessu frv. til 3. umr. með þessu móti, að ég boða brtt., sem ég mun flytja við það, en ætla ekki að ræða málið nánar nú.