26.08.1942
Efri deild: 15. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í C-deild Alþingistíðinda. (688)

65. mál, notkun byggingarefnis

Jónas Jónsson:

Ég vil út af þessu máli benda hv. flm. á það, að ég held, að í sambandi við þessa hugmynd, sem fyrir okkur vakir með frv. og ég held að nauðsynlegt sé að framkvæma, vegna þess að útlit er fyrir, að ákaflega lítið verði um byggingarefni í landinu á næstunni, þá þyrfti að taka þetta á öðrum grundvelli. Það þyrfti að hafa landsnefnd, sem skipti þessu efni þannig, að t. d. Samband íslenzkra samvinnufélaga, Verzlunarráð Íslands, og t. d. Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélag Íslands hefðu hvert sinn fulltrúann í þessari n., sem sæi um skiptingu byggingarefnisins. Ef þannig væru 4 menn frá þessum 4 stofnunum í þessari n., þá hefði n. rætur úti um allt land. Og með einhverju slíku móti mætti ná þeirri skömmtun, sem þarf að hafa í þessum efnum. En ég ætla, að það væri ekki hyggilegt, að skömmtun þessi gerðist í kaupstöðunum einum.