26.08.1942
Efri deild: 15. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (690)

65. mál, notkun byggingarefnis

Frsm. (Bjarni Benediktsson) :

Ég vil ítreka það, að ég tel, jafnvel eins og frv. er nú óbreytt, nægilega tryggilega frá því gengið, að ekki verði hallað á sveitirnar. Ef hv. þdm. hins vegar álíta, að ekki sé nægilega tryggilega frá þessu gengið fyrir sveitanna hönd, þá er það náttúrlega þeirra hv. þm. að koma fram með brtt. við frv., sem við svo athugum. En ég mótmæli því, að af þessu frv., þó að l. yrði eins og það er, þyrfti að leiða það, sem hv. þm. Barð. (GJ) talaði um, að svikin yrðu loforð um sölu á byggingarefni héðan úr Rvík til annarra landshluta. Ég álít, að það eigi að taka fullkomið tillit til þess innan ramma l., hver nauðsyn er fyrir byggingarefni á hverjum stað á landinu.

Ég var fyrst á þeirri skoðun, að heppilegt væri að hafa þá skipun á þessum málum, sem hv. þm. S.-Þ. (JJ) talaði um, eða svipaða því. En við athugun komst ég á þá skoðun, að það fyrirkomulag mundi verða svo þungt í vöfum, að ekkert yrði þá framkvæmt af þessu eftirliti. En ef hv. þdm. telja það færa leið, vil ég ekki mæla á móti því sérstaklega. En ég tel ekki fært að ganga inn á skömmtun byggingarefnis, sem gilda eigi hér í bænum, án þess að bæjarstjórn hafi þar íhlutun — á ég þar ekki við það byggingarefni, sem út á land á að fara, heldur það efni, sem á að koma til nota hér í bænum. Ég ætlast ekki til þess, að bæjarstjórn Reykjavíkur ráðstafi eða hafi áhrif á ráðstöfun þess byggingarefnis, sem á að fara út á land. En ég álít það ekki góða lausn á þessu máli, ef á að útiloka bæjarstjórn Reykjavíkur frá því að hafa áhrif á að ráðstafa því byggingarefni, sem bæjarbúum er ætlað til sinna nota. Því að tilgangurinn með þessu frv. er m. a. að hindra það, að út um byggðir séu reistir sumarbústaðir handa Reykvíkingum á þessum tíma, sem má kalla neyðartíma með tilliti til húsnæðisvandræðanna.

Ég finn, að þó að nokkuð séu skiptar skoðanir um leiðir, þá erum við allir sammála um meginefni frv. En þeir, sem vilja breyta frv., geta þá komið með brtt.