28.08.1942
Efri deild: 17. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í C-deild Alþingistíðinda. (694)

65. mál, notkun byggingarefnis

Gísli Jónason:

Ég hef borið fram brtt. við þetta frumv. á þskj. 148. Er þar farið fram á, að undanþegið ákvæðum þessara l. verði allt byggingarefni til skipaviðgerðar og skipabyggingar, svo og allt byggingarefni, sem selt er til byggingar í sveitir landsins, þó ekki efni til sumarbústaða.

Ég tel algerlega óviðeigandi, að þessu máli sé þannig fyrir komið, að í hvert skipti, sem nota þarf efni til skipabygginga, skuli þurfa að sækja undir þessa n., sem mér skilst, að eigi að vera að hálfu leyti skipuð af bæjarstjórn Reykjavíkur. Óska ég því, að þessi till., sem ég ber hér fram, nái fram að ganga og frv. þannig breytt samþ. Ég tel það líka til stórbóta fyrir dreifbýlið, ef frv. verður að l., að undanskilið sé ákvæðum þessara laga allt það efni, sem selt er til bygginga í sveitum landsins. Það er vitanlegt, að ákaflega mörg héruð verða að sækja í smáskömmtum byggingarefni hingað til höfuðstaðarins og eiga þess ekki kost að fá það nær né með betri kjörum annars staðar.

Ég hef einnig gert ráð fyrir því í þessari brtt., að þegar ráðh. setur reglur samkv. 1. gr., skipi hann jafnframt 3 menn í nefnd, er úrskurði um það, sem ágreiningi kann að valda, í stað tveggja manna, eins og til er ætlazt í frv. Þykir mér þetta eðlilegra en að tveir menn séu í n., og ráðh. síðan að úrskurða, ef þeir eru ekki sammála, til hvers hvert einstakt borð eða planka skuli nota. Hygg ég, að verði þessu ákvæði ekki breytt, muni skapast hér líkt ástand og skapaðist um bifreiðaúthlutunina, að ráðh. hefði engan frið, hvorki utan skrifstofu né innan, en væri sífellt önnum kafinn við að úrskurða, hvernig þessum og hinum borðunum og plönkunum yrði varið.

Loks er brtt. við 3. gr. um, að í stað orðanna „allt að 50 þús.“ komi: 500–10000. Mér finnst hlægilegt að ákveða 50 þús. kr. sekt fyrir brot á l., sem vitað er fyrir fram, að munu verða brotin svo að segja daglega, þó að þau verði sett.