28.08.1942
Efri deild: 17. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (696)

65. mál, notkun byggingarefnis

Atvmrh. (Magnús Jónsson) :

Það eru tímar alls konar hafta og ráðstafana nú, og verða því jafnvel þeir, sem annars eru ekki hrifnir af slíkum hlutum, að dansa með í þeim dansleik. Og m. a. hefur mér verið ljóst, að ef á annað borð ætti að grípa inn í um þetta mál, úthlutun á byggingarefni, þá væri það ómögulegt, nema um það væru til l., svipuð þeim, sem hér er um að ræða. Það hefur verið deilt nokkuð á ríkisstj fyrir það, að hún hafi ekki í sambandi við gerðardóminn gert ráðstafanir til þess að hindra vissar byggingarframkvæmdir. En sannleikurinn er sá, að það hefði verið ómögulegt, án þess að stuðzt hefði verið við l., sem að vísu hefði mátt gefa út sem brbl. En annars hafa ekki aðrar ráðstafanir verið gerðar en þær, að til þess að fá sement til annarra bygginga en íbúðarhúsa hefur þurft leyfi frá ráðuneytinu. Ráðstafanir eins og þær, að gera það að skilyrði fyrir flutningi á timbri, að það verði notað til vissra tiltekinna bygginga, eru gagnslausar. Því að hver á að fylgja timbrinu eftir til þess að geta vitað um, hvert það fer og til hvers það verður notað? En úthlutunin á byggingarefni nú er þannig, að það er sjálfsagt full nauðsyn á að set ja l. um þá úthlutun. Og ég er fyrir mitt leyti alveg meðmæltur því, að slík löggjöf í þessa átt, sem hér er um að ræða, verði samþ. af þinginu. Það er hins vegar ekki því að neita, að hér er um mikið vandamál að ræða. Og ef þetta þing setur löggjöf í þessa átt, þá er við það sá höfuð kostur, að þing á að koma saman fljótt aftur, svo að eftir því, hvernig þessi löggjöf reynist, má þá á næsta þingi breyta henni, ef ástæða þykir til. Og þetta atriði er einmitt töluverð ástæða til þess, að þetta þing gangi frá þessari löggjöf nú, að það fengist stuttur, en mjög gagnlegur tími til reynslu á þessari löggjöf til næsta þings.

Mér virðist brtt. á þskj. 156, frá hv. flm. frv., vera í alla staði eðlileg, enda skildi ég frv. á þann veg eins og þar er ákveðið, að það sé átt við það byggingarefni, sem til sé á hverjum stað og flutt er þangað og ætlað er til að notast þar. Því að hitt er óhugsandi, að það yrði nokkurn tíma framkvæmt þannig, að það byggingarefni, sem lagt er upp í einhverjum kaupstað, eins og t. d. hér í Rvík, yrði kyrrsett á þeim stað og að l. verkuðu í þá átt. En það er rétt að taka þetta nánar fram í l., samkv. því sem til er tekið í brtt. á þskj. 156.

Viðvíkjandi brtt. á þskj. 148 vil ég segja það, að ég er smeykur við ákvæði 1. gr., þar sem lagt er til, að við verði bætt, að undanþegið sé allt byggingarefni til skipaviðgerðar og skipabyggingar, svo og allt byggingarefni, sem selt er til byggingar í sveitir landsins, nema efni til sumarbústaða. Því að alveg eins og hv. flm. brtt. (GJ) tók fram, að þessi l. mundu verða brotin á hverjum degi, þá mundi þetta ákvæði verða mjög erfitt í framkvæmd. Og því erfiðari verða þessi l. í framkvæmd, því fleiri sem lekagötin eru á þeim í upphafi. Og ef allt þetta byggingarefni, sem í þessari brtt. getur, væri undanþegið eftirliti, þá væri búið að gera þessa löggjöf þannig, að ómögulegt er að framkvæma hana. Á þessum tíma mundu menn ekki telja eftir sér að flytja byggingarefni til þannig að taka það upp, þó að búið væri að flytja það út á land til bygginga í sveitum landsins, og flytja það hingað aftur og nota það svo til ónauðsynlegra bygginga. Slíkt mundu menn ekki telja eftir sér. Ég held því, að það sé alls ekki fært að samþykkja þessa brtt. Aftur á móti virðist mér 2. brtt. hans, svona við fljótlega athugun, vera öllu betra fyrirkomuleg heldur en gert er ráð fyrjr í frv., það að hafa 3 nefndarmenn í stað 2, er skipaðir séu af ráðh. til þess að hafa þessa framkvæmd með höndum. Og ég vil segja í sambandi við það einnig um 1. brtt. á þskj. 136, frá hv. þm. Str. (HermJ), að ég held, að í svona n. sé eðlilegast, að ráðh. tilnefni menn. Það er ekki af því, að það sé svo æskilegt fyrir viðkomandi ráðh., hver sem yrði að gera það. En það er til þess að stofna ekki fyrir fram til togstreitu í þessari n. Ef þessi n. á að verða að nokkru gagni, verður hún að vinna sem allra embættislegast, sem sé, að í henni séu menn, sem hvorki eiga að hafa né hafa tilhneigingu til að gæta sérhagsmuna, heldur taka til greina fyrst og fremst þá nauðsyn, sem fyrir hendi er í byggingamálunum á hverjum stað. Ef vissar stéttir eða hagsmunasamtök hafa fulltrúa í slíkum n., hefur það reynzt mjög mismunandi gagnlegt, en varpar þeim blæ á, að alltaf séu deilur í þeim nefndum. Hins vegar mundi ráðh. skipa í slíka n. menn, sem hafa aðstöðu til að úrskurða þetta óhlutdrægt eins og dómstóll.

Um aðrar brtt. skal ég ekki neitt fjalla. Ég verð að játa, að ég er ekki alveg viss um, hvers vegna skömmtunarskrifstofa ríkisins ætti að hafa framkvæmd þessara ráðstafana. Og sérstaklega held ég, að það yrði nokkuð erfitt að eiga að fara að meta, á hvern hátt vissir landshlutar hafa orðið út undan með að fá til sin byggingarefni og að eiga að bæta það upp. Held ég, að í hvert skipti yrði af viðkomandi héruðum nokkur málafylgja höfð, og að erfitt yrði þar úr að skera, því að ég hef ekki talað við nokkurn hv. þm., sem ekki telur sinn landshluta og kjördæmi hafa orðið sérstaklega út undan í þessu og fleira. Það yrði því harðvítugur málaflutningur.

Ég held, að það yrði reynt að haga þessu eftirliti svo, að ekki yrði meiri kostnaður við n. til þessarar úthlutunar en nauðsyn er á. Það eru til starfskraftar, sem eru færir um þetta og hafa æfingu í slíku.

Ég vil mæla með því, að þetta frv. fái afgreiðslu svo fljótt, að það gæti orðið að l. á þessu þingi, sem búast má við, að fari nú að styttast.