04.09.1942
Efri deild: 23. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (706)

74. mál, einkasala á bifreiðum, rafvélum, rafáhöldum o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það, sem kemur mér til að taka til máls um frv. það, sem hér er til umræðu, er sú hugarfarsbreyting, sem átt hefur sér stað á meðal framsóknarmanna og Alþfl. í þessu máli, frá því að það var til umr. í Sþ., þegar rætt var um að skipa n. til að úthluta bifreiðum. Ef þeir hefðu viljað vera sjálfum sér samkvæmir frá degi til dags í þessu máli, áttu þeir sjálfir að koma sér saman um að bera fram till. um afnám einkasölunnar og skilja ekki við hana fyrr en hún hefði náð samþykki Alþ.

Þegar þáltill. um nefndarskipunina kom fram í Sþ., mætti hæstv. fjmrh. á fundi hjá allshn. til þess að gefa skýrslu um bifreiðaúthlutunina. Eftir að sú skýrsla hafði verið gefin og rædd, lýsti frsm. n., hv. þm. Ísaf., yfir því, að ályktunin væri ekki komin fram sem ásökun á fjmrh. fyrir pólitíska hlutdrægni við úthlutun bifreiðanna. Var þessu ekki mótmælt af neinum nefndarmanna, hvorki úr Framsfl., Alþfl.Sósfl. Þar með var það viðurkennt, að málið væri ekki borið fram til þess að gera árás á Sjálfstfl. eða ráðherra hans. Þótti mér að sjálfsögðu vænt um þá viðurkenningu. Hefur hún heldur ekki verið hrakin hér í þessari hv. deild, þótt hv. þm. S.-Þ. hafi haldið allt öðru fram í ræðu sinni, alveg án nokkurra raka. Það, sem á milli bar sjálfstæðismanna og hv. þm. úr hinum flokkunum í þessu máli, var það, að sjálfstæðismenn vildu tryggja það, að réttlát úthlutun ætti sér stað um þær bifreiðar, sem ekki var farið að úthluta, og því lögðu þeir til, að skipuð yrði n. alveg sérstaklega til þess að semja reglugerð um það, hvernig þessu réttlæti skyldi náð með aðstoð allra aðila, sem hér áttu hlut að máli, með það fyrir augum að tryggja hag alþjóðar eftir því, sem hægt er, í meðferð þessa máls. Þetta vildu hinir flokkarnir ekki, hvorki Alþfl., Framsfl. né Sósfl. Þeir börðu það fram, að hér væri kosin 3 manna n., sem viðhaldið gæti pólitískri togstreitu um málið, þótt vitað væri fyrir fram, að hún gæti ekki haft neitt vald til þess að úthluta bifreiðum. Samkv. l. er einkasölunni gefinn einkaréttur á innflutningi bifreiða og þá að sjálfsögðu einnig einkaréttur um úthlutun þeirra, því að það getur ekki samrýmzt og er algerlega gagnstætt anda laganna og venjum öllum að gefa einkarétt um innflutning á vöru og taka af eða takmarka á sama tíma úthlutunarréttinn. Stofnun þessi vinnur á ábyrgð fjmrh., og þess vegna er það að sjálfsögðu á hans valdi að grípa inn í, hvenær sem honum kann að þykja ástæða til, um úthlutun, ef hann telur, að með því sé betur séð fyrir hag almennings. Þetta er ekki einasta réttur hans, heldur og bein skylda hans, sem verður ekki breytt né afnumin með þál. Að fjmrh. greip hér fram í, kom beinlínis til af því, að hann áleit sig knúðan til þess vegna almenningsheilla. Till. frsm. og þeirra flokka, sem þeim fylgdu í þessu máli, er því það frekasta vantraust, sem komið hefur fram á bifreiðaeinkasöluna og forstjóra hennar, en ekki á fjmrh., enda gáfu þeir honum réttmæta viðurkenningu fyrir afskipti sín af málinu í upphafi umræðnanna. Þess vegna kemur mér það einkennilega fyrir sjónir nú, að það skuli einmitt vera þessir menn, sem vilja halda hlífiskildi yfir stofnun, sem þeir eru nýlega búnir að samþykkja eitthvert það mesta vantraust, sem samþ. hefur verið á nokkra stofnun. Sjálfstflm. játa, að ýmislegt mætti segja um þessa stofnun, en þeir vildu ekki vera með í því að samþykkja svo róttækt vantraust á hana, eins og gert var með samþykkt þál. í Sþ. fyrir skömmu, einkum er þeir og, vissu, að það var í frekasta lagi óþinglegt að samþykkja slíka ályktun, nema að hafa breytt áður l. um bifreiðaeinkasöluna, en offorsið var svo mikið að koma þessu vantrausti fram á sitt eigið afkvæmi, að þess var ekki gætt, sem gæta þurfti um meðferð málsins.

Hvað snertir frv. það, sem hér er til umr., þá er það fyrst og fremst komið fram vegna þeirra staðreynda, að þessi stofnun, sem með 1. 1935 fékk þann rétt að flytja ein inn bifreiðar, hefur brugðizt skyldu sinni um að afla landinu nægilegs bifreiðakosts og það svo, að nú er upplýst, að aðrir menn, sem ekki áttu að hafa þessar skyldur, hafa birgt landið upp á síðari árum með meira magn af bifreiðum en einkasalan, sem þó ein hafði skyldurnar. Þessir menn urðu að sjálfsögðu að yfirstíga alla þá sömu örðugleika sem einkasalan hafði um innflutning á bifreiðum, og auk þess að greiða 17% aukaskatt til bifreiðaeinkasölunnar fyrir það eitt að hafa af þeim innflutningi engin afskipti. Hygg ég, að flestir hafa greitt þann skatt með ánægju til þess að vera lausir við afskipti hennar af innflutningnum. Ef þetta eru ekki rök fyrir því, að leggja beri niður einkasöluna, þá veit ég ekki, hvað eru rök.

Hv. þm. S.-Þ. vildi halda því fram, að skorturinn á bifreiðunum stafaði af gjaldeyrisvandræðum. En ég vil minna á í því sambandi, að sumir menn vilja gjarnan skjóta sér bak við það, að allt sleifarlag sé fyrir gjaldeyrisvandræði. Þeim er alltaf kennt um, ef ekki er hægt að uppfylla kröfurnar. En ef við lítum dálítið til baka, minnumst við kannske þess, að á þeim tímum voru menn, sem áttu þess kost að selja saltfisk á nýjum markaði fyrir snöggtum hærra verð en hægt var að fá, gegn því að taka upp í þá sölu það magn bifreiða, sem landið þyrfti nauðsynlega að nota, en þá var álitið, að bifreiðar væru svo mikil luxusvara, að ekki mætti leyfa þann aukna innflutning til landsins, þótt hann jafnframt yki að sama skapi útflutningsverðmæti þjóðarinnar og atvinnu.

Það mætti margt um þetta segja, en því meira sem sagt er um það, því verri er hlutur einkasölunnar og þeirra manna, sem báru ábyrgð á henni og gjaldeyrismálunum á þeim tíma.

Hvað viðvíkur því, sem hv. þm. Seyðf. minntist á, að rétt væri að taka allar vörur nú undir einkasölu eða landsverzlun, þá vil ég segja það, ef hann vill alveg sérstaklega fá sama sleifarlagið á matvöruinnflutninginn til landsmanna eins og verið hefur á bifreiðum, síðan bifreiðaeinkasalan var stofnuð, þá get ég skilið, að hann vilji fá matvöruverzlunina undir einkasölu, en vilji hann það gagnstæða, er óskiljanlegt, hvernig jafnmerkur þm. og hann getur komið fram með á Alþ. jafnvanhugsaða till. og þá, sem hann minntist hér á, þegar hann jafnframt veit, að verzlunarmálin eru langverst leyst af hendi af einkasölu af öllum þeim aðilum, sem með þau hafa farið hingað til. Má því til sönnunar benda á, að síðan rafmagnsvörur voru leystar undan einkasölunni, hafa engin vandræði orðið að fá þær vörur og það þótt erfiðleika hafi gætt í því að fá ýmsar aðrar vörur. Til dæmis hefur bifreiðaeinkasalan einkaleyfi á sölu útvarpstækja, og hvernig er ástatt um þau mál? Væri æskilegt, að innflutningur á matvælum kæmist í sama horf ?

Hv. þm. S.-Þ. minntist á erfiðleika lækna í Þingeyjarsýslu á því að fá bíla. Í sambandi við það vil ég benda honum á, að ákveðið hefur verið, að allt að 2/3 þeirra 150 bíla, sem nú eru komnir hér á land, skuli úthlutað til atvinnubílstjóra og bifreiðastöðva, 1/3 hlutinn er þá eftir handa öðrum, þar á meðal handa læknum í Suður-Þingeyjarsýslu.

Hv. þm. sagði líka, að hlutverk forstjórans hefði aðeins verið það að kaupa inn bíla. Ég hef nú aldrei fengið slíka skýringu á viðskiptamálum fyrr. Ég held, að það sé ekki síður hlutverk forstjóra verzlunarfyrirtækis að selja vöruna en kaupa. Hitt er aðeins fyrirkomulag, sem rauðu flokkarnir vilja hafa nú um skeið á bifreiðaeinkasölunni, af því að þeir ráða ekki sjálfir yfir þeirri stofnun, en um almenna verzlun gildir það ekki.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar, en læt í ljós þá von mína, að þeir flokkar, sem voru á móti þál. þeirri um skipun n. til að úthluta bifreiðum, sem fram var borin í Sþ., sjái sér fært að breyta ákvæðunum um þetta til batnaðar á næsta þingi eða þá fá því framgengt, að niður verði lögð þessi stofnun, sem hlotið hefur ákveðnara vantraust á Alþ. en nokkur önnur ríkisstofnun.