18.08.1942
Efri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

30. mál, alþýðutryggingar

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Eins og sjá má á þskj. 61 frá allshn., hefur verið mikið um það rætt í n., hvort sá munur, er gilt hefur í l. um alþýðutryggingar, ætti að haldast áfram, að tillag fyrir ofan 4500 kr. væri helmingi hærra til sjúkrasamlagsins. Nú er gjaldið 6.50, en tvöfalt 13 kr. — Með frv. þessu er gert ráð fyrir að leiðrétta þetta að nokkru, og er þetta mark hækkað um 1000 kr., en það tel ég vera of litla hækkun, eins og nú standa sakir. Það er alveg ljóst mál, að með hækkuðu kaupgjaldi hækka tekjur manna, og tekjur manna verða mun hærri í ár en síðastliðið ár. Ég sé því ekki fram á annað en að mikill þorri verkamanna verði að greiða hærra gjaldið, 13 kr., þó svo, að markið verði hækkað um 1000 kr. frá því, sem í l. er, og ég er viss um, að þetta mundi valda óánægju hjá verkamönnum almennt. Ég hef því borið fram hér brtt., þar sem farið er fram á það, að þetta greiðslumark verði ekki aðeins hækkað upp í 5500, heldur upp í 7000 kr til samræmingar á tekjuaukningu, sem átt hefur sér stað á þessu ári. Ég skal að vísu játa, að ég hef ekki átt þess nægan kost að kynna mér nógu rækilega, hvort þetta er ósanngjarnt gagnvart tryggingarstofnuninni, en þó veit ég, að tala þeirra, er greiða tvöfalt gjald til sjúkrasamlagsins hefur aukist mjög mikið.

Svo var til ætlazt á síðasta þingi, að endurskoðun færi fram á tryggingarl., en mér er ekki kunnugt um, að neinn undirbúningur væri hafinn í því efni, og gæti hæstv. fjmrh. skýrt frá því, hvort svo muni vera, þar sem þessi mál heyra undir hann. En á meðan þessi tvískipting gjaldsins kemur til greina, tel ég rétt að flytja þessa brtt. og vænti þess, að hv. þm. láti hana ná fram að ganga.