19.08.1942
Neðri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í C-deild Alþingistíðinda. (731)

58. mál, skipaafgreiðsla Eimskipafélags Íslands h/f

Ingólfur Jónsson:

Það verður ekki hjá því komizt að hugsa um það alvarlega ástand, sem nú ríkir hér við höfnina, og hvernig það gengur yfirleitt með siglingar okkar. Það er yfirlýst að skipin fari nú ekki nema 4 ferðir á ári, þannig að það taki 3 mánuði að fara hverja ferð. Það er oft og einatt vegna þess, hve lengi er verið að afgreiða skipin, bæði hér og erlendis, og líka a. n. l. vegna þess, að þau þurfa að bíða eftir því að komast í skipafylgd. En það er alvarlegur hlutur, að því hefur verið yfirlýst, að helmingur þess skipakosts, sem við höfum haft á leigu undanfarið, verði tekinn úr leigu og skipin hér á höfninni eru ekki afgreidd. Ég skal ekki leggja neinn dóm á það, hvort kröfur verkamanna í þessu efni eru ósanngjarnar eða ekki. En ég get lýst því yfir, að ég er ekki neinn kaupkúgunarmaður og vil ekki stuðla að því, að verkamenn sitji við slæman hlut. Ég ætla ekki að ræða um það, hvort verkamenn eigi að fá kaupuppbót eða ekki. En ég álít óforsvaranlegt á tímum þeim, sem við nú lifum á, með þeim litla skilakosti, sem við eigum kost á, að koma vinnustöðvun á við afgreiðslu skipanna. Og ég álít, að verkamenn hefðu getað komið kröfum sínum fram án vinnustöðvunar. Ég álít, að þeir hefðu getað gefið nægilega langan tíma, til þess að hægt væri að undirbúa málið. Þeir gátu haldið áfram vinnu meðan samningar stóðu yfir. Ég álít, að á þessum tímum sé það ábyrgðarhluti og beri vott um ábyrgðarleysi að stofna til vinnustöðvunar. Verkamenn og verkamannafélög geta sett sinar kröfur fram, en þau eiga að sýna þá ábyrgðartilfinningu og þegnskap að halda vinnu áfram undir þessum alvarlegu kringumstæðum meðan samningar standa yfir. Nú liggur fyrir í þjóðfélagi okkar að taka upp allsherjar samninga við verkalýðsfélögin, og ég er því fylgjandi. Og geri mér ljóst, að verkalýðurinn í landinu er afl, sem ekki er hægt að ganga fram hjá, og það er ekki hægt annað en að semja við verkamenn. En þegar vinnuveitendur ganga að samningsborðinu, gera þeir þær kröfur á hendur verkalýðsfélögunum, að þau standi við gerða samninga. Og þegar nú vinnuveitendur og verkalýðsfélög taka upp samninga, þá skora ég á þá, sem miklu ráða í þeim félögum, að stuðla að því, að vinnustöðvun verði ekki, meðan samningar standa yfir, og stuðla að því, að samningarnir verði haldnir og ekki komi fram brot á samningunum stuttu eftir að þeir eru undirskrifaðir, því að upp á slíkt þýðir ekki að semja. En ég tel það í hæsta máta háskalegt, að skipin hér við höfnina skuli vera stöðvuð. Mér var sagt það í morgun af einum hv. þm., að ameríska herstjórnin væri farin að skipa upp úr einhverju af skipunum, sennilega skipi eða skipum, sem þeir sjálfir eiga. En þar er um að ræða, að ameríska herstjórnin er farin að vinna verk, sem íslenzkum verkamönnum er ætlað að vinna. Og eitt er víst, eins og síðasti ræðumaður tók fram, að ameríska herstjórnin hefur gefið ábendingu um það, ef Íslendingar leystu ekki þessi mál sjálfir, að hún mundi láta til skarar skríða. Hv. 2. þm. Reykv. (EOl) sagði, að ef við ekki leystum fljótt þessa deilu, mundi erlent vald hlutast til um, að deilan yrði leyst, og ég hygg, að þeir muni færri, sem óska eftir því, að erlent vald hlutist til um mál okkar. Og það er slæmt, ef Íslendingar geta ekki sjálfir ráðið sínum eigin málum og forðazt það að vinna stöðvist við höfnina á þessum háskasömu tímum.

Ég held, að það geti verið háskalegt í þessu máli, að bíða með að leysa deiluna eftir því, að þetta frv., sem hér liggur fyrir Alþ., verði afgreitt og gert að l. Þetta er lagafrv. og verður að ganga í gegn um báðar d. Alþ., 6 umræður, og það er ekki hægt að hespa það af á einum degi (EOl: Jú, það er hægt.) En það má ekki dragast, að þessi deila verði leyst, þannig að íslenzkur verkalýður fari aftur að vinna hér við höfnina. Og það má aldrei henda, að ameríska herstjórnin hlutist til um mál, sem koma okkur einum við.