18.08.1942
Efri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

30. mál, alþýðutryggingar

Frsm. (Bjarni Benediktsson) :

Það má segja, að þessi brtt. hafi verið boðuð og þess vegna komi hún mönnum ekki á óvart, en þó var hún ekki lögð fram fyrr en á þessum fundi. Það er fullvíst, að hefði hún komið fram fyrr, hefði ég a. m. k. tekið til athugunar, hvort ekki væri rétt að bera fram brtt. um að fella 34. gr. 1. alveg niður í samræmi við það, sem ég sagði áður. Hv. þm. Seyðf. (HG), sem er þessu manna kunnugastur, færði að því glögg rök nú og gat einnig um það við 2. umr., að þessi ákvæði eru ósanngjörn og eiga ekki lengur við eftir þær miklu breytingar, sem nú eru orðnar á tekjum manna í bæjum og kaupstöðum. En þó að ég geti að sumu leyti verið sammála rökum hv. þm. Seyðf. í þessu efni, þá fannst mér hann ekki gera alveg nógu glögga grein fyrir þeim ástæðum, sem lágu upphaflega að því, að þessi skilsmunur var upphaflega settur í l. Ef þessir menn hefðu alveg verið undan skildir að greiða iðgjöld, þá hefðu þeir verið alveg fyrir utan sjúkrasamlögin og áttu ekki að greiða nein gjöld til þeirra, og þá voru ástæður hv. þm. Seyðf. fullnægjandi, en nú var svo ekki. Þessum mönnum var gert skylt og er enn að greiða iðgjöld. Fyrst fengu þeir engan rétt fyrir iðgjöld sín, en síðan áttu þeir kost á að komast í trygginguna með því að greiða helmingi hærra gjald. Með þessu var horfið frá tryggingargrundvellinum og farið inn á sérstaka aðferð skattheimtu, sem hefur orðið óvinsæl og gert l. a. m. k. í upphafi verr þokkuð en ella hefði orðið og, eins og hv. þm. Seyðf. nú sagði, sízt leitt til góðs fyrir samlögin, og frá þeirra eigin sjónarmiði virðist því full ástæða til að fella þetta niður. Því fæ ég ekki annað séð en að frá upphafi hefði verið betra að hafa þetta ákvæði ekki og sérstaklega eigi það nú ekki lengur við, enda skilst mér, að hv. þm. Seyðf., sem hefur sérþekkingu á þessu, þar sem hann er formaður tryggingarstofnunarinnar, sé því út af fyrir sig meðmæltur, að þetta ákvæði verði niður fellt. En ef það er nú svo, að hann sé þessu meðmæltur, og ég veit, að hann hefur athugað málið allra manna bezt, þá vil ég bera fram þá fyrirspurn, fyrst þessar umr. eru nú, hvort við getum ekki sameinað okkur um brtt. strax á þessu stigi málsins. Ég hefði að vísu getað hugsað mér að láta þetta dragast, þangað til endurskoðuninni væri lokið, en úr því að forstöðumaður tryggingarstofnunarinnar telur, að frá sjónurmiði samlaganna sé þetta ákvæði sízt til góðs, og hins vegar er upplýst, að ekki er enn byrjað á þessari endurskoðun og með öllu óvíst, hvenær hún verður, þá sé ég ekki, að eftir neinu sé að bíða og geti orðið einungis til ills.

Um brtt. þá, sem hér liggur fyrir, vil ég segja það, að ég mun ekki verða á móti henni, en ég tel hana ekki fullnægjandi og ekki ráða bót á neinu, sem hér kann að vera áfátt, en ég játa þó, að með þessu er komið inn á annan grundvöll en þann, sem í stjfrv. er fólginn. Ég sé ekki betur en frá þeirri hugsun, sem hér er til grundvallar, sé rökrétt ályktun að fella ákvæðið með öllu niður, enda heyrðist mér, að tillögumaður væri líka á þessari skoðun, þó að hann vildi bíða eftir þessari endurskoðun. En hann telur svo mikla nauðsyn að breyta þessari till., að hann ber fram brtt., en ég tel þá brtt. ófullnægjandi, því að það eru miklar líkur til, að margir af þessum mönnum, og margir þeirra eru verkamenn, sjómenn og aðrir slíkir, verði eftir sem áður að greiða tvöfalt gjald, svo að brtt. nær ekki tilætluðum árangri. Það liggja engin gögn fyrir í málinu um það, heldur þvert á móti, og ekki sízt með þeim grundvelli, sem nú er orðinn eða í aðsigi, þá sýnist mér, að þetta ákvæði kunni að vera ófullnægjandi frá sjónarmiði hv. tillögumanns. Mér finnst því allt hníga að því, að við ættum að sameina okkur um að fella niður þessa umræddu gr. á þessu þingi, — snúa frv. í þá átt. Ég geri þetta ekki að kappsmáli og mun ekki greiða atkv. á móti brtt., en ég vil spyrja hv. þm. Seyðf., hvort hann sé ekki viðmælanlegur um að fresta þessu nú og styðja brtt. í þá átt, sem ég nú hef rætt um, ekki sízt vegna þess, að það er ljóst, að þessi umrædda endurskoðun á langt í land.