13.08.1942
Neðri deild: 6. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í D-deild Alþingistíðinda. (762)

23. mál, vélar og efni fiskibáta

Flm. (Finnur Jónsson) :

Það stendur svo á með vélar handa fiskibátum landsins, að þær eru að mestu leyti keyptar frá Norðurlöndum. Af vélum í 510 mótorskipum hér við land lætur nærri, að ekki séu nema rúmlega 20 vélar frá þeim löndum, sem við höfum samgöngur við, en hinar allar 490 eru frá þeim löndum, sem samgöngur eru lokaðar við.

Við athugun á skýrslum Fiskifélags Íslands um þetta efni, frá því árið 1922, virðist mér aldur véla í mótorskipum vera sem hér segir:

1–5 ára

..........

125

vélar

5–10 –

..........

186

10–15- -

..........

144

15–20 –

…….

46

20 ára og eldri

10

Samtals

511

vélar

Þegar athugað er, að almennt er ekki álitið, að vélar endist hér í skipum meira en sem næst 10 ár, þá er auðséð, að hér er mjög mikil hætta á ferðum um það, að fiskveiðar okkar og siglingar með ströndum fram geti stöðvazt, og getur það haft mjög alvarlegar afleiðingar. Þegar það er athugað, að um 200 af vélunum í þessum 511 skipum eru yfir 10 ára gamlar og ekki fást neinir varahlutir til þeirra, þá er auðséð, að við þurfum alveg á næstu árum að endurnýja vélar í 200 fleytum hér við land og það er slík aðkallandi nauðsyn, að stj. getur varla látið afskiptalaust, ef farmrýmið í skipunum er notað til þess að flytja alls konar óþarfa til landsins á sama tíma og vélar ekki fást fluttar vegna rúmleysis. Enn fremur er nauðsynlegt, að ríkisstj. beiti sér fyrir því, að forgangsleyfi fáist fyrir smíði véla í Bandaríkjunum og Englandi. Það eru dæmi þess, að vélar hafa verið pantaðar og ekki afgreiddar með minna en 1½–2 ára fyrirvara. Og þótt miklir erfiðleikar séu og mikil þörf fyrir vinnuaflið í Bandaríkjunum, mundi ekki í þeirri feikna vélaframleiðslu, sem þar er, muna mikið um, þó að fengin yrðu forgangsleyfi fyrir þær vélar, sem við þurfum. Ég vil enn fremur geta þess, að það hafa verið í smíðum nokkur mótorskip í skipasmíðastöðvum hér, sem hafa staðið uppi vegna þess, að vélar hafa ekki fengizt afgreiddar.

Nú er það svo, að mikið af mótorbátum okkar eru orðnir allgamlir, og er okkur mikil nauðsyn að endurnýja þá. Við höfum því látið fylgja með áskorun um það, að efni verði einnig látið fljóta með, þannig að ríkisstj. beiti sér fyrir því að reyna að fá forgangsleyfi til þess að flytja inn bæði vélar og efni í skip.

Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að þessu, en geri ráð fyrir, að hv. þm. séu mér sammála um, að þetta þurfi að gera og ástandið sé alvarlegra en almenningi er ljóst. Ég vona því, að þessi till. fái góðar undirtektir hér í hv. d. og nái samþykki hennar.