18.08.1942
Efri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (773)

49. mál, bændaskóli Suðurlands

Flm. (Eiríkur Einarsson) :

Ég þarf ekki að fylgja þessari till. eftir nema með fáum orðum. Ég held, að með öllum rétti megi um hana segja, að hún sé meinlaus með öllu, en ekki gagnslaus. Hún er flutt til þess að flýta fyrir undirbúningi þessa máls, svo að ekki standi á því, þegar til þarf að taka. Það, sem vitanlega þarf fyrst og fremst að gera, er að ákveða skólanum stað. Ég legg til, að þessi undirbúningur fari fram á þessu sumri til þess að flýta sem mest fyrir málinu og einnig til þess, að ef skólinn kynni að lenda á einhverri þeirri jörð, sem hefur nú fastan ábúanda, þá er nauðsynlegt að ákveða það sem fyrst, svo að menn hafi tímann fyrir sér, en þurfi ekki að bíða haustsins. Sunnlendingar standa einhuga að þessu máli og hafa mikinn áhuga á, að það nái sem fyrst fram að ganga og þar með, að hafinn verði sem fyrst undirbúningur málsins, sem er eðlilegt, og er útlátalaust fyrir ríkið, að svo verði gert. Og í trausti þess, að hv. d. lítist einnig svo að vera, legg ég till. undir atkvæði hennar.