02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Í sambandi við þetta mál vil ég leyfa mér að upplýsa hæstv. stj. um, að í undirbúningi er annað mál, skylt þessu, en það er bændaskóli á Reykhólum. Fyrrv. stj. gerði það að ofurkappi að láta ríkið kaupa þessa jörð árið 1939 og fyrirbyggði með því, að þetta höfuðból væri reist við, svo að það væri ekki lengur þjóðinni og hreppnum til vansæmdar, en síðan hefur ekkert verið gert í því, og er það ekki sæmandi fyrir þjóðina, að það verði svo áfram. Því er það, að unga kynslóðin þar vestra, sem sé ungmennafélögin, hafa hafizt handa um að hrinda þessu máli í framkvæmd sem fyrst. Og í fullu trausti þess, að Alþ. á sínum tíma sýni þessu máli sömu samúð og þeirri till., sem nú er hér á dagskrá, vil ég ljá henni fylgi.