18.08.1942
Efri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (784)

49. mál, bændaskóli Suðurlands

Hermann Jónasson:

Ég býst við því, að hæstv. forseti eigi oftar eftir að taka til bjöllunnar, þegar hv. síðasti ræðumaður talar. Hann sannaði fullkomlega orð mín með þessari síðustu ræðu sinni, enda er ekki nema gaman fyrir mig að láta klárinn sýna sig á skeiðinu, og þarf ekki mikið til þess að kippa honum niður á það skeiðið, sem honum er eðlilegast. Ég sé ekki, hvað hægt er að sökkva dýpra en það að standa hér upp og bera á mann, sem er ekki viðstaddur og á ekki sæti hér í hv. d., svo að hann getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér, að hann hafi orðið uppvís að því að fara með slúður og lygar. Mig undrar ekki, þótt hæstv. forseti hringdi. Hvernig gat hv. þm. betur sannað þau orð mín, að hann mundi verða sér til skammar á öllum fundum, sem hann tæki þátt í, fyrst hann gat ekki einu sinni varað sig, rétt eftir að honum hafði verið bent á þessa hættu? Þá endurtekur hv. þm. þau ósannindi sín, að framsóknarmenn tefji afgreiðslu mála hér á þingi, þótt honum hafi verið bent á slík dæmi um hið gagnstæða sem það, að samherjar hans halda 11 ræður við 1. umr. um dómnefndina, en einn framsóknarmaður eina stutta ræðu. Eru ekki meiri líkur til, að slíkur maður fari með ósannindi á fundum en sá maður, sem hann ber upp á, að farið hafi með slúður og lygar, þó að allir hér á þingi þekki hann að einstökum drengskap?

Um hæstv. forsrh. er það að segja, að hann virðist vera þessu máli álíka kunnugur og rafmagninu á Álftanesinu. Hann telur sig ekki hafa leyfi til að framkvæma þetta mál, ef ekki liggi fyrir annað en beiðni eins þm., og virðist hann ekki vita, að til eru l., sem fyrirskipa, að þetta skuli gert, sem till. fer fram á. Hæstv. flm. virðist þó vita það, sem hæstv. ráðh. veit ekki, því að í grg. stendur : „Í 1. þeim frá síðasta Alþ., er ákveða, að reisa skuli bændaskóla þennan, er svo fyrir mælt, að það skuli gert svo fljótt sem unnt er, þegar fé er veitt til þess í fjárl: Hæstv. ráðh. er auðsjáanlega ekki ljóst, að hér er ekki verið að biðja hann að skapa ný l., heldur framkvæma l., sem búið er að samþykkja. Í till. hv. flm. felst það, að ríkisstj. skuli framkvæma l., sem þegar eru til. Ég mun ekki láta hjá líða, á meðan ég á sæti á þingi, að fordæma slíkar starfsaðferðir sem þessar, sem eru ekkert betri fyrir það, að þær hafa verið viðhafðar áður. Við verðum að venja okkur af slíkum aðferðum. Þingræðið stendur áreiðanlega svo höllum fæti um þessar mundir, að ástæða er til að leggja niður þær starfsaðferðir, sem orðið gætu til þess að veikja það enn frekar.

Hæstv. forsrh. var mjög reiður út af orðum, sem ég viðhafði í útvarpsræðu við síðustu kosningar. Sérstaklega olli það honum reiði, að ég hafði notað orðið „svei“. Hann talaði um, hve óviðeigandi það væri að nota þetta orð, því að það væri engu líkara en ég vildi líkja honum við hund, sem væri að flaðra upp um menn. Fyrst hæstv. ráðh. er svona hneykslaður af þessu, ætti hann að skoða Morgunblaðið frá þessum tímum, því að þar er mynd, sem sýnir andstæðinga hans í hundalíki vera að flaðra upp um kjósendur og biðja þá um fylgi.

Annars þótti mér engin þörf á því, að hæstv. ráðh. vær í að skipta sér af þessar í deilu, því að ég hélt, að hv. 10. landsk. væri eins vel fær um að svara fyrir sig og hann. En hæstv. ráðh. rýkur upp með ofsa, af því að honum finnst hv. 10. landsk. ekki hafa svarað eins vel fyrir sig og hann kaus. Ég mun sjálfsagt fá tækifæri til að ræða við hæstv. ráðh. síðar, en að þessu sinni mun ég ekki, nema til neyddur, eiga frekari orðastað við hann. En ég vil að lokum láta uppi þá sannfæringu mína, að stj., sem til er stofnað á þann hátt, sem honum er kunnugt og varla er hægt að tala um, getur ekki orðið langlíf.