18.08.1942
Efri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (785)

49. mál, bændaskóli Suðurlands

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Ef það er frumskilyrði fyrir löngu lífi ríkisstjórnar, að hún geri allt eftir beztu vitund, þá er óneitanlega fengin full skýring á því, að hv. síðasti ræðumaður hefur setið sjö ár í sæti forsrh.

Ég sagði áðan, að ég teldi mér skyldara að fara eftir tilmælum heillar þingd. en eins þm., þótt flokksmaður minn væri. Það, sem hv. þm. Str. sagði í sambandi við þetta, var útúrsnúningur. Hann talaði um fáfræði mína og vanþekkingu, sagði, að ég vissi auðsjáanlega ekki, um hvað væri að ræða í till. Ef ég hefði ekki vitað það, þá hefði grg. að minnsta kosti átt að geta komið mér í skilning um það, því að þar er tekið fram, að l. hafi verið samþ. á síðasta Alþ., þar sem svo er fyrir mælt, að þetta mál skuli framkvæma. En auðvitað vissi ég þetta fullvel. En minn hugur er nú samt svo mjög í átt til lýðræðis, að ég tel skyldara að fara eftir tilmælum þingsins en einstakra þm.Hv. þm. hefur nú hvílt sig úr ráðherrastólnum í þrjá mánuði (eða réttar sagt, hvílt stólinn í þrjá mánuði, því að aldrei sýndist mér hann sjálfur þreytulegri en nú). Þá kemur hann fram og fer að prédika það, að við verðum að taka upp önnur vinnubrögð hér á þingi. Þessi vinnubrögð voru þó viðhöfð í ráðherratíð hans, og þá þótti honum þau nógu góð. Annars viðurkenni ég það, að orð hv. þm., er hann brigzlar mér um vanþekkingu, fljótræði og slíkt, eru ekki nema svipur hjá sjón, þegar þau eru borin saman við það, sem blað hans sagði um mig á kosningadaginn, því að þar var ég kallaður þjófur, lygari og falsari í einni og sömu grein. Það stóð ekki Hermann Jónasson undir þeirri grein, og gleður það mig.

Hv. þm. Str. ber ekki á móti því, að hann hafi líkt okkur sjálfstæðismönnum við hunda í útvarpsræðu sinni, en hann afsakar það með því, að hann hafi lært þar af Morgunblaðinu. (HermJ: Það er hægt að svei fleira en hundum.) En ég verð að segja það, að ég geri mun á því, hvort Þórarinn Þórarinsson viðhefur orðbragð eins og þetta í Tímanum eða forsrh. landsins. Ég tel, að maður, sem verið hefur forsrh. í sjö ár, geti ekki verið þekktur að því að viðhafa slík orð. Ég reiddist honum ekki fyrir þetta, en ég verð að segja, að ég sárskammaðist mín fyrir hann.