02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Ég hef hlustað á skýringu hv. þm. Snæf. (BjBj) varðandi afstöðu hv. fjvn. En það var ekki það, sem ég spurði um. Það getur vel verið, að Alþ. sé sammála um það, að málið sé ekki nægilega undirbúið og beri því að vísa því til ríkisstj. En ég spurði um það, hvort það væri rétt aðferð, sem hv. fjvn. hefur nú notað í mörgum tilfellum, að afgreiða mál til ríkisstj., en ekki til þingsins. Mér er sagt, að þetta sé venja. En ég álít það óvenju. Ef þessi n. lítur svo smáum augum á hæstv. Alþ., að hún, í staðinn fyrir að koma með málin til þingsins, skrifi ríkisstj. um álit á málinu, þá virðist mér þetta vera óhæf meðferð á málum. Ég vil skora fast á hæstv. forseta, sem jafnan hefur tekið liðlega í þetta mál, sem fyrir liggur á þskj. 36, að taka málið á dagskrá nú þegar á morgun, svo að sjálft þingið skeri úr því, hvort málið verður afgr. eða ekki.