20.08.1942
Efri deild: 11. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (806)

54. mál, vegagerð

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég verð að taka undir það, sem hv. flm. sagði síðast, að þetta er orð í tíma talað. Ég hef að vísu ekki farið mjög víða um landið, en þó hef ég séð nóg dæmi þess, að vegir eru of þröngir fyrir bifreiðaferðir. Það er því full nauðsyn að gera útskot, þar sem bifreiðir geti mætzt, á mörgum af vegum okkar, því að þeim er mörgum svo fyrir komið, ekki sízt á Suðurlandi, að meðfram þeim eru mýrar eða þá skurðir, svo að ekki er hægt að aka út af þeim að jafnaði. Ég skal geta þess til dæmis, að ég fór í sumar um veg þessarar tegundar og var með bifreiðarstjóra, sem ók hægt og varlega. Við mættum tveimur bifreiðum, og svo var þröngt á veginum þeim, að bifreiðarnar skófust hvor á annarri.

Hv. þm. Barð. bar hér fram þá fyrirspurn, hvort þetta ætti að ganga fyrir því verkefni að koma ýmsum blómlegum sveitum, sem hingað til hafa verið afskiptar, í samband við vegakerfi landsins. Ég tel, að þetta tvennt mætti vel samrýma. Ég tel, að lagning slíkra útskota ætti að geta samrýmzt þeirri vinnu til viðhalds vegum, sem verður að fara fram á hverju ári. Við lifum á öld bifreiðanna, og við verðum að skilja, að vegir okkar verða að miðast við þarfir þeirra. En ég skal hins vegar sízt verða meinsmaður þeirra sveita, sem hafa enn ekki fengið vegi, því að ég skil vel þörf þeirra.