07.08.1942
Sameinað þing: 3. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í D-deild Alþingistíðinda. (836)

2. mál, söluverð á síldarmjöli til fóðurbætis

Finnur Jónsson:

Hæstv. forsrh. gerði gerðardómsl. að umtalsefni, og að sinni mun ég ekki ræða um þau, en aðeins segja það, að Alþfl. má nú vel við una, að hæstv. ríkisstj. skuli hafa lagt fram frv. til l. um afnám þeirra, því að þá hefur allt það komið fram, sem Alþfl. sagði, að yrði um framkvæmd þeirra l.

Út af þeirri till. til þál., sem hér liggur fyrir til umr., get ég sagt það, að mér finnst hér rétt stefnt, hvað snertir að lækka fóðurmjöl á innlendum markaði, en hins vegar verður að taka tillit til þess, þegar ákveðið er verð á landbúnaðarafurðum, og í trausti þess tel ég rétt, að þessi till. nái fram að ganga.

Í grg. er minnzt á, að nauðsyn beri til að afla ríkissjóði tekna til þessara útgjalda, og er þar gripið til þeirra ráða að leggja útflutningsgjald á útfluttan ísfisk, annan en þann, sem brezka matvælaráðuneytið flytur út.

Ég tel ekki rétt að nota heimildina til þess að taka útflutningsgjaldið nema að litlu leyti. Það kemur nú ári of seint, og það því fremur, sem kaupverð hér heima hefur hækkað, en ekki markaðsverðið í Englandi. Það hefur verið krafa Alþfl. frá upphafi, að þetta útflutningsgjald yrði lagt á stríðsgróðasölurnar. En breyt. á fiskverðinu hafa nú hins vegar valdið því, að um þetta mál er ekki hægt að tala sem áður fyrr.

Það gleður mig, ef hæstv. forsrh. ætlar að taka reglugerðina til nýrrar athugunar, því að það er svo um mörg skipin, að þau verða að hætta að sigla, ef þetta gjald verður á lagt. Ég tel nauðsynlegt að flokka þau niður og vænti, að hæstv. forsrh. taki það til rækilegrar athugunar, því að ætlunin með útflutningsgjaldinu var auðvitað sú að létta undir með smáútgerðinni, en ekki að drepa hana niður. Í grg. stj. fyrir þessari þáltill. er ekki gert ráð fyrir, að þetta útflutningsgjald sé notað nema í þessum eina tilgangi. En mætti ekki einnig nota það til þess að greiða smáútgerðinni þann halla, sem hún kynni að verða fyrir?

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta meira, en vænti fastlega, að hæstv. forsrh. athugi þetta mál, þar eð ekki má við svo búið sitja.