07.08.1942
Sameinað þing: 3. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (839)

2. mál, söluverð á síldarmjöli til fóðurbætis

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Herra forseti. — Út af ræðu hv. þm. Ísaf. vil ég taka þetta fram: Það er að sjálfsögðu alveg rétt, að útflutningsgjaldið falli aðeins á þá, sem færir eru um að bera það, enda minnir mig, að í l. um það sé tryggt, að svo sé jafnan. Þetta er alveg sjálfsagt. Ég leit svo á, að af þessu nýja gjaldi stafaði engin slík hætta. Miðum t. d. við 100 tonna skip, er kaupir fisk fyrir 45 þús. kr., og skattur á það kaupverð er 4–5%. Þetta skip selur aflann fyrir £7200, eða það er um £6500 að frádreginni aflarýrnun. Þessi nýi skattur getur ekki, samkvæmt eðli málsins riðið baggamuninn. Þessi atvinnuvegur hefur ekki barizt í bökkum. En hvað sem því líður, er sjálfsagt að taka tillit til óska sjómannanna og almenns þingvilja í þessu máli og fresta framkvæmd þessa atriðis, meðan verið er að ganga úr skugga um, að útgerðin þoli þetta. Það orkar þó ekki tvímælis, að togararnir þola það. En þó er, eins og ég sagði áðan, sjálfsagt að taka þetta mál til fullrar athugunar. Og engin neyð rekur ríkissjóð til að leggja þetta gjald á skipin umsvífalaust.

Hv. þm. Ísaf. hafði skilizt af grg. þáltill., að nota ætti gjald þetta aðeins í þeim eina tilgangi, sem þar er tilgreindur. Hvort sem þetta má teljast rétt skilið eða ekki, þá vakti þetta ekki fyrir stj. Hún mun verja þessu fé eins og hún vill, og þá til styrktar smáútgerðinni, ef þurfa þykir.

Varðandi fyrirspurn hv. 1. þm. N.-M. um endurgreiðslu til þeirra bænda, er af forsjálni hafa þegar birgt sig upp af mjöli, þá leyfi ég mér að vísa til grg. þáltill., er hann mun ekki hafa lesið, því að þar stendur skýrum stöfum, að ger t sé ráð fyrir þessari endurgreiðslu, 11 kr. á hverja tunnu.

Varðandi sölu verksmiðjanna til bænda er það að segja, að síldarverksmiðjum ríkisins einum ber skylda til að selja við þessu verði. Stj. hefur ekki aðstöðu til að skylda aðrar verksmiðjur til þess. Hins vegar mun hún leita hófanna um það og stuðla að því, að hver og einn geti fengið mjöl frá næstu verksmiðju, því að reikningslega gætu svo verksmiðjurnar jafnað þetta sín í milli á eftir. Þetta yrði til þess, að flutningskostnaður fyrir hvern einstakling yrði sem minnstur.