07.08.1942
Sameinað þing: 3. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í D-deild Alþingistíðinda. (847)

2. mál, söluverð á síldarmjöli til fóðurbætis

Haraldur Guðmundsson:

Hæstv. forsrh. hélt því fram, að þegar Alþfl. krafðist þess, að innheimt væri útflutningsgjald af ísfiski, hafi verið ætlazt til, að tekið yrði sama gjald, hvort sem um minni eða stærri skip væri að ræða, og jafnt á togara og flutningaskip. Mér þykir leitt, vegna þess góða félagsskapar, sem hæstv. ráðh. sennilega nú er í, að þurfa að lýsa þetta fullkomið ranghermi.

Krafa Alþfl. var, að útflutningsgjaldið væri lagt á ísfisk, sem seldur væri með stríðsgróða, þ. e. fyrst og fremst alla togarana og svo þau flutningaskip, sem selja með stríðsgróða. En eftir að verðið, sem þau greiða útgerðarmönnum og sjómönnum fyrir fiskinn, var hækkað um 30%, í júlí s. l., er tæplega um nokkurn stríðsgróða að ræða hjá hinum smærri flutningaskipum, sem þurfa lengi að bíða eftir farmi.

Hæstv. ráðh. neitar því, að allir séu „skornir við sama trog“, þótt jafnhátt útflutningsgjald sé lagt á stór og smá flutningaskip og togarana. Hann neitaði því þó ekki, að útflutningsgjald fiskikaupaskipanna væri hið sama, hvort sem skipin væru stór eða smá. En hann taldi, að togararnir yrðu miklu harðar úti, því að þeir ættu að greiða af söluverðinu í Englandi, en flutningaskipin af verðinu fab. í íslenzkri höfn. En jafnframt gat hæstv. ráðh. þess, að frá söluverði togaranna í Englandi væri dreginn kostnaður við siglinguna milli landa, áður en gjaldið er lagt á. Fæ ég þá ekki betur séð en að það, sem eftir er af söluverðinu, samsvari alveg verði frítt um borð í íslenzkri höfn.

Ég gerði það ekki að till. minni áðan, að öll flutningaskip væru undanþegin þessu gjaldi. Ég hef ekki þær upplýsingar í höndum, sem sýni, hvar línan liggur milli þeirra skipa, sem geta greitt þetta gjald, og hinna, sem geta það ekki, en tel, að þörf þeirra til þess að vera undanþegin útflutningsgjaldinu fari eftir því, hve stór þau eru, hvort þau taka fiskinn á stórum höfnum eða þurfa að smala með löngum tíma smáhafnir og geta ekki tekið nema lítinn farm í einu. Ég vil segja hæstv. ráðh. það, að það er ekki hægt að slá því föstu, að jafnt sé látið yfir alla ganga, þótt gjaldið sé hið sama, þegar aðstaða þeirra er svona misjöfn.