07.08.1942
Sameinað þing: 3. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í D-deild Alþingistíðinda. (848)

2. mál, söluverð á síldarmjöli til fóðurbætis

Eysteinn Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð út af einu atriði, reglugerð um útflutningsgjald. Undanfarna daga hafa útgerðarmenn í Suður-Múlasýslu staðið í stöðugu sambandi við okkur þm. út af þessari reglugerð, þar sem stór hætta er á því, að þau skip, sem hafa keypt fiskinn á höfnum austanlands, hætti, ef útflutningsgjaldið verður ekki afnumið.

Við höfum átt tal við ríkisstj. um þetta og óskað eftir, að gefin væri út reglugerð um undanþágu útflutningsgjalds fyrir þau skip, sem hér eiga hlut að máli, eða öll smærri skip. Áður en þessar umr., sem hér hafa farið fram, hófust, fengum við það svar frá ríkisstj., að þessu muni verða breytt í dag eða á morgun. Ég vildi láta það koma fram, úr því þetta er rætt hér, að nú hefur fengizt staðfesting á því, að þessu mundi verða breytt, og er ekki ástæða til annars en fagna því, að þessi undanþága er veitt.