07.08.1942
Sameinað þing: 3. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (850)

2. mál, söluverð á síldarmjöli til fóðurbætis

Einar Olgeirsson:

Það er út af ræðu hv. þm. Str. Hann segir það réttilega, að landbúnaðurinn er lamaður, en þetta er einmitt sú stefna, sem hann beitti sér fyrir. Ef hann hefði tekið upp aðra stefnu, ef hann hefði viljað taka upp samninga við verkalýðsfélögin í staðinn fyrir að kúga þau, þá mundu málin horfa öðruvísi við. Það varð að tala við verkamennina sem frjálsa menn og ekki nema eðlilegt, að verkalýðsfélögin vildu vera frjáls. Hann segist hafa neitað því, og í því liggur einmitt hans ranga stefna. Nú hefur hann rekið sig á það, að þessi gerðardómsl. eru fallin, en það var streitzt við að halda þeim uppi í 8 mánuði, einmitt þegar hægt var að hafa samvinnu við verkalýðsfélögin, og þegar svo er komið, fer flokkur hans að játa erfiðleikana, en þá er búið að lama landbúnaðinn með þessari röngu stefnu.

Ég ætla ekki að ræða meira um þetta að sinni. Það verður tækifæri til þess, þegar gerðardómurinn verður tekinn til umr.