20.08.1942
Sameinað þing: 6. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í D-deild Alþingistíðinda. (856)

2. mál, söluverð á síldarmjöli til fóðurbætis

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Ég hafði sent hæstv. forseta orð um það, að málið yrði ekki tekið fyrir á meðan ég væri fjarstaddur, en sú orðsending hefur víst fyrirfarizt. Nú er mér sagt, að tveir hv. þm. hafi tekið til máls, en ég býst ekki við, að það geri mikinn baga. Ég skal geta þess sem frsm. þessa máls, að fjvn. er öll sammála um að mæla með því, að þáltill. hæstv. forsrh. verði samþ. og þó með breyt. á einu orði í fyrirsögn hennar. Þó hefur einn nm. komið með brtt., sem hann hefur nú talað fyrir. Við hinir nm. töldum hins vegar rétt að miða greiðslu ríkissjóðs við almennt markaðsverð á síldarmjöli erlendis, en fara ekki eftir hinu margvíslega verðlagi, sem kann að eiga sér stað á erlendum markaði. Þess vegna held ég, að það sé rétt að fara þá leið, sem till. sjálf greinir. Enn fremur tel ég vafasamt, hvort rétt væri að binda sig við ákvæði síldarverksmiðjul. frá 1938. Þar er t. d. ekki gert að skyldu, að síldarverksmiðjurnar afgreiði pantanir fóðurbirgðafélaga og einstakra manna eða verzlana. Þar er einnig talað um það, að pantanir skuli komnar fyrir 30. sept. og greiðsla fyrir 30. nóv. Greiðsludagur ætti ekki að valda neinum erfiðleikum, en ég hygg, að heppilegt geti verið að draga nokkuð á langinn að panta mjölið, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Þess vegna taldi n. ekki rétt að binda sig við ákvæði þau, sem felast í síldarverksmiðjul,, heldur þau, sem felast í aðaltill.

Þá telur n. líka rétt, að þeir, sem keyptu gamalt síldarmjöl í vor, sæti ekki hærra verðlagi á gamla mjölinu, sem þeir telja lakara, heldur en þeir, sem nú kaupa nýtt mjöl. Í rauninni hafa þeir sætt lakari kjörum, sem keyptu gamla mjölið, en um það atriði þýðir ekki að deila hér.

Þá vill n. beina því til ríkisstj., að hún geri sitt ýtrasta til þess að sjá um, að aðrar verksmiðjur en ríkisverksmiðjurnar láti bændur hafa mjöl eftir því, sem hagkvæmast er með flutning. T. d. gæti síldarverksmiðjan á Seyðisfirði selt bændum á Fljótsdalshéraði mjöl. Það er nauðsynlegt að haga dreifingu mjölsins þannig, að flutningskostnaður verði sem minnstur. Mat þyrfti að fara fram á mjölinu.

N. leggur til, að till. á þskj. 2 verði samþ. með þeirri einu breyt., sem í rauninni þyrfti ekki að koma til atkv., því að hún er alveg sjálfsögð.