27.08.1942
Sameinað þing: 8. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í D-deild Alþingistíðinda. (893)

6. mál, erlendar fóðurvörur

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. — N. hefur haft þetta mál til athugunar og orðið sammála um afgreiðslu þess. N. er ljóst, að nauðsynlegt sé, að gert sé allt, sem unnt er til þess að tryggja, að erlendur fóðurbætir sé fáanlegur handa þeim, sem þurfa hans til þess að geta framfleytt búum sínum og framleitt þær afurðir, sem við þurfum. Þess vegna hefur n. orðið sammála um að fela ríkisstj. að sjá um þetta og leggur til, að till. verði samþ. með þeirri breyt., sem er á þskj. 85 og í nál.

Ég skal geta þess, að nú er búið að kaupa um 8000 tonn af erlendum fóðurbæti í Ameríku, sem ætlaður er handa kúm, svínum og hænsnum. Það er meira en lítill flutningur, sem liggur á að koma til landsins, og mjög hæpið, að þetta fáist flutt, eins og skipakostur okkar er, a. m. k. eins snemma og þyrfti að vera, og vildi ég mega óska eftir því ákveðið, ef svo færi, að ekki næðist að flytja til landsins allan þann fóðurbæti, sem búið er að festa kaup á, þá legg ég áherzlu á, að við flytjum fyrst og fremst inn til þess að halda uppi mjólkurframleiðslunni. Ég tel þess miklu meiri þörf en að halda uppi svínaframleiðslu o. fl., sem fóðurbætir er notaður til. Ég vildi mega mælast til þess, ef þetta fæst ekki allt flutt inn, þá verði tekin upp nokkurs konar skömmtun, til þess að hindra, að það sé hamstrað eða sé handa svínabúum, sem eru að afla matar handa öðrum en Íslendingum og hafa litla þýðingu fyrir heildina og afkomu allrar þjóðarinnar.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta, en vænti þess, að stj. athugi þetta, ef svo fer, að skipakostur stórminnki og verði ónógur til að flytja allan þann fóðurbæti til landsins, sem pantaður er.