10.08.1942
Efri deild: 3. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Haraldur Guðmundsson:

Ég mun styðja að því með atkv. mínu, að frv. þetta verði samþ., en ég vil þó benda á, að það er í hæsta máta vafasamt að samþ. síðari hluta 5. gr., þar sem nokkrar vörutegundir eru undanþegnar að hlíta úrskurði dómnefndar þeirrar, er um getur í frv. Ég hygg, að sú lausn yrði langtum heppilegri, að allar vörutegundir og verðlag þeirra lyti sömu nefndinni.

Ég skal annars vera fáorður um þetta frv. og meginefni þess. Við bentum á það, þm. Alþfl., strax og l. um dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum voru til umr., að hér væri um að ræða brot á réttarmeðvitund þjóðarinnar með þeirri vanhugsuðu lagasetningu, sem mundi ekki koma öðru en illu einu til leiðar. Eins og heyra mátti á hæstv. ráðh. áðan, hafa spár okkar rætzt, og það hlaut líka að liggja í hlutarins eðli, þar sem meginreglan var sú að banna með 1., að grunnkaup mætti hækka samkv. eðlilegum samningsleiðum.

Hæstv. ráðh. lýsti þróun þessara mála og sagði, að ekkert verkfall hefði orðið og engin félagssamtök beitt sér fyrir grunnkaupshækkun. — En hvað um sérsamningana? Hann lýsti hafnarverkamönnunum og sagði, að þeir hefðu viljað vinna annars staðar. Af hverju? Var ekki það sama að verki þar, sem nú er að knýja fram afnám l. um dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum. Alveg rétt! Verkföll voru bönnuð. En hvaða leið áttu þá mennirnir að fara til þess að hækka kaupið? Það var ein leið að fara þangað, sem kaupið var hæst, og það hefur verið notað meir en nokkru sinni fyrr. Því er nú komið sem komið er. Þetta tel ég vera beina afleiðingu af þeirri endemis lagasetningu, sem sett var í byrjun þessa árs.

Þar, sem l. áttu að verka sérstaklega, þ. e. a. s. í þéttbýlinu, urðu þau máttlaus og innantóm til þess að geta gert nokkuð gagn, en í dreifbýlinu, þar sem eftirspurnin eftir vinnuaflinu var minni, þar héldu þau sínu fulla gildi, a. m. k. á sumum stöðum. Afleiðingin af þessu er svo orðin sú, að mismunur kaupgjalds á hinum ýmsu stöðum á landinu hefur stórkostlega aukizt, sem svo veldur fólksstraumnum úr dreifbýlinu í þéttbýlið og þá sérstaklega til Reykjavíkur, þar sem kaupgjaldið er hæst. Hæstv. ráðh. vill svo vera láta, að þetta öngþveiti eigi rót sína að rekja til einstakra félaga, sem í ársbyrjun kröfðust grunnkaupshækkunar. En þessu vil ég algerlega neita. Upptökin er að finna hjá ráðh. Framsfl. og Sjálfstfl., sem sæti áttu í ríkisstj. um síðustu áramót, sem ég skal koma nánar að. Það munu hafa verið um 590 manns, sem stóðu að kaupkröfunni um áramótin, og það skal fúslega játað, að aðrir mundu þar hafa komið á eftir, en það, sem olli því, að kaupkröfurnar um áramótin voru sóttar svo fast, var beinlínis ríkisstj. að kenna. Á haustþinginu 1941 gaf stj. yfirlýsingu um það, að hún mundi af fremsta megni reyna að halda dýrtíðinni niðri, en litlu síðar hækkar hún svo þvert ofan í fyrri yfirlýsingar sínar lítrann af mjólk um 12 aura, eða um 30%, og farmgjöld um 25%. Þetta var beinlínis ögrun til verkamannanna frá hendi ríkisstj., að þeir hefðust handa í því skyni að fá laun sín bætt vegna vaxandi dýrtíðar. — Vildi ég hér í þessu sambandi leyfa mér að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ríkisstj., hvort hún hafi notfært sér heimild, er gefin var með dýrtíðarl. 1941, til að halda niðri dýrtíðinni. Og hafi hún verið notuð, þá, að hve miklu leyti.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta frv., en aðeins minna á það, að ekki mun lagast öngþveiti vort í kaupgjaldsmálum við það að afnema gerðardóminn. Hér þarf frekari aðgerða við, og vildi ég því beina því til hæstv. ríkisstj., að hún sæi svo um, að samningar þeir, er nú gilda um kjör verkafólks, verði úr gildi numdir og að samningar verði teknir upp að nýju og að hún reyndi jafnframt að stuðla að samræmingu kaupgjalds í landinu