27.08.1942
Sameinað þing: 8. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í D-deild Alþingistíðinda. (900)

66. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Flm. (Sigurður Kristjánsson) :

Herra forseti. Þessi till. er eiginlega afleiðing af þeim frv., sem hafa verið flutt hér á þessu þingi, eins og getið er í grg., og er um sama efni og þau. Frv. hafði verið vísað til fjhn. beggja d., því að frv. voru flutt sitt í hvorri d., og eins og segir í grg., varð samkomulag um það, að málið kæmi fram í þál.formi, og vorum við flm. valdir til þess að koma málinu á framfæri. Ég skal taka það fram, að nú mun hafa náðst að bera málið á ný undir einn nm., hv. þm. A.-Húnv. (JPálm), en að öðru leyti var ekki ágreiningur um till. hjá nm., hvorugrar deildar.

Ég þarf ekki að fjölyrða um réttmæti þessa máls. Það er raunverulega skoðað sem alveg sjálfsagt, eins og fram kemur í því, að till. er borin fram af þm. úr öllum þingflokkum.

Ég vil taka það fram, að það er að sjálfsögðu ætlazt til þess, að ríkissjóður og ríkisstofnanir greiði þessa uppbót, sem hér er um að ræða, aðeins á þann hluta launa, sem ríkið sjálft greiðir, en þar sem svo hagar til, að menn eru að nokkru leyti hjá ríkinu og að nokkru leyti hjá bæjar- eða sveitarfélagi, eins og t. d. á sér stað um kennara, er þess að sjálfsögðu að vænta, að sveitar- og bæjarfélögin muni bæta mönnum launin eftir sama mælikvarða, en þingið hefur ekki nein tök á að fyrirskipa það. Það er, eins og menn sjá, gert ráð fyrir því, að uppbót sú, sem hér ræðir um, sé ekki sú sama af öllum launum, heldur að uppbótin sé 30% af fyrstu 2400 kr. árslaununum, en síðan sé hún 25% á það, sem er fram yfir 2400 kr. og upp í 10000 kr. árslaun, og að uppbótin greiðist frá 1. júlí þ. á. og árlangt til 30. júní n. á. Mér þykir rétt til skýringar því, hvernig þetta er í framkvæmdinni, að taka örfá dæmi af launum embættismanna eða starfsmanna, eins og ætlazt er til, að þau verði, þegar búið er að greiða verðlagsuppbót og þessa uppbót. Ef gert er ráð fyrir, að maður hafi kr. 650.00 á mánuði og verðlagsuppbótin sé 100%, mundi uppbót hans reiknast þannig, að fyrstu 200 kr. á mánuði verða kr. 520.00 á mán. og síðan á kr. 450.00, sem eftir verða plus verðlagsuppbót 25%, svo að sá maður hefur í mánaðarlaun kr. 1646.00. Ef maður hinsvegar hefur 800 kr. mánaðarlaun og dýrtíðaruppbót er 100%, er reiknað 200 kr. af grunnlaununum plus verðlagsuppbót, eða 520 kr. eins og í fyrra tilfellinu. Af 600 kr. grunnlaunum og 450 kr. verðlagsuppbót fengi hann kr. 262.50, samtals kr. 1312.50 eða kr. 1832.50 mánaðarlaun. Séu mánaðarlaunin 1200 kr., gera fyrstu 200 kr. plus 200 kr. og þessi uppbót 520 kr. eins og áður, en af næstu 633 kr. í grunnlaun og 450 kr. í verðlagsuppbót, ef reiknað er með 100%, fær hann kr. 270.75, sem gerir kr. 1873.75, og loks þær 367 kr., sem hvorki kæmi á verðlagsuppbót né þessa uppbót, eða samtals kr. 2240.75 mánaðarlaun.

Ég skal svo minnast á brtt. Einn nm. hefur áskilið sér rétt til að koma með brtt. við 3. málsgr. till., en ég held, að sú brtt. komi ekki.

Hins vegar hafa flm. till. komið sér saman um að flytja brtt. á þskj. 137 aðallega til þess að fyrirbyggja misskilning. 1. tölul. er aðeins orðabreyting til skýringar. Eftir að hafa átt tal við skrifstofustjórann í fjármálaráðuneytinu þótti okkur ekki útilokað, að það kynni að verða um það deilt milli þeirra, sem njóta eiga uppbótarinnar, og ríkisstj., hvernig skilja bæri till. í vissum atriðum. Þess vegna höfum við flutt brtt. nr. 2 á þskj. 137.

Fyrri brtt. á sama þskj. (137) er aðeins leiðrétting vegna misritunar og þarf ekki skýringa við. En seinni brtt., sem við flytjum á því þskj., hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Grunnlaun í tillögu þessari merkja laun, sem ríkissjóður og aðrir, er tillagan greinir, greiða verðlagsuppbót á samkv. lögum nr. 48/1942. Með verðlagsuppbót er átt við þá verðlagsuppbót, sem greidd er samkv. sömu l.

Þetta höfum við álitið rétt að taka fram, vegna þess að ríkisstj. og jafnvel kannske ríkisstofnanir hafa nýlega fyrir sanngirni sakir gefið einhverjum launastéttum sérstakar uppbætur, sem þá að sjálfsögðu er ekki reiknuð nein verðlagsuppbót á og eru alveg sérstakar. Við ætlumst náttúrlega ekki til þess, að slíkar uppbætur séu taldar grunnlaun. Þess vegna er ekki heldur ætlazt til, að þessar uppbætur komi á þær fjárhæðir.

Við flm. brtt. væntum þess, að hæstv. Alþ. muni geta fallizt á að samþykkja brtt. þessa og að henni samþykktri þáltill. svo breytta.