27.08.1942
Sameinað þing: 8. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (902)

66. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Skúli Guðmundsson:

Það eru aðeins fyrirspurnir. Ég tel dálítið erfitt fyrir þm. að átta sig á þessu máli, eins og það liggur fyrir, því að það vantar tilfinnanlega upplýsingar um launagreiðslur hjá ríkinu og stofnunum þess, eins og þær eru nú. Samkv. fjárlagafrv. fyrir árið 1943, sem lagt var fram á síðasta Alþ., er með örfáum undantekningum gert ráð fyrir hærri launagreiðslum við stofnanir ríkisins heldur en þær voru fyrir stríðið, þó að verðlagsuppbót sé ekki með talin. Hvort þetta stafar af fjölgun starfsmanna eða hækkun grunnlaunanna, nema hvort tveggja sé, sést alls ekki á fjárlagafrv., vegna þess að því fylgir nú ekki skrá yfir starfsmenn ríkisins og ríkisstofnana og laun þeirra. En eins og hv. þm. muna, tók fyrrverandi fjmrh. upp þann sið að láta slíka starfsmannaskrá fylgja fjárlagafrv., og var það gert á árunum 1936 til 1939. Núverandi hæstv. fjmrh. hefur ekki fylgt þessari reglu, og síðan hann tók við, hefur engin slík skrá fylgt fjárlagafrv., og því er erfiðara fyrir þm. að fylgjast með þessum málum. Ég hef látið í ljós óánægju mína yfir þessu og vil enn ítreka það. Og ég vil í sambandi við það bera fram tvær fyrirspurnir varðandi málið. Í fyrsta lagi til hv. flm. þáltill. þeirrar, sem hér liggur fyrir, um það, hvort þeir hafi fengið skýrslu um starfsmannafjölda og launagreiðslur hjá ríkinu og stofnunum þess, eins og þær nú eru, sem þrn. geti haft aðgang að og kynnt sér fyrir síðari umr. málsins. — Hin fyrirspurnin, sem ég beini til hæstv. fjmrh., er um það, hvort fylgt hafi verið nákvæmlega fyrirmælum l. frá síðustu þingum um útreikning verðlagsuppbótar. Ég hef heyrt sagt, að einstakir starfsmenn, sem hafa haft minna en 650 kr. í grunnlaun á mánuði, hafi fengið reiknaða verðlagsuppbót af 650 kr. mánaðarlaunum og fengið þannig hærri verðlagsuppbót heldur en þeim ber samkv. l. Ég vildi fá vitneskju um það, hvort þetta er rétt, og vænti þess að fá einnig upplýsingar um það, hvort ætlazt er til, að ómagauppbótin, sem samþykkt var á síðasta Alþ., 300 kr. fyrir hvert barn, verði greidd áfram, þrátt fyrir þær uppbætur, sem gert er ráð fyrir í þessari þáltill.