27.08.1942
Sameinað þing: 8. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (908)

66. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Skúli Guðmundsson:

Það kom fram í svari hæstv. fjmrh., að það er rétt, sem ég hafði heyrt, að vissar stéttir í hópi opinberra starfsmanna hafa fengið hærri verðlagsuppbót heldur en þeim ber samkv. l., og er það algerlega í heimildarleysi, að slíkt er greitt.

Ég tel mig ekki hafa fengið greið svör frá hv. flm. þáltill. Formúlulestur hv. 1. landsk. (SigfS) er ekkert svar við fyrirspurn minni. En hv. 3. landsk. (SK) taldi, að ekki hefði verið tími til þess að bíða eftir frekari skýrslum frá ríkinu eða stofnunum þess um launagreiðslur heldur en þeir hefðu fengið. Verð ég því að telja, að skýrslugerð yfir þetta sé ekki í svo góðu lagi sem þarf að vera, ef það tekur mikinn tíma að gera skrá í sama formi og starfsmannaskráin var.

Hv. 3. landsk. gaf upp, að þau laun, sem ríkið og stofnanir þess greiddu, væru alls um 7½ millj. kr. Mun þar vera átt við grunnlaun. (SK: Já). Skömmu fyrir þetta stríð, þegar menn héldu uppi árásum á Framsfl. vegna óhóflegra launagreiðslna, töldu þeir launagreiðslurnar vera yfir 5 millj. kr. Ef grunnlaunagreiðslan er nú orðin um 7½ millj. kr. hjá ríkinu og stofnunum þess, sýnir það að laun hafa hækkað mjög síðan eða þá að starfsmönnum hefur fjölgað til muna. — Ég tel mig ekki færan um að greiða atkv. um þetta mál, meðan ekki liggja fyrir greinilegri upplýsingar um þessar launagreiðslur yfirleitt.