27.08.1942
Sameinað þing: 8. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (909)

66. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Jakob Möller) :

Út af fyrirspurn hv. þm. Ísaf. (FJ) skal ég aðeins láta í ljós skoðun mína um það, sem hann gerði fyrirspurn um. Ég býst við, að ekki þætti fært að setja þá starfsmenn hjá, sem hann talaði um, eftir þessari þáltill., þó að þeir séu ekki starfsmenn við opinberar stofnanir, heldur við stofnanir, sem njóta opinbers styrks og eru sambærilegar við opinberar stofnanir. Enda er það svo, að það hefur verið höfuðregla að fella slíka starfsmenn undir slíkar kjarabætur, sem ákveðnar hafa verið gagnvart starfsmönnum slíkra opinberra stofnana.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. V.-Húnv. (SkG) var að gera samanburð á launagreiðslum nú annars vegar og hins vegar fyrir stríð, þá er náttúrlega þess að geta, þegar við gerum upp, hverjar launagreiðslur ríkisins séu á þessum og þessum tíma, að þá er kannske í eitt skiptið hinar og þessar stofnanir þess teknar með í reikninginn, en í annað skiptið ekki teknar með í þann útreikning. Annars vegar er talað um fjárlagagreiðslur. En ég hygg, að sú upphæð, sem hv. 3. landsk. gerði grein fyrir, sé byggð á öðru, þ. e. a. s., ekki aðeins tekið það, sem ríkið greiðir í laun eftir fjárl., heldur sé tekið allt með, sem kemur til greiðslu af opinberu fé.