28.08.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (916)

66. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Bjarni Bjarnason:

Við fyrri umr. tók ég till. mína á þskj. 123 aftur til síðari umr., þar sem útlit var fyrir, að einstakir þm. vildu tryggja betur með annarri till. það, sem ég vildi tryggja með minni. Þannig mun það hafa verið um hv. þm. Ísaf., sem var að útbúa brtt., en mun hafa fallið frá því aftur, og gerir hann að sjálfsögðu grein fyrir því nánar. En ég vil taka fram, að ég tel, að hæstv. fjmrh. hafi tekið af skarið um, hvernig skilja bæri mína brtt., og sætti ég mig vel við þá skýringu. En e. t. v. koma þarna einnig til greina fleiri skólar, sem getið verður nánar hér á eftir. En hæstv. fjmrh. tilnefndi þá og sagði, að slíkir starfsmenn mundu ekki verða settir hjá, ef launabætur þessar yrðu greiddar. Og l. um húsmæðraskóla úti um sveitir gera ráð fyrir, að þeir séu sjálfseignarstofnanir eða eign héraða eða sýslufélaga, þótt í þeim l. sé ekkert ákvæði um, að svo skuli vera. En ég hygg, að þeir séu eign bæjarfélaga eða sýslufélaga, en ekki einstaklinga. Kæmu þeir þá til með að heyra undir þetta ákvæði, sem ég hef greint. Um þetta hefur skapazt fordæmi með verðlagsuppbótinni, sem var veitt á styrki til slíkra sjálfseignarstofnana, og verður það að sjálfsögðu gert enn. Þessir styrkir eru notaðir til þess að launa starfsmenn þessara stofnana.

Um till. hv. þm. Barð. er það að segja, að það getur verið rétt, að hún verði samþ. Þeir skólar, sem hann nefndi, hafa notið styrks af ríkisfé. En ég hygg, að brtt. hans þurfi ekki við.