10.08.1942
Efri deild: 3. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Hermann Jónasson:

Ég geri nú ekki ráð fyrir, að við framsóknarmenn eigum mikinn þátt í því nýja fjármálakerfi, sem stjórnarflokkarnir eru að skapa í þessum málum og væntanlega hafa sínar afleiðingar. sem þeir sennilega gera sér ljósar. Það er vitað, að hér á Alþingi eru 3/5 þm. fylgjandi þeirri stefnu, sem hér er tekin upp með afnámi gerðardómsl., stefnu, sem í raun og veru var tekin upp strax við stjórnarskiptin. En áður en ég vík að því nánar, vildi ég segja það um setning gerðardómsl., að mótþróinn gegn þeim byggðist ekki á því, að þeirra væri ekki þörf, og ekki heldur á því, að verkalýðnum væri á nokkurn hátt með l. gerður hinn minnsti óréttur. Og þeir menn, sem hafa mælt gegn þessum l., hafa ekki enn getað komið með dæmi þess, að svipuð eða sams konar l. hafi ekki orðið að setja alls staðar í veröldinni, þar sem líkt stendur á og hér, til þess að firra alþjóð, og þar með verkalýðinn engu síður en aðrar stéttir, þeim voða, sem bíður, ef dýrtíðin fær að vaxa með taumlausum hraða. Slík lagasetning hér og annars staðar byggist á þeirri hugsun, að eðlilegast sé, að sá grundvöllur haldist óbreyttur, sem var áður en styrjöldin skall á og sýkt fjármálaástand skapaðist í landinu. Það er gert ráð fyrir því, að engin þjóð geti á styrjaldartímum skapað sér lífskjör, sem séu nokkuð að ráði betri en þau lífskjör, sem þjóðin hafði áður en styrjöldin hófst. Og til þess að vísitala sé rétt reiknuð, þarf ávallt að grandskoða það og gæta þess, að dýrtíðaruppbót á laun fullnægi því ótvírætt, að lífskjör þeirra, sem launin taka, séu hin sömu og áður en styrjöldin hófst. Annars er vísitalan röng. Það hefur aldrei staðið á því, ef bent hefur verið á eitthvert atriði, sem betur mátti fara um vísitöluna, að leiðrétta það. M. ö. o., öllum vinnandi stéttum hér á landi var boðið upp á það eins og annars staðar, að lífskjör þeirra héldust svipuð og áður. En við það bætist svo það, sem öllum er kunnugt, að vinna var ekki stöðug fyrir styrjöldina, heldur jókst hún mjög, þegar styrjöldin skall á, og tvöfaldaðist hjá mörgum. Hins vegar er það rétt, sem bent hefur verið á, bæði af verkalýðnum og öðrum launþegum, að hér hefur orðið mikill stríðsgróði. Það hafa verið gerðar nokkrar ráðstafanir, og sumpart allverulegar, a. m. k. að því er lagasetningu snertir, — um framkvæmdir skal ég ekki ræða á þessu stigi —, til þess að sjá um, að stríðsgróðinn yrði tekinn til opinberra þarfa, bæði fyrir bæjar félögin og fyrir ríkið. Og ef verkalýðurinn vildi gera einhverjar sérstakar ráðstafanir, þá hefðu þær fyrst og fremst átt að vera á þann hátt að sjá um, að stríðsgróðinn rynni í vasa almennings gegnum slíkar ráðstafanir. Ef einhver galli var á þeim ráðstöfunum, sem voru gerðar, var það ekki gerðardómsl. að kenna, l., sem alls staðar hefur orðið að selja til þess að fyrirbyggja öngþveiti og fjármálakák. Þeir tugir milljóna, sem söfnuðust í bæjar- og ríkissjóðinn, eru ef þegnlega er skoðað, peningar, sem almenningur á og eiga að verða fyrir hvern þegn þjóðfélagsins. Og með því að halda fjármálakerfi okkar í horfi, var hægt að sjá um, að þessir peningar yrðu einhvers virði. Þar voru þeir geymdir til framkvæmda eftir styrjöldina til almennra þarfa. Það hefur alltaf verið á það bent hins vegar, að þetta hækkunarkapphlaup leiðir ekki til annars en þess, að mennirnir, sem eru nú að byrja að eignast peninga, eiga verðlausa peninga eftir nokkrar vikur. Og þegar þær ráðstafanir voru gerðar að festa kaupgjald og verðlag, fyrst og fremst á afurðum bænda, þá undraðist ég mest, hve bændur tóku þessu vel, en forvígismenn verkalýðsins illa, þannig að verr hefur verið búið að þessari lagasetningu en ég veit til nokkurs staðar annars staðar. En bændur gátu fleygt verðlitlum peningum í gamlar skuldir, og þá skiptir minna en aðra menn þjóðfélagsins, hvernig verð peninganna er, nema auðvitað þegar kreppan kemur á eftir. Þeir eiga bústofn sinn og margir jarðir sínar, en margir, er hafa skuldað, losa sig úr skuldum og eiga jarðir og bústofn skuldlaus eftir styrjöldina. En fyrir verkalýðinn, sem safnar peningum með þeim í fjármálastefnu, sem upp er tekin, koma peningarnir að engu haldi, því að þeir eru að verða verðlausir. Þó að verkamenn eigi nú 5–10 þúsundir, þá geta þeir ekki komið neinu til leiðar í þessu þjóðfélagi. Aðrir, sem velta hundruðum þúsunda, geta keypt framleiðslutækin og fasteignirnar, og allur auðurinn situr að lokum eftir hjá þeim. Og nú er búið að fara þannig að, að gamalt fólk, sem búið er alla ævi að aura saman 10–15 þúsundum, á peninga, sem eru nú að verða svo að segja einskis virði. Sú fjármálastefna, sem upp var tekin með gerðardómsl. og annarri viðleitni, er sú eina, sem mögulegt er að framkvæma í landinu til þess að sporna við öngþveitinu, sem hefur þær afleiðingar, sem nú eru augljósar og flesta óraði fyrir. En ástæðan til þess, að slik árás var gerð á þessa löggjöf, var sú, að alltaf, þegar verðbólga er að myndast, halda menn, að þeir séu að verða ríkir, hve oft sem þeir hafa séð útþynningu peninganna og hvernig sem þeim er sýnt fram á þetta með rökum. Á þessa vanþekkingarstrengi var spilað af þeim flokkum, sem á móti þessum l. unnu, en ekki af þeim, sem hafa séð, að peningarnir voru að verða að engu. Og þetta er einhver stærsti pólitíski glæpur, sem nokkurn tíma hefur verið unninn á Íslandi. Hvert stefnir með okkar fjármálakerfi núna, hefur hv. þm. Seyðf. þó órað fyrir, — þar sem hann er að tala um að breyta ákvæðum 6. gr., að ég hygg þar, sem talað er um verðlagsn., sem ráði verði á landbúnaðarafurðum —, að þær starfi eins og hingað til. Og það er alveg auðsætt, að með þeim kauphækkunum, sem nú halda áfram, eiga bændur ekki um neitt að velja nema að halda sömu leið. Vilji menn binda hendur bænda, leiðir það ekki til annars en þess, að þeir hætta að framleiða og við hættum að hafa að éta.

Í þessu sambandi vildi ég, að hæstv. ríkisstj. upplýsti, hvort það sé rétt, að Bandaríkjastjórn hafi ákveðið að taka af okkur öll aukaskip, sem hingað til hafa séð um helming eða meir af innflutningi til landsins, sem þýðir samsvarandi niðurskurð á innflutningi. Þess vegna er það, að ef halda á uppi framleiðslu landbúnaðarins, hafa bændur á engu völ öðru en að nota ákvæði seinni hluta 6. gr. þessa frv. jafnframt því, að kapphlaupið eykst. Það er upplýsandi um þann vaxandi hraða, sem þessi Hrunadans fjármálanna hefur tekið, að nú fyrir nokkru hækkaði áhættuþóknun hjá mönnum, sem sigla milli landa, í sömu upphæð og yfirmanna í slíkum ferðum. Út af fyrir sig ætla ég ekki að leggja dóm á þetta. En nú mun vera komin bending um það frá stjórnum Bretlands og Bandaríkjanna, fyrir milligöngu sendiherra þeirra, að ef skipin eru látin stöðvast, mundu þeir taka til sinna ráða. Þessi hótun um íhlutun um íslenzk mál er eitt af því alvarlegasta, sem komið hefur fyrir okkur nú á seinustu árum vegna þess, að það viðkemur þeirri atvinnugrein, sem er algerlega lífæð þjóðfélagsins, ekki sízt nú. Nú hef ég heyrt, að undirmenn á skipunum hafi lýst yfir, að þeir muni aldrei sigla fyrir minni áhættuþóknun en yfirmenn. En nýlega hafa svo yfirmenn heimtað stórkostlega hækkun á áhættuþóknun frá því sem áður var. Og það hefur verið gengið inn á það af stj. Eimskipafélags Íslands eftir skipun ríkisstj. að hækka við yfirmenn, án þess að undirmennirnir hafi tekið aftur yfirlýsingu sína, sem ég nefndi áðan. En ef áhættuþóknun hjá undirmönnum kemst í sama og hjá yfirmönnum, er mér skýrt frá, að ekkert annað vofi yfir en stórkostleg hækkun á öllum farmgjöldum Eimskipafélagsins. Ég vildi óska, að þetta, sem okkur er skýrt frá úti í bæ, sé ekki rétt. En þetta, að Bandaríkjastjórn muni vera að taka skipin, og einnig þetta áhættuþóknunarmál, — mér finnst það svo stórt mál, að rétt sé í sambandi við þetta nýja fjármálakerfi, sem stofnað er til með þessu frv., að hv. alþm. fái a. m. k. að vita um það.

Enn fremur vildi ég spyrja um það, hvort Dagsbrún hafi heimtað hækkun á kaupi og hótað verkfalli, en fallizt á að bíða 1–3 daga með því að vinna fyrir það kaup, sem samið hefur verið um, frá s. l. föstudegi að telja, en ef ekki sé hækkað kaupið, sé yfirvofandi verkfall. En mér er jafnframt tjáð, að ef kaup er hækkað hjá Dagsbrún, eins og farið er fram á, þá sé orðinn svo lítill munur á tímakaupi þeirra manna, sem skipa upp kolum, og þeirra, sem skipa upp sementi, að þeir legðu niður vinnu, ef svo búið stæði. Allt er þetta vinna við höfnina, og við vitum, hvað býður okkar, ef við getum ekki séð um, að uppskipun fari fram og skipin geti siglt. Þess vegna óska ég, að okkur alþm. séu gefnar upplýsingar um þessi atriði. Frá mínu sjónarmiði er þetta ekki nema einn þáttur í því, sem nú er að koma. Menn geta verið alveg vissir um, að með afnámi gerðardómsl. og með því að búa við þau ákvæði, sem á að lögleiða, þá hlýtur dýrtíðin að vaxa hröðum skrefum. Og afleiðingarnar af vaxandi verðfalli peninganna hafa svo oft verið ræddar, að ekki er sérstök ástæða til að rökstyðja svo augljósan hlut. Mér virðist, að með því að yfirgefa þá fjármálastefnu, sem mörkuð er í gerðardómsl. og er í rauninni alveg sams konar og aðrar þjóðir hafa orðið að taka upp hjá sér, þá höfum við jafnframt yfirgefið viðleitnina á því að halda hér uppi fjármálakerfi, sem helzt væri líklegt til að koma okkur út úr þessari styrjöld á annan hátt en með óskaplegum hörmungum. Mér virðist, að með því fjármálakerfi, sem verið er að taka upp hér, sé með alveg opnum augum stefnt út í fullkomið öngþveiti. Það má kannske vera, að í þeirri þáltill., sem komin er fram og sagt er, að fylgi alvara, sé einhver viðleitni. En till. gengur út á það að reyna að semja við verkalýðinn um vinnuna og þá launin og reyna að finna eitthvert hlutfall á milli vara framleiddra innan lands og kaupgjalds. Þetta er í raun og veru það, sem ýmsar þjóðir hafa tekið upp, þó að þær hafi haldið verðinu niðri á grundvelli, sem er miklu lægri. Og ég sé ekki, að fært sé, eins og nú horfir, að stýra fram hjá algerðu öngþveiti og hruni, nema þessir samningar geti tekizt. Því að það sjá allir, að með afnámi þessa frv. einu er boðið upp á áframhaldandi kapphlaup. M. a. er kostnaður við alla framleiðslu hraðvaxandi upp á síðkastið. Stj. gaf nýlega út tilkynningu um að leggja sérstakan toll á útfluttan fisk, en varð að taka hana aftur, vegna þess að kostnaður hjá skipunum hafði hækkað svo mjög, að ágóðinn af að sigla og selja er svo lítill, ef hann þá er nokkur. Mér sýnist tæplega um annan möguleika að ræða heldur en að reyna að ná samkomulagi milli bænda og verkamanna um verðlag og kaupgjald, og um stríðsgróðann ef til vill við þá aðila, sem þar eiga hlut að máli.

Það var fyrirsjáanlegt, að ekki var hægt að framkvæma gerðardóminn nema með einu móti, en ég skal ekki fara sérstaklega inn á, hvernig það hefur tekizt. Hæstv. atvmrh. fullyrðir, að það hefði ekki tekizt betur, þó að stj., sem sat, hefði setið áfram. Það verður hver og einn að hafa sína skoðun um það, en eitt er a. m. k. víst, að tvö grundvallaratriði þurfti til að framkvæma gerðardómsl. Í fyrsta lagi þurfti að gera samninga um setuliðsvinnuna. Þeir voru gerðir. Þeim var nýlega lokið, þegar fyrrv. stj. lét af völdum. Var svo um samið, að þeim 2500 mönnum, sem voru í setuliðsvinnunni, skyldi hinn 1. júlí fækkað niður í 2000. En jafnhliða því var augljóst mál, að til þess að þessi l. gætu komið að gagni, og á það var bent í stj., ekki einu sinni, ekki tíu sinnum, heldur hundrað sinnum, að stj. yrði að fá vald til að takmarka framkvæmdir. Þetta hefur ekki verið gert. Vitanlega hafa menn búizt við, að þá yrðu reknir upp kveinstafir út af því, að takmarka ætti vinnu hjá verkalýðnum, en það er auðsætt, að þótt þessi takmörkun hefði átt sér stað, þá hefði eftirspurnin eftir vinnuafli samt verið svo mikil, að hver einasti maður hefði getað fengið atvinnu. Þar, sem slíkar ráðstafanir hafa verið gerðar, eins og í Bandaríkjunum, þar hefur fyrst og fremst verið athugað, hve m:kið vinnuafl væri til, síðan hvað það er, sem þarf að framkvæma, og hvað er nauðsynlegast af því. Síðan er það framkvæmt, sem nauðsynlegast er, en ekki farið lengra. Þetta varð að gera hér, annars voru l. dauður bókstafur.

Eins og ég minntist á, hafa komið út athugaverðar skýrslur frá Bandaríkjastjórn, því að í síðustu styrjöld fóru þeir að eins og við erum að fara að nú. Ég held, að það sé samróma álit, að ef stríðið hefði haldið áfram nokkuð lengur þá, hefði Bandaríkjastjórn orðið máttvana í styrjöldinni fyrir að hafa ekki gert þær ráðstafanir, sem eru gerðar nú. Það voru þrjár tegundir vinnuagenta á vinnustöðvunum og buðu þrenna kauptaxta. Ekkert var hugsað um, hve vinnuaflið var mikið, en eftirspurnin látin komast fram úr öllu hófi, sem að lokum var að skapa fullkomið öngþveiti. Þessi takmörkun mundi því alls ekki koma niður á verkalýðnum, því að það er vitanlegt, að hið opinbera gæti ekki takmarkað framkvæmdir svo mikið, að ekki yrði eftir sem áður fullkomlega nóg handa öllum að gera. En þeir, sem héldu þessu fram, gerðu það af skynsamlegum ástæðum frá sínu sjónarmiði, því að þeir vissu, að ef þessar takmarkanir væru ekki gerðar, mundu l. hrynja. En Sjálfstfl. vildi aldrei fallast á að gera þessar takmarkanir í fyrrv. stj.

Ég hef heyrt sagt, en væntanlega er hægt að fá það upplýst hér, að þessi fækkun niður í 2000 menn í setuliðsvinnunni, sem ég gat um, hafi aldrei átt sér stað, svo að þar hafi unnið 500 fleiri en um var samið. Þeir segja í þessum samningum : „Það eru engar framkvæmdir eins nauðsynlegar og hernaðarframkvæmdir, en við sjáum, að þið verðið að fiska og þið verðið að reka ykkar landbúnað, annars getið þið ekki lifað, en þá verðið þið að sjá um, að þetta vinnuafl, sem tekið verður frá okkur, fari til að framleiða lífsnauðsynjar ykkar.“ Sé það ekki gert, hafa þeir talið, að þeim hafi ekki borið skylda til að fækka í vinnunni hjá sér, og ég hygg, að það hafi unnið hjá þeim fleiri en 2000 menn, en það hefði ekki átt að vera. Það var því fyrirsjáanlegt, að gerðardómurinn mundi hrynja með því að láta undir höfuð leggjast að gera þessar ráðstafanir.

Ég skal svo ekki ræða nánar, hvaða afleiðingar þetta hefur. Það hefur svo oft verið rætt áður, að þess gerist ekki þörf. En menn ættu að sjá af þeim atburðum, sem eru að gerast síðustu dagana, ef þeir hafa ekki séð það áður, hvert nú er stefnt. Ég álít, og þess vegna hef ég komið með þessar fyrirspurnir, að það sé skylda stj. að láta almenning fylgjast sem bezt með í þessum málum, því að meðan alþjóð fær að hafa augun opin og fylgjast með því, sem er að gerast, en ekki bundið fyrir augun á henni með því að lofa henni ekki að fá að vita neitt, er von til, að almenningur sjái, hvert er verið að fara með hann. Og það mun sannast, hvort sem kosningar verða nú eða ekki, — það getur verið, að hjá nokkrum hluta verkalýðsins hafi verið áhugi fyrir afnámi gerðardómsl., þó að það sé rangt, að þjóðin hafi lýst yfir, að hún vildi ekki hafa þessi l., því að mikill meiri hluti hennar fylgdi þeim flokkum, sem börðust fyrir þeim, og sá flokkur, sem fyrst og fremst beitti sér fyrir þeim, vann á við kosningarnar, — en ef þessi áhugi hefur verið hjá verkalýðnum fyrir afnámi l., þá ætla ég að fullyrða, að það mun ekki líða langur tími, — það geta orðið vikur, en ekki mánuðir, þangað til verkalýðurinn sér, hvert var verið að fara með hann með afnámi l. Og þó að ýmsir kunni að hafa í svipinn grætt á að beita sér á móti l., þá eru þær afleiðingar eftir, sem þeir munu verða að horfast í augu við og svara fyrir. Ég sé, að form. Kommfl. brosir yfir þessari spá minni. Það á ef til vill eftir að koma í ljós, hvort pólitík kommúnista er umbótapólitík eða byltingapólitík, en það getur enginn verkalýður nema sá, sem vill fullkomna upplausn í þessu þjóðfélagi, viljað það, sem nú er að gerast í fjármálum okkar. Þess vegna mun allur verkalýður, sem vill ekki fullkomna fjármálalega upplausn, snúast gegn þessu, áður en varir.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. Það gefst væntanlega tími til að ræða um þetta síðar.