28.08.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (925)

63. mál, húsnæði handa alþingismönnum

Flm. (Bernharð Stefánsson) :

Þessi till. þarf ekki mikilla skýringa við umfram það, sem stendur í grg. Það hefur komið í ljós á tveim undanförnum þingum, að ýmsir þm., sem heima eiga utan Reykjavíkur, hafa átt erfitt með að fá húsnæði hér í bænum, meðan á þingi stóð, og hafa því orðið að dveljast sem gestir á heimilum kunningja sinna eða vandamanna. Ég segi fyrir mig, og ég býst við, að aðrir hv. þm. geti sagt hið sama, að ég hef notið fyllstu gestrisni. þar sem ég hef dvalizt, en þó verður að viðurkenna, að öll aðstaða er mjög erfið við slík skilyrði fyrir menn, sem þurfa að sinna margvíslegum störfum og langan tíma. Og ég tel slíkt ástand með öllu óviðunandi. Við leggjum því til í þessari till., að hæstv. ríkisstj. geri einhverjar ráðstafanir til þess að tryggja þm. búsnæði í framtíðinni, og er þá ætlazt til, að hún reyni t. d. að komast að samningum við gistihúsin um leigu á nokkrum herbergjum yfir þingtímann eða leiti sér sérstakrar heimildar, ef slíkir samningar skyldu ekki takast, til leigunáms á húsnæði. Ég hygg, að það muni vera síður félaga, sem halda landsfundi hér í Rvík, að tryggja fulltrúum þeim, er koma utan af landi, húsnæði hér í bænum, meðan á fundum stendur, og er undarlegt, ef þm. geta ekki orðið sömu umhyggju aðnjótandi af hálfu ríkisstj. sem fulltrúar þeirra félaga af hálfu sambandsstj. sinna. Ég hef heyrt, að hæstv. stj. hafi reynt að tryggja 8 þm. húsnæði á Hótel Borg fyrir síðasta þing, en gefizt upp við það, þótt undarlegt megi virðast. Það sýnist ef til vill ekki vænlegt til árangurs að beina tilmælum um úrlausn þessara mála til hæstv. stj., eins og gert er með þessari till., þegar þess er gætt, að hún reyndist ekki fær um að útvega þessum 8 þm. húsnæði. En ég hygg þó, að hæstv. stj. muni telja sér skylt að taka málið fastari tökum, ef það liggur fyrir sem samþykkt Alþ. Því hefur verið hreyft, að framtíðarlausn þessa máls sé sú að koma upp nokkurs konar heimavistarhúsi fyrir þm., og hygg ég, að það sé rétt stefna. Þinghald er nú orðið svo langt hvert ár, að það nálgast það að vera eins langt og háskólaárið, en þó hefur ekki þótt vanþörf á því að koma upp tveim stúdentabústöðum. Hins vegar er augljóst, að slíkur þingmannabústaður verður ekki reistur fyrir næsta þing, og þess vegna fjallar þessi till. ekki um það, heldur hitt, að hæstv. stj. geri þegar í stað einhverjar ráðstafanir til þess að þm. þurfi ekki að vera á götunni, þegar þeir koma næst til þings.

Það var hreinasta tilviljun, að ég skyldi ekki þurfa að liggja á götunni, þegar ég kom á þingið í vetur, og sama máli gegndi einnig nú á þessu þingi. Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en vona, að hv. þm., þó að meiri hl. þeirra sé Reykvíkingar, skilji nauðsyn þessa máls og samþ. till. greiðlega. Ég get minnt á í þessu sambandi, að l. þau, sem Alþ. hefur sett og húsaleigunefnd framkvæmir hér í Reykjavík, leggja hindranir í veg fyrir þm., því að samkv. þessum l. er bannað að leigja utanbæjarmönnum húsnæði. Ég tel eigi þörf á, að þessu máli sé vísað til n. né heldur að umr. sé frestað, enda liggur þetta mál ljóst fyrir.