10.08.1942
Efri deild: 3. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Atvmrh. (Magnús Jónsson) :

Það er að sjálfsögðu ósk mín og þeirra, sem standa að þessu frv., að það fái sem greiðastan gang gegnum þingið. Ég skal því ekki lengja þessar umr. mjög mikið, enda þarf ég þess ekki, þar sem ræður hjá málsvörum þessara þriggja flokka voru mest gamlar væringar, sem þeir voru að rifja upp, og var því yfir þeim sögulegur blær, líka hjá hv. þm. Str. (HermJ), þó að hann væri einnig að blanda spádómum þar inn í.

Ég þarf ekki margt að segja út af þeim orðum hv. þm. Seyðf. (HG), að hann væri á móti síðari málsgr. 5. gr., að taka ákvörðun á verði innlendra framleiðsluvara undan valdi dómnefndar. Mér finnst þetta skipta litlu máli, þar sem dómnefnd átti að fá till. um þessi efni, en aðeins að leggja formlega úrskurð á þau. Þessi dómnefnd átti að ákveða laun tveggja stétta, launþega annars vegar og framleiðenda hins vegar, og þegar annar hlutinn er afnuminn, þá er heppilegast, að hinn hlutinn sé líka numinn burt.

Ég þarf annars ekki að fara langt út í það, sem hv. þm. Seyðf. sagði. Ég er sammála því aðalatriði í ræðu hans og annarra, sem hér hafa talað, að dýrtíðin sé mikið böl, sem nauðsynlegt sé að vinna á móti.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að gerðardómsl. hefðu ráðizt á kauplægstu stéttina. Þau snertu aðallega tvær stéttir, verkamenn og bændur, og ég býst við, að hann hafi þar aðallega átt við verkamenn. Það er í raun og veru öllum vitað, að það var ein stétt, sem gerðardómsl. komu harðast niður á, en það voru fastlaunamenn, sem stunda vinnu sina áfram og fá ekkert nema verðlagsuppbótina. Aftur á móti hafa verkamenn fengið aðra og kannske miklu verðmætari kauphækkun með því að fá stöðuga vinnu, því að hvar væri þá annars allt gaspur ýmissa hv. þm. um hina miklu bölvun atvinnuleysisins? Þeir hafa breitt sig út yfir það, að það, sem verkalýðurinn þyrfti fyrst og fremst að fá, væri stöðug atvinna. Nei, því verður ekki móti mælt, að verkamenn höfðu fengið mjög verulegar viðbætur, áður en þeir fengu nokkra grunnkaupshækkun.

Hv. þm. talaði um, að verkalýðsfélögin hefðu hvergi unnið að því, að vinna væri lögð niður. En því er þó ekki að neita, að það var samningur milli Dagsbrúnar og Eimskipafélags Íslands um, að Dagsbrún sæti fyrir vinnu hjá Eimskipafélaginu, en ætti aftur á móti að leggja Eimskipafélaginu til verkamenn, ef það vantaði þá. Þess vegna var það, þegar þessir verkamenn sögðu: Nú viljum við vinna annars staðar, þá sneri félagið sér til Dagsbrúnar og óskaði eftir, að hún legði því til menn, en þá vildi Dagsbrún ekki gera það. Ég skil ekki annað en Dagsbrún hefði getað gert tilraun til að uppfylla þetta atriði samningsins án þess að brjóta nokkur lög. Ég er ekki að segja, að félagið hafi getað það, það má vel vera, að það hafi ekki haft menn, en það átti þó að taka þessari málaleitun vel og gera einhverja tilraun.

Hv. þm. segir, að öll ógæfan hafi stafað af því, að þessi endemislög hafi verið sett. En því er ekki að neita, að það var ekki eingöngu barizt á móti þessum l., af því að þau gengju á hagsmuni verkalýðsins, heldur voru þau líka gerð að „principatriði“. Það var barizt á móti þeim vegna þess, að ekki ætti að þola slík lög. Þetta er mjög mikið atriði í málinu. Það var barizt á móti l. með þeim forsendum, að það væri óþolandi, að verkalýðurinn fengi ekki að semja um kaup sitt og kjör eins og frjáls aðili. Nú er tilraun gerð til að sjá, hver hugur hér hefur fylgt máli. Það verður gaman að sjá við þá samninga, sem nú fara í hönd, þegar verkalýðurinn fær að semja sjálfur, hvort hann vill sýna þann þegnskap og þá sanngirni, sem er heppilegust fyrir alla aðili.

Ég vil í því sambandi leiðrétta það, sem hv. 7. landsk. (StgrA) sagði, að ég hefði talið það skort á þegnskap, að verkamenn vildu ekki búa undir gerðardómnum. Ég sagði það ekki, heldur, að ég hefði ekki orðið hér var við þann þegnskap, sem kæmi fram hjá styrjaldarþjóðunum, menn gerðu sér ekki grein fyrir, að það yrði að heimta meiri þegnskap nú en á venjulegum tímum. Ég átti alls ekki sér staklega við verkamennina, það er alveg eins skortur á þegnskap, ef menn græða mikið fé og misnota það.

Hv. þm. sagði, og hv. 7. landsk. tók undir það, að þau öfl, sem unnu á móti gerðardóminum, hafi ekki eins gert vart við sig úti í dreifbýlinu og því kæmi fram mikið ósamræmi um kaupgreiðslur á ýmsum stöðum. Þetta er að sumu leyti rétt, en að sumu leyti ekki, því að t. d. verkamenn úti um land hafa sums staðar farið fram á kauphækkun og lagt niður vinnu að öðrum kosti að sjálfsögðu í sambandi við þessa almennu hreyfingu um hækkun kaups. En þá staðfestir það einmitt, hver orsökin var fyrir því, að þessi l. gátu ekki staðizt. Það var ekkert nema þetta einfalda atriði, hin mikla eftirspurn eftir vinnu og möguleikar til að borga hana. Það er ráð gegn þessu, sem hv. þm. Str. hefði átt að benda á í ræðu sinni um hið gamla og nýja fjármálakerfi.

Ég skal ekki karpa um, hver hafi átt upptökin að því, að þessi l. voru sett. Hv. þm. Seyðf. veit jafnvel og ég, að hin beina orsök þess voru kaupdeilurnar um áramótin. Hitt skal ég ekki fara út í, hvar hinar dýpstu rætur fyrir því liggi, því að það væri eins og hjá manninum, sem gat aldrei byrjað neina ritgerð á öðru en Adam og Evu, því að þar voru frumræturnar að öllu. Það var sameiginleg stefna Sjálfstfl. og Alþfl. að reyna frjálsu leiðina og reyna að tryggja, að ekki yrði farið fram á grunnkaupshækkun, en það tókst ekki, því að ákveðnar stéttir og félög fóru fram á hækkun, og þá vissu allir, að fleiri mundu koma á eftir. Alþfl. vildi ekki gera aðra tilraun, heldur leggja strax upp árarnar, en Sjálfstfl. vildi fara hina leiðina og reyna, hvort lagaleiðin dygði ekki, og fara millileið milli þess, sem Framsfl. og A1þfl. höfðu haldið fram.

Tilgangurinn með þessari löggjöf var að koma í veg fyrir, að grunnkaupshækkun færi fram, en hún fór samt fram að nokkru leyti þegar í upphafi, og það átti nokkurn þátt í, að l. stóðust ekki. Það var byrjunin á grunnkaupshækkununum, en tilgangur inn var að reyna að draga úr þeim og koma í veg fyrir, að aðrar kæmu, og það hygg ég, að l. hafi gert um stund. Það er það, sem átt er við, þegar sagt er, að l. hafi tafið fyrir vexti dýrtíðarinnar. L. komu að óvörum, og það tekur sinn tíma að sjá leiðir til að komast í kringum þau. Menn vilja halda landslög og ætla að gera það í byrjun, þó að þau verði svo brotin, þegar frá líður.

Hv. 7. landsk. sagði, og hv. þm. Str. kom líka inn á það, að nú yrði að hefja samninga. Þetta er alveg augljós sannleikur, sem allir munu vera sammála um. Ég veit ekki, hvað ætti að koma annað. Hitt er annað mál, með hvaða móti er hægt að koma þeim á og hvað stj. getur gert í því efni. Ég get sagt í því sambandi, af því að um það var spurt, hvað stj. mundi gera í þessu efni, að stj. hefur fyrir nokkru þreifað dálítið á þessu hjá stóru verkalýðsfélögunum, Dagsbrún í Rvík og Hlíf í Hafnarfirði, hvað það væri, sem vekti fyrir þessum félögum um kaupgjald, til þess að sjá, hvort líklegt væri, að hægt væri að komast að samkomulagi, því að það er vitanlega, að það er mjög takmörkuð vinna, sem stj. getur samið um, en hún getur, e. t. v., haft áhrif á þá stefnu, sem upp er tekin, og því eðlilegt, að hún þreifi fyrir sér um, hvort á ferðinni eru einhver þau boð, sem gætu talizt aðgengileg. Annars get ég lítið sagt um þetta. Samningar eru hlutir, sem ganga ekki í fljúgandi fartinni, og ég veit ekki, hvað hv. þm. búast við, hversu mikið 3 ráðh. geti setið yfir slíku auk allra annarra starfa og þar á ofan þingstarfanna nú, en ég get sagt það sem mína skoðun, að mér sýnist aðgengilegt, að það kaup, sem raunverulega er greitt nú, komi undir þessi l. og ýmiss konar útúrdúrar og undanbrögð komi fram og samningarnir verði þannig, að kaup og afköst verði þar nokkurn veginn þau sömu og raunverulega er nú, því að það er rangt, sem hv. þm. Str. segir, að það auki dýrtíðina, ef samið er um sama kaup og það, sem nú er raunverulega greitt fyrir eðlilegan vinnutíma. Það eykur dýrtíðina vitanlega ekki neitt. Ég álít, að það sé fyrsta afleiðingin af því, ef gerðardómsl. verða afnumin, að nú þarf ekki að fara krókaleiðir eða í felur. Það er eðlilegast og skynsamlegast, að kaupið komi fram fyrir þann vinnutíma, sem maður getur eðlilega unnið með fullum krafti. Hitt tel ég óeðlilegt, og það var ein hættan, sem kom fram við þessi l., að það komi fram alls konar óeðlilegur vinnutími og fleira þess háttar, eins og alltaf er, þegar menn fara í kringum l. Annars get ég ekki sagt frekar um þetta, af því að ég veit ekki svo enn, hvað fram á er farið, en ég get upplýst, að það mun vera svipað og það, sem menn nú raunverulega vinna fyrir. Og ég segi fyrir mig, að ég tel, að verkamenn geti unnið eins mikið í 9 tíma eins og þó að þeir vinni í 14 tíma. Það þekki ég bezt úr sveitinni, þegar menn stóðu við vinnu myrkranna milli og sváfu varla og afköstuðu sízt meira en nú, þegar vinnutíminn er miklu styttri og unnið af fullu kappi.

Þá kem ég að hv. þm. Str., sem er nú að vísu ekki viðstaddur. Hann var eins og fyrr með heimspeki. Það er eins og með Midas konung, að allt varð að gulli, sem hann snerti, og eins verður allt hjá honum að heimspeki. Hann fór að tala í sambandi við þessi hversdagslegu „konkretu“ mál um gamla og nýja fjármálakerfið og vildi engan þátt eiga í því nýja. Mér skildist, að Framsfl. ætlaði ekki að vera með þessari löggjöf, en satt að segja hafði ég gert mér von um, að hv. þm. gætu allir verið með þessu frv., og hvað sem menn annars álíta um þessa löggjöf, þá gætu nú allir verið sammála um að afnema hana. Hann útskýrði ekki, hvað væri gamla og nýja kerfið, en mér skildist, að gamla kerfið væri að taka háa skatta og dreifa stríðsgróðanum út til þeirra, sem erfiðara eiga, með því að láta þá fá hluta af þeirri almenningseign, sem við þetta myndast. Ég hef ekki séð þann ágreining, sem er um þetta. Ég veit ekki betur en þetta sé í fullum gangi. Það kynni þá að vera, að Alþfl. og Sósfl. væru enn þá eldri en hv. þm. Str., því að þeir vilja taka enn þá hærri skatta. Mér skildist, að það ætti að tilheyra gamla kerfinu að setja gerðardómsl. Ég verð að snúa þessu við, því að gamla kerfið var að fara frjálsu leiðina. Nýja kerfið var það, sem hv. þm. Str beitti sér fyrir, að grípa inn í þessa hluti með löggjöf, en ég held, að þetta sé partur af heimspekinni, en ekki málinu sjálfu.

Hv. þm. Str. segir, að svona l. hafi alls staðar verið sett, þar sem eins standi á og hér. Ég veit ekki, hvaða lönd hann á hér við, ég held, að óvíða standi á eins og hér, því að nú eru því nær allar þjóðir hreinir stríðsaðilar eða þá teknar með hervaldi og haldið niðri með hervaldi. Það væri þá helzt Svíþjóð og kannske Danmörk, og ég skal játa, að mér er ekki vel kunnugt, hvað þar gerist nú. En að ætla að bera sig saman við stríðslöndin, það er ekki hægt nema með því móti, sem ég sagði, að menn hafi hér minna frjálsræði en þeir hafa. Í stríðslöndunum er boðið út heilum herjum, ekki eingöngu þeim, sem eru á vígstöðvunum, heldur líka heima fyrir til alls konar starfa. Þá sjá menn sér fært að innleiða vinnuskyldu. Ef gripið væri til þess í framhaldi af gerðardómsl. að innleiða slíka vinnuskyldu, svo að hægt væri að skylda menn til að vinna hvar sem væri, þá gæti það vitanlega orðið talsvert sterkt, ef menn vildu og treystu sér til að fara út í slíkt.

Ég er ekki heldur viss um, að það sé rétt hjá þessum hv. þm., að það sé ómögulegt fyrir þjóð að skapa sér af stríðsgróða betri kjör en á friðartímum. Ég get vel hugsað mér, að alveg eias og einstaklingar geta grætt tiltölulega mikið á stríðstímum, eins geti þjóðin grætt, og það höfum við gert. Það getur verið, að þjóðin fái ekki allan þann gróða, sem hún nú horfir á, en á þessum stríðstímum hefur þjóðarhagurinn batnað fram að þessu. Hitt er annað mál, hvort okkur tekst að skapa okkur varanleg verðmæti af þeim gróða. Það, sem var að gerast fyrir stríðstímann, var það, að þjóðin var að komast í þrot fjárhagslega. Það er alkunnugt, að þegar Framsfl. gekkst fyrir, að þjóðstjórnin væri mynduð árið 1939, þá var það af því, að fjárhagurinn var kominn í svo mikið öngþveiti, að Framsfl. treysti sér ekki til að leysa það einn. Stríðið hefur, að vísu mikið á pappírnum, en þó líka raunverulega, veitt stórkostlegum verðmætum til Íslands fram að þessu. Það er því ekki hægt að setja það fram sem heilaga reglu, að þjóð geti ekki bætt hag sinn á stríðstímum.

Það er satt, að bændur munu hafa tekið þessum l. betur en verkamenn. En um bændur gilti líka þetta óákveðna orðalag síðari málsgr. Í. gr., sem heimilaði að gera verðbreytingar eftir framleiðslukostnaði, en verkamenn áttu ekki að fá kaup sitt hækkað, nema þar, sem það var til samræmis eða lagfæringar. Það hefur líka sýnt sig í framkvæmdinni, hver munur er á þessu fyrir bændur og verkalýðinn.

Hv. þm. beindi nokkrum spurningum til mín. Mér fannst þær flestar fremur ómerkilegar. En fyrst hann hirðir ekki um að vera hér til að hlusta á svörin, mun ég ekki svara þeim, eða a. m. k. geyma það, þangað til hann er hér viðstaddur.

Hann segir, að það hafi verið einhver sá stærsti pólitíski glæpur, sem unninn hafi verið á Íslandi, að standa á móti gerðardómsl. og framkvæma þau eins vesalmannlega og núverandi stj. hafi gert. Ég held, að enginn standi betur að vígi að dæma um þetta heldur en ég, af því að ég kom nýr inn í stj. Það getur verið, að það skolist meira í hinum ráðh., af því að þeir voru fyrir í stj., og átti sig því ekki eins á, hvað raunverulega gerðist fyrir og hvað eftir stjórnarskiptin. En ég veit ekki, hvaða umskipti urðu í þessum málum um stjórnarskiptin. Hv. þm. talar um l. eins og þau séu ævagömul og langalengi búið að framkvæma þau með mikilli skapfestu og dugnaði, en hvað eru l. gömul? Þau eru sjö mánaða og tveggja daga gömul. Og hvað voru þau gömul, þegar framsóknarráðh. fóru úr stj.? Fjögurra mánaða. Þeir framkvæmdu l. með þessum dæmalausu fastatökum í fjóra mánuði. Þá var tekið á öllu með þessum mikla myndarskap og snilldarbragði.

Þá vil ég einnig benda á það, sem ég minntist á áðan, að l. voru brotin, um leið og þau voru sett í framkvæmd. Það var byrjað að úrskurða grunnkaupshækkun hjá járnsmiðum, og þegar ég settist í minn stól, þá var allt holgrafið. Þá er svo komið, að hvert sem litið er, þá er unnið fyrir annað kaup en það, sem gerðardómurinn hefur ákveðið. Hitt er vel skiljanlegt, að l. væru síður brotin fyrst í stað. L. hafa oft vissan styrk, meðan þau eru ný. Það líða oft 2–3 mánuðir, þar til menn hafa áttað sig á þeim og fara að fara í kringum þau, ef menn annars ætla að gera það. Þess vegna er ekki rétt að reikna hér með 2–3 fyrstu mánuðunum. Þeir eru líka á þeirri árstíð, þegar minnst er að gera. Það er því vorið með sínum önnum, sem setur hreyfingu á þetta, en ekki stjórnarskiptin. Og þegar eftirspurnin eftir vinnuafli er svona gífurleg, þá eru l. brotin, og það svo mjög, að það yrði hreint og beint að hafa einhverja Gestapo-lögreglu á hverri einustu vinnustöð, sem njósnaði alls staðar um, hvað hátt kaup væri borgað.

En sé nú litið á, hvernig Framsfl. hefur reynzt þessu ástfóstri sínu, þá er það eini flokkurinn, sem hefur ráðizt á hjartað í þessu, sjálfa dómnefndina. Ég veit ekki betur en aðalfulltrúi Framsfl. í dómnefndinni segði af sér þvert ofan í landslög, því að það er borgaraleg skylda að taka sæti í dómnefndinni, og þar með var n. óstarfhæf um tíma. Ég held því, að framsóknarráðh. ættu sem minnst að tala um þetta og ásaka ekki okkur, sem sátum að völdum, þegar skýrast kom í ljós, að ómögulegt var að framkvæma þessi l., þegar þeir horfðu upp á það, að l. væru brotin, um leið og þau voru sett, og dómnefndin var gerð óstarfhæf fyrir tilstilli þeirra helztu manna, sem voru svo í framboði fyrir þá við kosningarnar í vor.

Mér þótti dálítið eftirtektarvert, hvernig hann áleit, að ætti að framkvæma þessi l. Hann lýsti því, hvernig hann vildi láta fara að, og á því getum við séð, hvort það hefði gengið betur, ef sama stj. hefði farið með völd. Hann nefndi tvö atriði. Annað var að gera samninga við setuliðið um takmörkun á vinnu þar, og hitt var að takmarka framkvæmdir. Hann lýsir yfir því, að fyrri ríkisstj. hafi gert samninginn, svo að ekki er hægt að ásaka núverandi stj. fyrir, hvernig hann var, en hann segir, að sá samningur hafi ekki verið haldinn, því að unnið hafi hjá setuliðinu 2500 menn í staðinn fyrir 2000. En ég verð að segja, að ef ckkert hefði verið að annað en það, að 500 fleiri menn hafi unnið hjá setuliðinu en samningar stóðu til, þá hefði það verið svo lítið fis, að enginn hefði orðið var við það, sérstaklega vegna þess, að það er ekki hægt að skylda þessa 500 menn til að fara í neina nauðsynlega ákveðna vinnu. Ég veit, að fjöldi þessara manna hefði farið í að byggja sumarbústaði eða annað slíkt, sem á engan hátt telst bráðnauðsynlegt, en á ráðningarskrifstofu landbúnaðarins hefði ekki komið einn einasti maður.

Hitt aðriðið, sem hv. þm. vildi láta gera, var að takmarka framkvæmdir. Það hefði mest átt að fara fram í því ráðuneyti, sem ég er í. En þar hefur engu verið breytt, frá því ég tók við, og mér er ekki kunnugt um, hvaða framkvæmdir hafa verið gerðar: Ef hv. þm. Str. var svo ljóst, að þessa þyrfti með, hvers vegna lét hann þá líða svo fjóra mánuði, að ekkert væri gert? Það eina, sem ég vissi til, að gert væri, var það, að þeim, sem verzluðu með sement, var sagt að úthluta því ekki til annars en íbúðarhúsa nema með leyfi ráðuneytisins. Þetta hefur verið framkvæmt fram á þennan dag. Það gekk sú saga um bæinn, að menn væru í vandræðum með að byggja hús, af því að stj. bannaði að selja timbur, en ég verð að játa, að hún hefur þar ekkert gert, en það hafa verið vandræði með timbur, af því að erfitt hefur verið að fá skip til að flytja það. Mér er sagt, að sá eini flugufótur sé fyrir þessu, að stj. sjálf hafi flutt inn til eigin nota dálítið af timbri, sem þá hefur náttúrlega ekki verið selt öðrum, heldur farið til ákveðinna framkvæmda.

Hv. þm. kom með nokkrar fyrirspurnir, sem hann sagðist ætlast til, að yrðu til að opna augu almennings fyrir þessum voða. Ég er honum sammála um flest, sem hann sagði um erfiðleikana, sem stöfuðu af dýrtíðinni. Það er alveg rétt, að það er gagnslaust að skrúfa upp kaup og verðlag hvort í kapp við annað. Og ég er að lokum honum sammála um, að eina ráðið, sem dugir, er, að augu almennings opnist fyrir því, hvaða heimska þetta er. Og þegar gerðardómurinn er numinn úr gildi, sem af mörgum hefur verið talinn meginþröskuldurinn í vegi þess, að samið væri af sanngirni, þá reynir á skynsemi og þegnskap manna, og þá sýna þeir, hvort hugur hefur fylgt máli, þegar þeir hafa sagt, að þeir væru reiðubúnir til að semja á réttlátum og sanngjörnum grundvelli. Ég er ekki að segja, að hv. þm. Str. hafi ekki reynt að leita samninga við verkalýðsfélögin, þegar hann samdi gerðardómsl., en ég tel, að það hafi a. m. k. verið yfirsjón að reyna ekki að koma þessum málum fram með góðu, því að það á ekki vel við okkur Íslendinga yfirleitt að framkvæma svona mál með hörku, og ég vona, að til þess þurfi aldrei að koma. Ég vil því taka undir þá ósk hans, að augu almennings opnist fyrir þeim hættum, sem framundan eru, svo að allir megi verða sem bezt samtaka um að leysa vandamálin með samkomulagi.