28.08.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (932)

62. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. —Eins og kunnugt er, líður óðum að því, að slátrun hefjist hér á þessu sumri eða hausti. Verður því fljótlega að fara að ákveða það verð, sem bændum er ætlað að fá fyrir þessar afurðir sínar. Í sambandi við þá ákvörðun er eitt einstakt atriði, sem verður að taka til greina, á hvern hátt er unnt að verðjafna það kjöt, sem flytja verður út úr landinu. Í afurðasölul. eru gerðar þær ráðstafanir um þessar verðjafnanir, að taka skuli nokkurn hluta af verði þeirra vara, sem seldar eru í landinu, og safna í verðjöfnunarsjóð, sem síðan sé notaður til þess að verðbæta útfluttu afurðirnar. Þetta gat gengið áður, meðan nokkurn veginn heilbrigt verðlag var í landinu og samræmi milli verðlags á ýmsum vörum. En nú hefur þetta samræmi gersamlega raskazt á síðar í árum. Það er svo komið hér, að meðan kjöti á þeim eina markaðsstað erlendis, sem opinn er fyrir okkur Íslendinga til að selja það á, er haldið niðri í fyrirstríðsverði, er verðlag á svo að segja öllum afurðum margfalt hærra og framleiðslukostnaður allur í landinu, svo að það er útilokað að selja kjöt á erlendum markaði nema með stórkostlegum uppbótum, en þær uppbætur rúmast ekki innan ramma afurðasölul. eins og nú er. Verðjöfnunargjaldið má ekki vera hærra en 10 aurar. Og ef kjöt væri flutt verulega út úr landinu, þá hrykki þetta gjald ekki nema fyrir broti af þeirri verðjöfnun, sem veita þyrfti, til þess að bændur fengju sæmilegt verð fyrir útfluttu afurðirnar. Það er því ekki um annað að ræða, ef mögulegt á að vera að flytja kjöt út og ef bændur eiga að fá fyrir það sæmilegt verð, en annaðhvort að stórhækka verðjöfnunargjaldið eða að ríkissjóður verði að hlaupa undir baggann. Það, sem við leggjum til í þáltill. þessari, er, að ríkissjóður taki að sér að verðbæta kjötið, ef þarf að flytja út eitthvað af því. Og það er ekki nema áframhald á þeirri braut, sem farin hefur verið á undanförnum árum. Árið 1940 fékkst þessi uppbót af fé, sem Bretar greiddu til bóta fyrir markaðstöp þau, sem landsmenn yrðu fyrir af völdum styrjaldarinnar, úr svo kölluðum Bretasjóði. Var mikið af því fé notað í þessar verðuppbætur. Og því var slegið föstu, að þær raskanir, sem gætu orðið á mörkuðum okkar af völdum stríðsins, gætu haft það í för með sér, að greiða yrði uppbætur til þeirra, sem harðast yrðu úti vegna þessara markaðstapa. Árið 1941, — en þá voru Bretar hér, — bjuggust menn við, að vænta mætti einhverra uppbóta í sömu átt af þeirra hálfu. Það fór þó þannig, að engar uppbætur komu frá þeim slíkar, svo að það fór þannig þá, að um það leyti, sem ákveða þurfti verð á kjöti, sneri kjötverðlagsnefnd sér til ríkisstj. og fór fram á, að hún lofaði að leggja það fyrir þingið, að ríkið verðbætti hið útflutta kjöt upp að vissu marki. Og ég hygg, að það hafi farið svo að lokum, að n. treysti sér ekki til að ákveða verðið á kjöti innan lands fyrr en ríkisstj. var búin að ganga frá því í þinginu í fyrra, að verðuppbætur þessar fengjust. Út frá því var svo gengið á síðasta hausti. Nú fór það svo vel um kjötsöluna á síðasta ári, að til þessara uppbóta kom ekki, sem ríkisstj. lofaði að greiða á kjötið. Kjötið seldist allt á innlendum markaði.

Nú horfir þetta öðruvísi við, vegna þess að hið brezka setulið, sem var hér síðast liðið ár og notaði mikið kjöt, er að miklu leyti farið af landi brott, en í þess stað komnir Bandaríkjamenn, sem lítið sem ekkert kaupa af íslenzku kjöti. Það má því búast við, að flytja verði út allmikið af kjötframleiðslu þessa árs. Og þá verður, um leið og kjötverðið er ákveðið, að taka ákvörðun um það, hvernig á að fá uppbætur á það kjöt, sem ekki selst innan lands. Því að það er ekki hægt að dæma ákveðinn hluta landsmanna til þess að selja á erlendum markaði án þess að tryggja þeim að fá svipað verð fyrir kjöt sitt og hinir fá, sem selja kjöt á innlendum markaði. Það er því eitt af tvennu, sem hér verður að gera, annaðhvort að veita heimild til stórhækkaðs verðjöfnunargjalds þess, sem í l. er ákveðið, eða ríkið taki að sér að tryggja kjötframleiðendum verðuppbót á það kjöt, sem kann að þurfa að flytja út úr landinu. Og ég hygg, að verðlagsnefnd, sem ákveður kjötverðið, geti ekki gengið til starfa um að ákveða það verð, fyrr en séð verður, hvaða afgreiðsla fæst á þessari hlið málsins. Ég vil taka það fram, að ég hygg, að þessi n. sé búin að skrifa hæstv. ríkisstj. og bera fram till. í þessu efni. En mér þykir ekki eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. taki ákvörðun um að svara þessu, á meðan Alþ. situr. Við leggjum til, að ríkið greiði þessar verðuppbætur. Því hefur eiginlega verið slegið föstu í ensku samningunum, þegar Bretar veittu uppbætur vegna markaðstapa, að nauðsyn mundi verða á því, vegna þeirra óvenjulegu markaðsraskana, sem stríðið hefur í för með sér, að þeim, sem harðast yrðu úti vegna þeirra, verði að bæta það tjón, sem þeir verða fyrir af þeim ástæðum. Og það er ekkert eðlilegra heldur en að ríkið taki þetta að sér, þar sem áframhaldandi greiðslur frá Breta hálfu, sem menn höfðu vænzt, hafa brugðizt. Ég skal líka geta þess, að það, sem mælir líka með því, að þetta sé gert, er, að það er ekki vafi á því, að bændur verða að fá stórhækkað verð á sínar afurðir á þessu hausti, ef þeir eiga að geta staðið undir þeim stórauknu útgjöldum, sem þeir hafa orðið fyrir og verða fyrir daglega í búrekstri sínum vegna hækkandi verðlags í landinu. Og verði þeir að flytja út kjöt og verði þeim ekki greiddar verðuppbætur á það úr ríkissjóði, er þeim einn kostur nauðugur að hækka verðið á innlenda markaðinum meira en hefur verið og .spenna til hins ýtrasta kaupgetuna í landinu, til þess að þeir geti aflað sér þeirra tekna, sem þeim eru lífsnauðsynlegar. Það má segja, að með því að ríkið taki að sér að greiða þessar verðuppbætur verði unnt að selja kjötið lægra verði heldur en ella, og að þannig verði þetta tillag til þjóðarinnar í heild sinni, bæði framleiðenda og neytenda.

Þá höfum við lagt til í þessari þáltill., að verðuppbætur verði teknar upp á ull og gærum.

Þessar verðuppbætur eru í samræmi við þau loforð, sem á sínum tíma voru gefin um það, að einstakar stéttir skyldu ekki fara halloka af þeirri röskun, sem á mörkuðunum verður vegna styrjaldarinnar. Þeirri reglu hefur verið fylgt á undanförnum þingum, að greiddar hafa verið verðuppbætur á ull og gærur eftir þeim reglum, sem þar um gilda. Okkur þykir eðlilegt, að um leið og ákveðnar eru verðuppbætur á kjöt, þá séu þessar verðuppbætur einnig um leið ákveðnar. Þessar tekjur eru það stór liður í tekjum bænda, að það munar mjög miklu, hvort á þeim verður það verð, sem orkað getur á það, að þeim mun lægra verð geta bændur sætt sig við á kjöti sem betra verð fæst fyrir þessar vörur. Þess vegna er það eðlilegt að ákveða verð á þeim samhliða því, sem kjötverðið er ákvarðað, með því að ákveða verðuppbætur á þessum vörum. Við leggjum til, að svipuð afgreiðsla verði um verðuppbætur á þeim eins og samþ. var á síðasta þingi, að verð þeirra verði hið sama og á framleiðslu ársins 1940, að viðbættri þeirri almennu verðlagshækkun, sem síðar hefur orðið, og að tillit sé tekið um leið til hinna almennu kauphækkana í landinu. Það er ekki nema sjálfsagt, að bændur, sem eru sennilega sú stéttin, sem nú leggur hvað mest að sér í þjóðfélaginu til þess að halda uppi atvinnurekstri sinum — það mál er kunnara en svo, að það þurfi að rekja það — fái það tryggt að tilhlutun ríkisins, að þeir fái eitthvað í þá átt fyrir sitt erfiða starf, sem tíðkast á öðrum stöðum í þjóðfélaginu. Ég tel ekki þörf á að fara langt út í það mál nú. En þess má geta, að t. d. kaupgjald hefur hækkað frá því fyrir stríð um 400%, og jafnvel 500% þar, sem það er hæst, yfir sumarmánuðina og jafnvel ennþá meira yfir aðra tíma ársins, vor og haust, því að nú er að verða lítill munur á kaupgjaldi yfir sumarið annars vegar og aðra tíma ársins hins vegar, sem var verulegur áður. Til þessa þarf að taka tillit, þegar ákveðið er verðlag á afurðunum. Ef bændur eiga að bera mjög skarðan hlut frá borði frekar en aðrar stéttir í þjóðfélaginu, þá er hætta á því, að þeir bændur, sem hafa notað aðkeypt vinnuafl, verði að draga mjög saman bú sín og að einyrkjarnir sömuleiðis gefist upp í sínum búskap og sínum þrældómi og hverfi til annarra atvinnugreina, sem hægt er að grípa til á þessu augnabliki, en á engan hátt verður framtíðaratvinnurekstur þjóðarinnar. Mundi það skapa enn þá meiri ringulreið síðar heldur eu ætti að vera og meir í heldur en þarf að vera, ef rétt er tekið á þeirra málum hvað afurðaverðið snertir.

Ég vænti þess, að hæstv. Alþ. sjái nauðsyn þess að afgreiða þetta mál nú þegar, áður en þingi er slitið, í einni eða annarri mynd.