31.08.1942
Sameinað þing: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í D-deild Alþingistíðinda. (946)

62. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir

Sigurður Kristjánsson:

Ég kvaddi mér hljóðs vegna þess, að það kom fram hér í ræðu hv. þm. Borgf. (PO), að hann vildi gjarnan vera laus við þetta kjötsöluskipulag, sem nú er. Mér þykir nú gleðilegt að heyra þetta. Og ef fleiri af þeim mönnum, sem haldið hafa verndarhendi yfir þessu afurðasöluskipulagi, sem nú á sér stað hér í landinu, eru svipaðs sinnis, að það hafi gefizt þannig, að ástæða sé til að hrinda þeirri plágu af mönnum, þá held ég, að við þurfum ekki að bíða lengur en til næsta þings með að fá það san1þ. Ég hef hvað eftir annað flutt það fram hér á hæstv. Alþ., að dregið yrði úr þessu valdi, sem ríkið hefur tekið sér til þess að ákveða skipulag á afurðasölu landsmanna, bæði á þann hátt, að einungis væri heimilt að ákveða lágmarksverð á þessum vörum, og einnig um algert afnám þessara l. En það hefur ekki fundið náð fyrir augum hv. þm., ekki heldur hv. þm. Borgf. En þetta þunglamalega og á margan hátt hneykslanlega skipulag í þessum efnum hefur ekki aðeins gert það að verkum, að framleiðendur eru ófrjálsir með að selja vörur sínar, heldur sleikir það svo mikið upp af útsöluverðinu, að ég veit ekki, hvernig er hægt að standast það nema með því að hækka vöruverðið, ef framleiðendur eiga að standast við að borga allan þann kostnað, sem þetta þunglamalega skipulag veldur. Það er alveg satt, að það er mjög mikið tekið fram fyrir hendurnar á framleiðendum með skipulagningu á mjólkur- og kjötsölunni. Og ég get ekki séð, að með brtt. hv. 6. þm. Reykv. sé nokkurn skapaðan hlut aukið á þetta. Mér virðist, að með hans till. sé þessu máli aðeins beint inn á þær brautir að reyna að auka innanlandsneyzluna án þess að skerða á nokkurn hátt þá ákvörðun að tryggja framleiðendum sæmilegt verð fyrir framleiðsluvöruna. Og það er undarlegt að fyllast stórkostlegri vandlætingu út af því, þó að beina eigi neyzlu kjötsins meir til landsmanna sjálfra heldur en hefur verið án nokkurrar skerðingar á verðinu fyrir hana til framleiðendanna. Og ég vil taka undir það, sem hv. þm. Seyðf. (HG) sagði, og ég ætlaði mér að koma inn á það, að það er beinlínis hneykslanlegt, ef við erum að leggja fram fé úr ríkissjóði til þess að koma út úr landinu matvælum, sem við vel getum neytt sjálfir. Það var líka hálfgert hneykslismál, þegar við vorum sama sem að gefa Norðmönnum margar þús. tunna af kjöti árlega, en fátækir menn á þessu landi gátu ekki veitt sér kjötrétt einu sinni í viku. Og það mundi vera hið sama frá mínu sjónarmiði, ef við færum að senda út þessa vöru til Englands með tillagi úr ríkissjóði og taka þannig brauðið frá munni okkar eigin barna. Og ég sé ekki, að þetta komi nokkurn skapaðan hlut því við, sem fyrir hv. flm. þáltill. vakir, að sjá borgið, að framleiðendur kjötsins fái sæmilegt verð fyrir það sjálfir.