31.08.1942
Sameinað þing: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (947)

62. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Ég álít, að það sé mikil þörf á að samþ. þá brtt., sem hv. 6. þm. Reykv. (BrB) flytur við þáltill. Ég held, að það sé nauðsynlegt, áður en hæstv. Alþ. rekur smiðshöggið á ákvæðin um þessar verðuppbætur, sem sé í þessari þáltill., sem hér liggur fyrir, að maður sjái nokkuð, hvert sé stefnt með þessu. Eftir því sem mér hefur heyrzt, er til sú stefna hjá ákveðnum mönnum, þótt ég búist við, að það sé ekki nema brot af þeim mönnum, sem telja sig fulltrúa bændanna, að það beri að nota þá aðstöðu, sem nú hefur skapazt í landinu, til þess að knýja fram mjög hátt verð á landbúnaðarafurðum til bændanna, og gera það alveg sérstaklega í krafti þess, að verðlagsnefndir þurfi ekki að taka neitt tillit til neytendanna, þegar þær ákveða sitt verð, vegna þess að þær geti alltaf tryggt bændum það verð fyrir kjötið, sem þær telja bændum nauðsynlegt, með því að flytja út nokkuð af því. Ég held, að þetta gæti orðið til þess, að óheilbrigð öfl gætu orðið að verki, sem gætu ákveðið verðið á kjötinu mjög hátt, án þess að taka tillit til neytendanna í landinu. En til þess að geta komizt hjá að taka tillit til neytendanna í landinu þarf að hafa heimild til þess að borga innanlandsverð fyrir kjötið til bændanna, þó að það sé ekki selt á innlendum markaði, heldur flutt út.

Ég held, að það sé alveg nauðsynlegt, að menn geri sér strax grein fyrir því, að hverju er verið að vinna. Menn heyra það út undan sér, sérstaklega í sveitunum, að það sé búizt við háu kjötverði í haust. Þetta er stundum látið í ljós hér í þinginu í öðrum tón, og kemur í ljós í ræðu hv. þm. Str., að hann býst við, að þess verði ekki langt að líða, að fólkið í bæjunum biðji um kjöt og biðji um gerðardóm. Ég held, að það sé bezt, að við athugum, hvert er verið að stefna, og það er athugavert fyrir fulltrúa bændanna, að hverju er stefnt með því að fara í stríð við verkalýðinn í bæjunum. Það er öfugt við þá einu stefnu, sem er rétt. Það hefur ekki verið skeytt um það, þótt verkalýðurinn hafi viljað hjálpa til að tryggja framleiðsluna í sveitunum. Það hefur ekki verið skeytt um það, að við þm. Sósfl. höfum lagt hér á þingi fram till. til þess að tryggja bændum vinnuafl. Það hefur ekki verið skeytt um það að tryggja hagsmuni landbúnaðarins með það fyrir augum, að bæjarbúar gætu fengið landbúnaðarafurðir sæmilegu verði og bændur vinnuaflið. Það var flutt þáltill. hér í maí 1941 og lagt til af okkur á síðasta þingi, og Dagsbrún, stærsta verkamannafélag landsins, skrifaði beinlínis ríkisstj. til þess að bjóða aðstoð sína um að tryggja nauðsynlegt vinnuafl handa landbúnaðinum, en það, sem virðist hafa gerzt, er það, að ákveðin öfl hafa verið að verki, sérstaklega í Framsfl., sem vildu ekki þessa samvinnu, og síðan voru af þeim flokki haldnar æsingaræður í útvarpið um það, að verkalýður bæjanna væri að eyðileggja allt og setja í upplausn. Það var verið að boða skort í bæjunum og allt af því, að verkalýðurinn væri svo sterkur, að stj. gæti ekki ráðið við hann. En á sama tíma var samvinna milli verkamanna og bænda hundsuð. Til hvers leiðir þessi andstaða? Hún leiðir til þess að æsa bændur á móti verkamönnum og að fá bændur til þess að heimta það verð fyrir kjötið, sem er fram úr öllu hófi. Það er ekki enn þá farið að nefna, hvað hugsað er í þessu sambandi. Þær tölur, sem nefndar hafa verið, getur maður ekki haft eftir, en það er ekki nema eðlilegt, að Alþ. vilji hafa vaðið fyrir neðan sig. Það er ekki nema eðlilegt, að það vilji það, og það er ekki hægt að misskilja þá andstöðu, sem er að skapast.

Nú vil ég með nokkrum orðum svara hv. þm. Borgf. (PO), þar sem hann minntist á, að það væri verið að taka bændur þrælatökum, það væri verið að leggja fjötur á bændur, skerða ákvörðunarrétt þeirra o. s. frv. En vill hann athuga, hvað er verið að gera? Það er ekki verið að skerða það vald, sem kjötverðlagsnefnd hefur til þess að setja verð á kjötið innan lands, og skulum við í því sambandi athuga, hvaða aðstöðu hún hefur. Aðstaðan er sú, að kaupgetan er miklu meiri, lífs-„standardinn“ hærri og eftirspurnin eftir kjöti miklu meiri, svo að það er óhætt að setja hæsta verð á kjötið með það fyrir augum, að fólkið muni kaupa það. Í öðru lagi segir hv. þm. Borgf., að setuliðið kaupi nú meira og meira af kjöti og að það sé að koma skriður á það mál. Þegar það er athugað, að nú virðist láta nærri, að hermennirnir, sem dvelja hér, séu álíka margir og Íslendingar og að skriður er kominn á málið, má hugsa sér, að það sé enginn smáræðis skriður. Það má ganga út frá því, að ekki verði örðugt að fá verð fyrir kjötið á þeim markaði, og kjötverðlagsnefnd ræður yfir þessum markaði. Það er langt frá því, að verið sé að leggja fjötur á bændur. Það eina, sem er verið að gera, er það, að í staðinn fyrir að ákveða að borga verðlagsuppbót á útflutt kjöt, er stj. gefin heimild til þess samkv. þessari brtt. að neita að greiða verðlagsuppbót, svo framarlega sem henni finnst, að verðið, sem sett er á kjötið hér innan lands, fari úr hófi, því að það er beinlínis hægt að misnota þessa heimild, sem hér er gefin til þess að setja verðið hátt á innanlandsmarkaðinum. Það er viðurkennt í grg., að ekki hafi komið til þess á síðasta ári, að kjöt væri flutt út, og enn fremur samkv. ræðu hv. þm. Borgf., að nýr og stórfelldur markaður væri nú fyrir kjötið, svo að það er greinilegt, að verið er að fara fram á þessar verðuppbætur til þess að geta sett á það hvaða verð, sem vera skal. (PO: Þetta eru svívirðilegar getsakir.) Það er bezt fyrir hv. þm. að athuga, hvað hann sagði og hvað hann meinti.

Ég held þess vegna, að þessi brtt. sé ekki nema alveg sjálfsögð, að hún sé alveg sjálfsögð til þess að tryggja það, að verðið á kjötinu verði ekki sett úr hófi hátt. Það væri líka alveg sérstakt, ef það ætti að fara að verðlauna útflutning, eins og tímarnir eru núna, sérstaklega með tilliti til þess skipakosts, sem við höfum. Það er almennt talið, að matvælaskortur sé yfirvofandi, og á sama tíma og mjög góðar horfur eru á því fyrir bændur að fá gott verð fyrir kjötið á að tryggja, að hægt sé að selja það utan lands, og borga með því úr ríkissjóði margfalt verð þess. Ég held, að það væri fróðlegt fyrir Alþ. að fá að heyra frá mönnum, sem eru kunnugir því, hvaða verð þeir hafa hugsað sér fyrir kjötið. Það virðist ekki nema sanngjarnt að mælast til þess yfirleitt, þegar talað er um að greiða úr ríkissjóði, að menn hafi hugmynd um, hvað á að greiða.

Þá er það viðvíkjandi því, sem hv. þm. Borgf. sagði. Hann talaði um, að með brtt., sem hér liggur fyrir, væri farið inn á þjóðhættulega braut, — ekki um verðið hér innan lands og ekki viðvíkjandi kjötinu til setuliðsins, — heldur viðvíkjandi því, hvað ætti að borga út úr landinu. Honum finnst það þjóðhættulegt. Hvaða stjórn á að hafa þetta á hendi? Ég veit ekki betur en það sé sú stjórn, sem hann styður. Ber hann svo lítið traust til hennar, að honum finnist óhugsandi að fela henni þetta eftirlit?