01.09.1942
Sameinað þing: 11. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (970)

8. mál, úthlutun bifreiða

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Ummæli hv. þm. Barð. gefa mér tilefni til að vitna ofurlítið. Það er réttilega tekið fram hjá hv. þm., að hv. 2. þm. Skagf. (PHann) mætti á tveimur fundum allshn. Þó var það ekki skoðað svo, að hann ætti sæti í n. N. gerði enga samþykkt á fundunum, og engin skýring lá fyrir um, að flokkurinn hefði falið honum þetta, heldur tókum við vinsamlega á móti honum sem einum flm. till. Og ég vil sérstaklega taka fram, að framkoma þessa hv. þm. í n. stuðlaði á engan hátt að því að tefja nefndarstörfin eða koma þar im ófriði og óeiningu. Svo læt ég útrætt um það.

Tilefnið var að öðru leyti að gera grein fyrir þeim fyrirvara, sem ég á í undirskrift minni á þskj. 108. Það lá hér fyrir brtt. um það, að þessi þriggja manna n. skyldi þannig skipuð tveimur af þinginu kjörnum, en formaður sé skipaður af bifreiðastjórafélaginu Hreyfli og varaformaður af vörubílstjórafélaginu Þrótti, og skyldi varaformaður taka sæti, þegar úthlutað væri vörubifreiðum. Nú ætla ég, að ekki leiki á tveim tungum, að sá hópur manna, sem á mest undir því, að úthlutun bifreiða fari vel á þessum tímum, eru bifreiðastjórarnir, hvort sem þeir flytja fólk eða vörur. Það er þess vegna í alla staði rétt og eðlilegt og í samræmi við venju og ýmiss konar löggjöf, að þessi stétt fái tækifæri til að hafa áhrif á úthlutun bifreiða. Nú skal ég viðurkenna, að bezt og eðlilegast hefði verið að fá sameiginleg landssamtök bifreiðarstjóra til að skipa forsætið. En slík samtök eru ekki til. Og því verður ekki nær komizt því, sem er réttast og eðlilegast, en að taka stærsta bifreiðastjórafélagið, sem starfar hér í Reykjavík.

Og þá má geta þess, að það eru bílstjórar hér í Rvík, sem að langmestu leyti annast langferðirnar út um allt land.

Ég þarf svo ekki frekar að fjölyrða um þennan fyrirvara, en vil að öðru leyti mæla með, að samþ. verði till. meiri hl. allshn., og vísa til þess rökstuðnings, sem fram hefur komið hér í ræðu hv. þm. Ísaf.