11.08.1942
Sameinað þing: 4. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í D-deild Alþingistíðinda. (992)

13. mál, vöru- og farþegaflutningar með ströndum fram og flugleiðis

Sigurður Bjarnason:

Ég fagna því mjög, að hæstv. ríkisstj. skuli hafa tekið þessi alvarlegu mál til meðferðar, því að í þeim horfir mjög illa.

Eins og kom fram í áliti tveggja hv. þm., þeirra hv. 1. þm. S.-M. og hv. þm. Seyðf., þá eiga ákveðnir landshlutar við mikla erfiðleika að etja hvað aðflutninga á nauðsynjavörum snertir. Hv. þm. Seyðf. taldi Austfirði verst setta, en ég tel, að það eigi ekki síður við um Vestfirðina. Landleiðir eru þar mjög torsóttar, þar sem vegirnir eru eigi komnir í samband við akvegakerfi landsins, og kemur þetta því sérstaklega hart niður á Vestfirðingum. Strandferðir eru strjálar og ferðum eimskipafélagsskipanna hefur fækkað, að vísu af mjög eðlilegum orsökum, þar sem nú er brýn þörf á að nota allan hæfan skipakost í utanlandssiglingar. Ég tek eindregið undir till. með þessum tveimur hv. þm. og þakka hæstv. ríkisstj. fyrir sinn undirbúning, sem hún hefur haft til þess að greiða fyrir málinu, en okkur Vestfirðingum er full nauðsyn á, að þessu verði kippt í lag hið fyrsta. Kunnugt er, að mikill fjöldi báta siglir nú í þjónustu hitina erlendu setuliða hér, og er það í samræmi við margt annað í þjóðlífi okkar. — Mér fyndist eðlilegt, að eitthvað af þeim skipakosti væri tekið í þjónustu landsmanna sjálfra í strandferðirnar, eins og hv. 1. þm. S.-M. drap réttilega á, að hugsanlegir möguleikar væru á. Ég veit, að víða á Vestfjörðum hafa flutningsörðugleikarnir verið svo miklir s. l. vetur, að vart hefur slíkt þekkzt svo áratugum skiptir.

Ég mun ekki ræða frekar um þetta að sinni, en vænti þess, að hæstv. ríkisstj. geri allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að vinna að nokkurri úrbót vandræðanna í þessum efnum.