11.08.1942
Sameinað þing: 4. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (994)

13. mál, vöru- og farþegaflutningar með ströndum fram og flugleiðis

Jóhann Jósefsson:

Það, sem hér er til umr., er að vísu líklegt og aðkallandi, en það hefur bara verið það svo árum skiptir. Hv. síðasti ræðumaður gerir vel í að opna augu sín fyrir því, þótt seint sé.

Það eru ekki aðeins Austfirðir og Vestfirðir, sem útundan hafa hér orðið, heldur hefur þetta bagað um allt land upp undir 4 ár. Þeir, sem eitthvað hafa þekkt til Skipaútgerðar ríkisins, vita best, við hverja örðugleika hún hefur átt að stríða. Ég nefni mitt kjördæmi sem dæmi. Það bjó við góðar samgöngur fyrir stríð, meðan millilandaskipin höfðu þar viðkomu. En er þær lögðust niður, samdist svo um við fyrrv. forsrh., að Þór gengi vikulega til Vestmannaeyja, en hann hafði, sem betur fór, ekki verið seldur eins og Óðinn. Við Vestmannaeyingar sættum okkur við þessa úrlausn, en brátt fóru þessar ferðir út í veður og vind, vegna þess að taka þurfti skipið í annað brýnna, er talið var, svo að ferðirnar urðu óreglulegar og stundum kom ekkert skip.

Ég er sammála hv. síðasta ræðumanni um það, að eimskipafélagið muni ekki geta bætt hér úr þörfinni. Það mun ekki geta sinnt þessum flutningum og einkum valt að treysta á það nú. Því að verði skip félagsins ein í millilandasiglingum, eru strandferðir þeirra þeim mun óhugsanlegri. Hins vegar eru mörg og ýmiss konar skip í þjónustu setuliðsins. Það, sem þarf að gera, er að taka til betri athugunar, að ríkið hafi meiri skipakost til umráða en verið hefur. Þá vil ég minna á, að mér leikur grunur á, að forstjóri skipaútgerðarinnar hafi erfiða aðstöðu á fleiri sviðum. Hann hefur stundum getað fengið keypt skip erlendis, en seinagangur stj. um ákvarðanir um þau mál hefur tafið fyrir framkvæmdunum. Ég vil minna hv. l. þm. S.-M. á það, er bæði ég og fleiri áhugamenn um þessi mál snerum okkur til þáv. viðskmrh. og báðum hann að vera hjálplegan, ef stj. fengi tilboð um kaup eða leigu á skipum erlendis, og aðstoða forstjóra Skipaútgerðar ríkisins um að ná skipakosti til flutninga. Ég efast ekki um, að hv. fyrrv. viðskmrh. muni eftir þessum samtölum hér niðri í alþingishúsinu, þótt við töluðum við hann sem leikmenn, en ekki formlega kjörnir fulltrúar í þessum málum.

Þá vil ég minnast á, að einkennilegt virðist, að margir einstaklingar hafa keypt nýjar vélar í skip sín og gert þau hagkvæmari til flutninga á undanförnum árum á sama tíma sem Skipaútgerð ríkisins hefur ekkert gert í þá áttt, og veit ég þó, að ekki er um að kenna forstjóra útgerðarinnar. Það er stjórn landsins, sem ekki hefur brugðizt nógu fljótt og vel við, því að úr því að einstaklingar hafa getað þetta, þá hlýtur ríkið að hafa getað það.

Ég hef nýlega frétt frá stj., að hún hefði getað fengið skip, en þó ekki sem heppilegast. Ef það tilboð stæði nú enn þá, vildi ég biðja stj. að athuga það vel og sleppa engu fram hjá sér í þessu efni. Hér má ekki um of einblína á það, að dýrt þyki í svipinn að breyta skipi eða kaupa það, því að það, sem þykir dýrt í dag, getur vel þótt ódýrt eftir lítinn tíma. Og yfirleitt hefur verið svo frá stríðsbyrjun, að höfuðnauðsyn hefur verið að eignast skip og aftur skip. Og úr því að ekki er hægt að eignast ný skip, þá einhverjar fleytur, ef hægt er. Það er knýjandi nauðsyn.

Ég veit ekki vel, hvernig stóð á með Súðina, er talað var um að breyta henni í mótorskip. Það þótti allt of dýrt þá. En nú eru aðrir tímar og ástæður þær ekki jafngildar. Ég er ekki með þessu að slá því föstu, að nauðsyn hefði verið á að breyta einmitt þessu skipi þá, þótt ekki hefði það verið óhyggilegt, ef stjórnin hefði viljað styðja að því. En eins og nú horfir, fyrir utan nauðsyn þessarar till., er hitt einnig nauðsyn, ef komast má yfir skip, að kasta því ekki frá sér, þótt dýrt sé kallað í svipinn að kaupa það eða breyta því. Og svo hitt, að ekki sé við hafður fullkominn skrifstofuseinagangur á öllu um þetta mál, hvort eigi nú að slá sér á þetta eða ekki, ef ég mætti viðhafa þau orð.

Sannast að segja flæktist fyrrv. stj. í sjálfri sér um þessi mál, og ekkert var gert til úrbóta frá stríðsbyrjun eða frá því Esjan var keypt, á sama tíma og margir einstaklingar hafa endurbætt skip sín. En það er komið, sem komið er.

Ég vil hér nota tækifærið til þess að benda þeirri n., er væntanlega fær þetta mál til athugunar, á það, að auka beri skipin, er unnt er, og undirstrika einkasamtöl mín við stj. um það, að veita forstjóra Skipaútgerðar ríkisins fullan og fljótan stuðning til þessa. Ég vil biðja hv. þm. að athuga, að ég hvet ekki til neins angurgapaháttar í þessum efnum, en ég vil ekki heldur tregðu og seinagang. Og hvað kostnaðinn áhrærir, þá er því til að svara, að dýrast mun verða í reyndinni, ef við stöndum uppi í stökustu vandræðum með dreifingu varanna héðan frá Rvík, allt fyrir seinagang. Og þegar talað er um kostnaðinn, má mikið á það líta, hver er hinn beini og óbeini kostnaður. Þótt skip sé keypt 2–300 þús. kr. fram yfir dagvirði þess, þá er sú upphæð ekki lengi að renna úr vösum landsmanna, ef flutningar allir truflast eða stöðvast vegna skipaskorts.