12.04.1943
Efri deild: 97. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Magnús Jónsson:

Ég get fallizt á, að æskilegt væri, að þessi 1. umr. yrði ekki mjög löng, ef allar eiga að rúmast á einum degi, en vil þó

leggja til, að málinu verði vísað til n. Ég er hissa á því, ef hv. d. vill ekki vísa málinu til n. Nýtt þing á ekki að koma saman fyrr en á föstudag, og ég sé ekki, að nokkuð sé því til fyrirstöðu formslega, að þessu þingi sé slitið degi áður. Ég vil taka undir það, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði um aðferð þá, er höfð hefur verið í þessu máli: Hér er mál, sem er í raun og veru í lausu lofti. Það er sök sér um mál, sem áður hefur verið samið um og sæmilega eru undirbúin, þó að fljótaskrift sé á formslegri afgreiðslu þeirra, en mér skilst, að því sé ekki til að dreifa hér. Að vísu mun fjhn. Nd. hafa fjallað um málið ásamt fjhn. þessarar hv. d., en því samstarfi var slitið af hálfu fjhn. Nd., og samkomulag það, sem náðist í fjhn., var rofið og nýjum atriðum bætt inn í málið. Það er því eins og hvert annað ókarað þingmál, og hlýtur sú spurning að vakna í þessu sambandi, hvort þingið hafi leyfi til að virða að vettugi deildarskipun sína í svo mikilvægum málum. Ég teldi þó miklu skárra, ef málinu yrði vísað til n. og svo haldið áfram að ræða það hér fyrri partinn á morgun. Annars tel ég, að hér hafi ekki aðeins hv. Ed. verið virt að vettugi, heldur Alþ. sjálft. Það eru önnur stórveldi hér í landinu, sem tekið hafa að sér að ráða málinu til úrslita, annars vegar verkamenn, en hins vegar bændur, og það er nú jafnan svo, að taka verður til greina, hvað stórveldum þóknast að vilja. Þetta er dæmi þess, hvernig fer, ef löggjafarvaldið er sett út úr spilinu af sterkum hagsmunasamtökum. Þessar ráðstafanir, sem gerðar eru til bráðabirgða, sýnast mér stefna í rétta átt. Þar er hlaupið undir bagga af löggjafarvaldinu og fjárveitingarvaldinu og boðið fram fé til þess að búa í haginn fyrir þá útkomu, sem kann að fást við samningaborðið í hinni miklu nefnd. Hitt er annað mál, að frv. er stórskemmt með því, að rofið var samkomulag fjhn. Nd. og samþ. inn í það 7. gr. Mér þótti samsvarandi gr. í stjórnarfrv. vera ákaflega óaðgengileg, en hvað var hún hjá þessu, þegar ekki á aðeins að banna að leggja í varasjóði, heldur eyðileggja að mestu nýbyggingarsjóðina líka ! Nú á að taka féð, sem var til tryggingar, endurnýjunar og eflingar fyrirtækjunum og atvinnunni, og leggja í sjóð til að framfæra með einhverju móti þá, sem þannig eru sviptir atvinnunni. Það er ákaflega undarleg ráðstöfun, vægast sagt, — í stað þess að herða á því með löggjöf, að féð yrði notað til endurbyggingar og atvinnuaukningar. Mér finnst það sérstaklega einkennilegt, að að þessu standa menn, sem lengi hafa prédikað, hvílík heimska þessir framfærslustyrkir séu. Hvað verður gert annað en eyða fénu í þá heimsku eða aðra álíka, þegar þeim tilgangi er náð að eyðileggja atvinnufyrirtækin? Það leiðir hvað af öðru. Og þetta er alls ekki breyting til bráðabirgða eins og annað í frv., heldur frambúðarbreyting á skattalögum. Vitanlega er alrangt, að slíkt ákvæði sé haft í þessu frv. og ekki sérstakt, enda var það ætlun fjhn. Nd. að blanda þessu ekki saman. Ég undraðist, þegar hv. 3. landsk. (HG) kvaðst sakna þess, hvað stjfrv. væri orðið breytt og skattaákvæðin úr því felld. Að vísu er tekinn úr því kaflinn um stríðsgróðaskatt og eignaraukaskatt, sem leggja átti á í sérstöku skyni. Einnig féllu burt ákvæðin um skyldusparnað. Að öðru leyti haldast skattaákvæðin, nokkuð breytt, og eins og 7. gr. er útbúin, gengur frv. nú svo miklu nær svokölluðum stríðsgróða en áður, að ólíku er saman að jafna.

Ég skal svo ekki hefja umr., en vil fyrir mitt leyti leggja til, að málinu sé vísað til fjhn., og mælast til þess mjög eindregið, að því sé ekki haldið áfram fyrr en á morgun.