12.04.1943
Efri deild: 97. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Bjarni Benediktsson:

Ég kvaddi mér hljóðs til að óska eftir, að málið færi til n. Að öðru leyti nægir mér að segja það við þessa umr., að ég hygg, að eins og málin hafa legið fyrir og eins og gögnum er háttað, sé ekki hægt að komast í bráð að annarri niðurstöðu í aðalefni frv. Það er ekki um annað að ræða en taka sér frest til að reyna að finna svokallaða landbúnaðarvísitölu og þar með hlutföll afurðaverðs og kaupgjalds. Á vöntun þessarar vitneskju hafa allar samkomulagstilraunir strandað. Á engu hefur verið að byggja nema óteljandi tölum, sem eru meira og minna gripnar úr lausu lofti. Hlutverk n. er að finna þann grundvöll, og hafi ekki tekizt samkomulag samkv. honum, er að því búnu kominn tími til fyrir hið pólitíska vald að taka ákvarðanir. Ég held því, að ekki sé harmandi, þótt önnur ákvæði hafi fallið úr frv., þar sem gert var ráð fyrir fljótari lausn þessa máls. Grundvöllurinn var ekki fyrir hendi. Þing og ríkisstj. hefðu getað sparað sér fyrirhöfn með því að gera sér þetta ljóst snemma.

Ég vil benda n., sem mun fá málið til meðferðar, á, að hún verður að taka ýmis atriði til athugunar í sambandi við 7. gr. Ég geymi mér til 2. umr. rétt til að ræða gr. í einstökum atriðum og skal ekki fara út í það, hvort skynsamlegt sé út af fyrir sig að svipta jafnt útgerðarfélög sem verzlunarfélög, hlutafélög jafnt sem samvinnufélög réttinum til þess að leggja fé í varasjóði. Ég tel okkur vera furðu óminnuga á fyrri reynslu, ef við munum ekki, að bæði verzlunar- og útgerðarfyrirtæki hljóta að komast í kröggur í stríðslok, verzlanir t.d. liggja þá með vörubirgðir, sem þær skaðast á, ef þær hafa gegnt þeirri skyldu sinni að birgja landið vörum. Eins er það athugamál, hvort heilbrigðara sé að koma í veg fyrir endurnýjun flotans eða greiða fyrir henni. En eigi að skattleggja þessa aðila eins og í 7. gr. segir, verður ekki hjá því komizt, að sveitarsjóðir fái meiri hluta þeirra skatta, sem þannig nást. Álagningarréttur sveitarsjóða var mjög takmarkaður og þeim veitt hlutdeild í staðinn í stríðsgróðaskatti, er hann var settur. Það hefur verið deilt um, hvort rétt sé að setja þá takmörkun á rétti sveitarsjóða. En hún helgast af því, að með þeirri skipun mála sé komið í veg fyrir skattflótta, þ.e. að menn leiti með rekstur sinn á staði, þar sem skattar eru lægstir. Sé nú tekinn af fyrirtækjunum réttur til að safna í varasjóði og tekin nokkurn veginn 90% af raunverulega öllum tekjum þeirra í skatt, er auðsætt, að sveitarsjóðir verða að fá verulegan hluta af þessari víðbót, ef ekki á stórlega á rétt þeirra að ganga. Frá fornu fari hafa beinir skattar verið aðaltekjustofn sveitarfélaganna. Mér virðast þess, sem þarna á að taka, eiga að renna í sveitarsjóð, annaðhvort beinlínis til þess að lækka útsvör eða til að leggja í sjóði til notkunar eftir ófriðinn. Það getur auðvitað verið samkomulagsatriði, hve mikinn hlut þeir ættu að fá, en minna en 2/3 kæmi ekki til mála, ef nokkurrar sanngirni á að gæta. Ég vil skora á n. að taka þetta til athugunar, ef hún telur það rétt, sem ég tel rangt, að láta 7. gr. haldast að meginefni til.