13.04.1943
Efri deild: 98. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Það litur út fyrir, að hv. þm. telji, að búið sé að finna svo góða lausn á málinu, að ekki þurfi að sinna því meir og hafi því engan áhuga fyrir því. Ég er ekki jafn viss um, að svo sé. Mér sýnist heildarmyndin af málinu nú vera sú, að lítið sé eftir af dýrtíðartill. annað en tilraun til að reyna að stöðva dýrtíðina, meðan verið sé að gera aðra till. í n., sem skipuð er til að reyna að finna grundvöll undir umr. um lausn málsins. Eins og málið horfir við og líklegt er, að það verði afgr., sýnist mér það vera í aðalatriðunum þannig, að það hefur verið reynt að ganga hina frjálsu leið í fimm mánuði, og árangurinn liggur hér fyrir. Við skulum vona, að árangurinn af næstu mánaða starfi verði eitthvað meiri.

Það er auðsætt mál, — enda kom það fram hjá hv. þm. Barð., — að eftir að felld hefur verið niður 3. og 6. gr., sem gerðu ráð fyrir, að ef til vill væri hægt að komast að samkomulagi við félagasambönd launþega, þá er engin trygging fyrir því, að bændur vilji gefa það samþykki, sem ræðir um í 5. gr. Bændur eru yfirleitt á móti því, að varið verði peningum til að lækka vörur. Þeir kunna að hugsa sem svo, að þegar hætt verður að veita þannig fé til verðlækkunar, þá sé engin trygging fyrir, að vöruverð fari aftur upp í það, sem þyrfti að vera. Vonandi er, að til þess komi ekki, en óneitanlega er allt erfiðara viðfangs, þegar ekki er gert ráð fyrir gagnkvæmum tilhliðrunum, eins og gert var ráð fyrir í frv., þegar það kom til þessarar hv. d. Má gera ráð fyrir, að hvorugar stéttirnar hefðu viljað láta það um sig spyrjast, að þær skoruðust undan að verða við þeim tilslökunum, sem átti að fara fram á við þessar stéttir í sambandi við 3.–5. gr., en eftir að 3. gr. hefur verið felld út úr, eins og gert er ráð fyrir í brtt., sem hér liggur fyrir, þá er það alveg rétt, sem hv. þm. Barð. sagði, að það geta orðið erfiðleikar á framkvæmdinni. Ég fullyrði ekkert um þetta, en sjálfsagt er þó að hafa hliðsjón af þessu, þegar 3. gr. er felld niður, og þá er auðsætt mál, að þá er lítið eftir af dýrtíðartill. annað en að skipa 6 manna n. til að reyna að finna hlutfallið milli verðlags og kaupgjalds, og má búast við, að mikið af starfi hennar verði að rannsaka það, sem mest hefur verið deilt um hér á þingi í fimm mánuði, hvort verðlag á landbúuaðarafurðum hafi hækkað tiltölulega meira en kaup í landinu. Og þegar hv. 3. landsk. minntist á, að nokkurn tíma skyldi hafa verið farið út af grundvellinum, sem lagður var 1939, þar sem gert var ráð fyrir, að verð á landbúnaðarafurðum hækkaði um sömu prósenttölu og kaup í landinu, þá liggur það alls ekki fyrir í þessu máli, heldur er það einmitt það, sem mest er um deilt. Nú liggur fyrir sú lausn í dýrtíðarmálinu að rannsaka þetta sem grundvallaratriði undir, að hægt sé að fara einhverja frjálsa leið, því að vitanlega þarf. fyrst og fremst að leggja fyrir fullkomnar hagfræðilegar tölur um það, hvernig þessu atriði sé háttað. Ef á að fara einhverja frjálsa leið í þessu máli, þá er ómögulegt að hafa vinnubrögð eins og glöggt komu fram í Nd., þar sem hver stóð upp á eftir öðrum og sýndi og sannaði, að þetta grundvallaratriði er enn á því stigi í okkar þjóðfélagi, að þegar einn mjög glöggur fjármálamaður fullyrðir, að grunnkaup hafi hækkað um 48%, þá segir annar 51, sá þriðji 65, sá fjórði 71 og sá fimmti 16%. Ég hygg, að slíkt eigi sér hvergi stað annars staðar. Ég hef í því efni leitað mér upplýsinga erlendis, hvernig kaup og verðlag hafi þar hækkað, og þar stendur ekki á svörunum, heldur eru þar opinberar stofnanir, sem tilkynna, að svona sé það í dag. M.a. sendi ég símskeyti til Bandaríkjanna og fékk upplýsingar um, hvernig því er háttað þar. Við aftur á móti erum ekki lengra komnir en svo, að við erum að deila um það, og eini ávinningurinn er sá, að nú á að skipa 6 manna n., sem rannsakar þetta ásamt öðru, sem kemur í ljós við starf n., en að vísu liggur þessi grundvöllur ekki fyrir í dýrtíðarmálinu, þegar n. hefur lokið starfi sínu, nema hún verði öll sammála. Ég get ekki séð, að nú liggi fyrir önnur lausn en sú, að þessi n. eigi að finna umræðugrundvöll, ef hún verður sammála. Í þessum orðum mínum liggur þó engan veginn það, að ég sé að lasta, að svo verði gert, síður en svo. Þetta er einmitt nauðsynlegur grundvöllur til þess, að hægt sé að ræða málið og leysa það með þeirri aðferð, sem þingið hefur hugsað sér.

Hins vegar er ekki að undra, þótt okkur veitist erfitt að færa dýrtíðina niður. Þó get ég ekki annað en mótmælt því, sem mjög er nú haldið fram, að þjóðina skorti enn skilning á þessum málum og vilji engu fórna, til þess að lausn þeirra megi takast. Ég held, að þjóðin hafi alltaf skilið þá hættu, sem stafar af aukinni dýrtíð, og ef fulltrúar hennar á Alþ. gætu orðið sammála, þá mundi að minni hyggju sízt standa á þjóðinni. Hins vegar er ekki því að leyna, að eftir því sem dýrtíð hefur staðið lengri tíma, venjast menn henni meir og meir, og allar greiðslur samræmast henni smám saman, svo að erfiðara verður að færa hana niður. Það, sem þjóðin hefur alltaf viljað ásamt Alþ., er að stöðva vöxt dýrtíðarinnar, en um niðurfærslu hennar hefur hins vegar ekki verið jafnóskiptur vilji. Og þegar við gefumst nú upp við þessi dýrtíðarmál eftir fimm mánaða víðleitni, þarf það ekki að koma okkur svo mjög á óvart, að ekki skuli hafa tekizt betur til um niðurfærslu dýrtíðarinnar, því að það hefur yfirleitt reynzt erfitt með öðrum þjóðum líka. Hins vegar er þjóðin nú eins og áður reiðubúin að leggja nokkuð á sig til að stöðva vöxt þessarar dýrtíðar.

Þó að ég geri lítið úr því, sem áunnizt hefur í dýrtíðarmálunum, felst ekki í því ásökun í garð þingsins, því að ég hygg, að við eigum eftir að reka okkur á, að það verður erfitt, ef ekki lítt framkvæmanlegt, að færa dýrtíðina niður, nema dýrtíðin fari að sverfa svo mjög að mönnum, að af leiði stöðvun á atvinnulífinu, þannig að augu manna opnist fyrir því, að þeir komist ekki hjá því að leggja á sig nokkrar byrðar til að færa hana niður að verulegu leyti. Ég er nú svo bölsýnn, að ég geri ráð fyrir, að þótt við smeygjum málinu fram af okkur að þessu sinni og setjum það í n., þá munum við mæta sama vanda aftur, þegar n. skilar áliti.

Annað atriði, sem mjög kemur til greina á þessu sambandi, er það, að stríðsgróðinn sleppur við skattlagningu. Á það hefur verið bent, að meira átak þarf til að færa niður dýrtíðina er stöðva vöxt hennar og þeir, sem mest hefðu grætt á hinu óeðlilega ástandi, yrðu einnig að fórna mestu. Sá maður, sem grætt hefur t.d. hálfa milljón kr. á styrjaldarástandinu, ætti að réttu lagi að borga nokkuð mikið af þeirri upphæð, því að þessi upphæð er meira virði, eftir að dýrtíð hefur verið færð niður, en áður, og eigandinn getur keypt fyrir hana meiri vinnukraft og önnur verðmæti. Niðurfelling dýrtíðarinnar er aukagróði fyrir þá, sem mikið hafa grætt áður, og því getur það ekki talizt nein fórn, þó að talsvert sé af þeim tekið. Auk þess ber að gæta þess, að þeir menn, sem safnað hafa fé vegna styrjaldarástandsins, eiga það fé á engan hátt hyggindum sínum eða sérstökum hæfileikum að þakka. Það er nokkurs konar rekagóss, sem borið hefur á fjörur þeirra. Það er sjálfsagt að gera mun á því, hvað er starfsgróði manns og hvað stríðsgróði hans. Það þarf því ekki að vera af neinni hneigð til að skattpína borgarana, þó að gengið sé eftir skatti af stríðsgróða manna.

Nú kemur það einkennilega fyrir, að um leið og gengið er frá þessum dýrtíðarmálum með skipun n. til að finna grundvöll fyrir niðurfærslu kaupgjalds og verðlags, er skilið svo við það atriði, sem einna mest hefur verið rætt um, skattlagningu stríðsgróðans. að þar verður engin breyting á. Ég er satt að segja hissa á þessum vinnubrögðum, svo skýrar yfirlýsingar sem fram hafa komið um þetta atriði frá ýmsum þingflokkum. Það er gert ráð fyrir, að felld sé niður 7. gr. úr frv., og mér er sagt, að verkamannaflokkarnir hafi báðir gengið inn á þessa breytingu gegn því, að þeir fái af peningum þeim, sem inn koma samkv. skattaákvæðum 1. gr., þrjár millj. kr. til að endurbæta alþýðutryggingalöggjöfina. Nú má fullyrða, að peningar til að fullkomna alþýðutryggingarnar muni ekki verða vandfengnir eftir stríðið, því að verði menn sammála um nokkurn hlut eftir þessa styrjöld, þá munu þeir verða það um nauðsyn á bættri tryggingalöggjöf. Og víssulega mun ekki standa á okkur framsóknarflokksmönnum að styðja það mál. En það er auðsætt, að ef á annað borð á að fara að ræða um hlunnindi einstökum stórgróðafélögum til handa, þá eru í rauninni engin takmörk fyrir því, hvernig þau geta notað flokksaðstöðu sína og áhrif á þingi til að losna við nokkur hundruð þúsunda króna skatt gegn því að veita aukið fé úr ríkissjóði til alþýðutrygginga eða slíkra hluta. Slíkt væri ákjósanleg verzlun fyrir þessi fyrirtæki. En viðvíkjandi því, að fram hafi komið mótmæli við 7. gr. frá togaraeigendum og félagi farmanna, er það að segja, að þau mótmæli byggjast á misskilningi á gr., a.m.k. að því er farmannasambandið snertir. Ef gr. er rétt skoðuð, er auðséð, að varasjóðshlunnindin eiga að vera takmörkuð hjá þeim gróðafélögum, sem ekki stunda útgerð, og þeim, sem safnað hafa ákveðinni upphæð í varasjóð. En öll önnur félög, sem stunda sjávarútveg, mundu græða á þessu. Þá er ákveðið, að varasjóðstillag skuli allt renna í nýbyggingarsjóð í stað helmingsins, og væri það mikil trygging fyrir því, að hjá öllum félögunum nema hinum stærstu yrði varasjóðurinn meir notaður til endurbygginga en áður var. Farmannasambandið virðist ekki hafa gert sér grein fyrir þessu. Útgerðarfélögin öll nema hin stærstu mundu fá aukin réttindi, úr 1/5 í 1/3. Þegar þess er gætt, verður að telja undarlegt, að. fulltrúar verkamannaflokkanna hér í hv. d., sem fundu það helzt að fráfarandi ríkisstj., að hún gerði litið til að skattleggja stórgróðann, skuli nú sjálfir beita sér móti till. um þetta. Annars er þetta umræðuefni allt svo víðtækt, að of langan tíma tæki að ræða það hér til hlítar, enda óvíst, að dýrtíðarmálunum yrði þá lokið á þessu þingi. En allar líkur benda nú til þess, að 7. gr. verði felld úr frv. hér í hv. d., hvað sem hv. Nd. kann að gera. Og ef frv, fer út úr þinginu án 7. gr., er ekki hægt annað að segja en stríðsgróðamennirnir hafi komið ár sinni vel fyrir borð, því að það hlýtur auðvitað að verða miklum erfiðleikum bundið vegna hátíðar þeirrar, sem í hönd fer, að taka málin upp á næsta þingi og ljúka þeim, áður en ganga þarf frá þeim hjá skattan., enda mun tilgangurinn vera sá, að ekki verði skert hár á höfði stríðsgróðamannanna þetta árið.

Brynjólfur Bjarnason: Ég get enn lýst yfir því, að ég er engan veginn ánægður með þetta frv. Ég var ekki ánægður með það eins og það kom frá hv. Nd., og er jafnóánægður með það enn, því að ég tel, að í því felist engin lausn á vandamálinu, heldur aðeins tilraun til lausnar. Ráðstafanir þær, sem gert er ráð fyrir í 5. gr., eru að mínum dómi ekki afsakanlegar nema sem óhjákvæmilegar bráðabirgðaráðstafanir, af því að afurðasölumálunum hefur þegar verið stefnt í öngþveiti. Það er engin lausn að gefa með landbúnaðarvörum, því að það lækkar ekki dýrtíðina á nokkurn hátt. Þó að það kunni að takast með þeim hætti að koma vísitölunni nokkuð niður á við, er dýrtíðin óskert í raun og veru. Kaupandinn greiðir þá aðeins nokkurn hluta vöruverðsins í búðinni, en hinn í skatta. Sá, sem neytir lítils af vörunni, greiðir þannig fyrir þann, sem mikils neytir. Hinir efnaminni, sem neyta t.d. lítils kjöts, greiða fyrir hina, sem hafa efni á að neyta kjöts eftir vild. Þetta kemur líka ranglátlega fram gagnvart bændum, því að stórbóndinn fær á þennan hátt meiri uppbót en smábóndinn. Hins vegar virðist mér alveg óhjákvæmilegt að fara inn á þessa leið, og það er afsakanlegt frá sjónarmiði neytenda, að þeir skattar, sem lagðir eru á, séu lagðir á þá efnaðri, á háu tekjurnar. Að vísu má svara því til, að það sé sama hver peningurinn komi í ríkissjóðinn, því að hann fari í einn sameiginlegan sjóð allra landsmanna. En á hitt ber að líta, að þessir skattar mundu ekki hafa verið lagðir á nema í þessu skyni, og það ríður baggamuninn og afsakar leiðina.

Hitt ber að játa, sem komið hefur hér fram, að bæjarfélögin missa við þetta skatta, og þá einkum þau, sem enga stórgróðamenn hafa sem gjaldendur hjá sér. Því ber nauðsyn til þess á næsta þ. að gera ráðstafanir til nýrra skattstofna fyrir bæjarfélögin, og t.d. mætti afnema hámark útsvarsálagningarinnar eða láta meira af stríðsgróðaskattinum renna til bæjarsjóðanna.

Í sambandi við umr. þessa um dýrtíðarmálin kemst ég ekki hjá því að taka fram, það sem ég álit, að fyrst af öllu hefði átt að gera til að minnka dýrtíðina, jafnframt því sem fastur grundvöllur hefði fengizt um verð landbúnaðarafurða, það var að minnka tollana og afnema þá af nauðsynjavörum. Hefði það strax getað lækkað dýrtíðina um 20–30 stig. — Það er fáránlegt og í raun og veru alveg óskiljanlegt, hvernig mönnum gat dottið í hug að ausa út tugum millj. kr. í þeim tilgangi að lækka dýrtíðina, en leggja síðan á skatta, sem aftur hækka dýrtíðina.

Nú, svo háttar þannig til hér á hv. Alþ., að ekki er hægt að fá skynsamlega lausn á dýrtíðarmálinu. — Dýrtíðarl. þurfa að vera árangur sameiginlegs vilja á hv. Alþ., en nú er sá sameiginlegi vilji ekki fyrir hendi, því að þar gætir svo ólíkra sjónarmiða, og þessi ólíku sjónarmið munu halda áfram hér innan þingsalanna, svo lengi sem þjóðfélagsskipulag okkar er eins og það er í dag, þar sem andstæður stéttanna og hin ólíku sjónarmið eigast við. Á meðan þjóðfélag vort er þannig saman sett af andstæðum og stríðandi stéttum, þá er ekki við öðru að búast en að hv. Alþ. sé endurspeglun þess, sem er að gerast úti í þjóðfélaginu, þar sem fulltrúar stéttanna eiga þar sæti. Því er ekki nema eðlilegt, að árangurinn verði í samræmi við það.

Ég tel, að dýrtíðarfrv. hafi í meðförum hv. fjhn. þessarar d. tekið breyt., sem til bóta eru að allverulegu leyti. Í fyrsta lagi, að lagt skuli til, að sleppt verði 3. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að leitað verði samkomulags við verkalýðsfélögin um 12% launalækkun í maí n.k. Í samræmi við þetta er svo lagt til, að 6. gr. falli einnig niður. — Það hefði í sjálfu sér ekki gert mikið hvorki til né frá, þó að þetta hefði staðið í l., þegar þess er gætt að harla litil líkindi hefðu verið fyrir því, að nokkurt samkomulag um kauplækkun hefði náðst, en vegna þess að það er blátt áfram ósanngjarnt að fara fram á slíkt við verkalýðinn, þá kann ég miklu betur við, að þetta atriði verði alveg þurrkað burt úr frv.

Við verkalýðsfélögin var gerður samningur um dýrtíðaruppbótina, að hún miðaðist við mánuðinn, sem leið, og á þann hátt er lagt fyrir, að verkalýðurinn tapi á vaxandi dýrtíð, en græði aftur með lækkandi dýrtíð, þ.e.a.s., að kaupgreiðslan fari á þennan hátt eftir sveiflu dýrtíðarinnar upp og niður aftur, að svo miklu leyti sem hún breytist samkv. dýrtíðaruppbótinni. Að vísu er hér um frjálsan grundvöll til samninga að ræða, en fyrir þær sakir, sem ég hef þegar drepið á, tel ég ekki rétt, að þetta ákv. um samningaumleitanirnar verði haft í l. Aftur á móti teldi ég illa farið, ef svo ætti að ganga frá þessu eina skattafrv., að ekki væri neinu fé varið til breyt. á alþýðutryggingarl. En þær breyt. koma til með að kosta mikið, ef árangur á að nást. Tel ég því mjög ákjósanlegt, að 3 millj, kr. renni til þessa breyt., eins og ráðgert er.

Um 7. gr. frv. er það að segja, að ég vildi, að ákvæði þeirrar gr. hefðu verið tekin upp í einhverju öðru formi og að jafnframt hefðu verið gerðar nauðsynlegar breyt. og endurbætur á skattal., sem gengju m.a. í þá átt að tryggja það, að meira fé fari í nýbyggingarsjóðina en nú fer þangað, svo og að tryggja smáútgerðarmönnunum meira réttlæti en þeir nú hafa. — Ég vil vona, að samkomulag náist um, að nauðsynleg ákvæði 7. gr. komist í framkvæmd. Hitt er aftur annað mál, að skattal. þurfa róttækari breyt. en þeirra, sem ákv. 7. gr. gera ráð fyrir, og í trausti þess, að skattal. verði endurskoðuð, þá þarf ekki að harma það neitt, þó að 7. gr., í því formi sem hún var, hafi verið alveg felld úr frv.

Ég geri ráð fyrir því, að eftir því, sem hv. þm. hafa nú talað um skattamálin í sambandi við þetta mál, þá sé vilji fyrir hendi innan sumra flokkanna um breyt. á skattal., og því get ég lýst yfir, að ekki mun standa á Sósfl. að taka þátt í þeim breyt., sem nauðsynlegar eru á þeim l., sem lengra þurfa að ganga en ákvæði 7. gr. frv. fela í sér. Í fyrsta lagi þarf að breyta ákvæðunum um varasjóðina og tryggja meira fé í nýbyggingarsjóðina og enn fremur að sjá svo um, að það fé fari allt til nýbygginga, en sem stendur er engin trygging fyrir hendi í þá átt að fénu sé varið til þeirra hluta, og það tryggir heldur ekki 7. gr. þessa frv. — Enn fremur þarf einnig að fá miklu meira inn í ríkissjóð með eignaraukaskatti en lagt var til með till. stjórnarinnar.

Hv. þm. Str. er að tala um, að stríðsgróðamennirnir hafi sýnt mikla stjórnmálakænsku í sambandi við skattamálin, að mér skildist. Mér þykir þetta dálitið athyglisvert hjá hv. þm. Str., því að það getur varla bent á annað en einhver af þeim flokkum, er vill réttláta skipan skattamálanna, ætlar að svíkjast úr leik. (BSt: Það eru nú víst tveir flokkar, sem það gera, Alþfl. og Sósfl.). — Ég skal engu spá um afstöðu Alþfl. en mér þykir það næsta ólíklegt, að hann ætli sér að skerast úr leik í þessu máli, eftir yfirlýsingu hv. 3. landsk., en því get ég lýst yfir fyrir hönd Sósfl., að við munum fylgja fast fram miklu róttækari breyt. á skattal. en í 7. gr. frv. felst, og munum taka höndum saman við hvern þann flokk, sem sams konar till. hefur að flytja, til þess að þær breyt. nái fram að ganga.

Hitt er annað mál, er varðar þetta frv., að þar sem ekki er hægt að komast að samkomulagi við Framsfl. um leiðréttingu þeirra galla, sem eru á frv. og þá þeirra, sem eru í 7. gr. sérstaklega, þá liggur ekki annað fyrir en taka þá gr. út úr á þessu stigi málsins. — Framsfl. er eini flokkurinn, sem ekki hefur fengizt til að falla frá þeirri kröfu að lækka kaup verkamanna, jafnframt því, sem hann hefur viljað ausa fé úr ríkissjóði í verðuppbætur landbúnaðarvara. Framsfl. hefur líka alltaf barizt á móti því, að lagt yrði fé í alþýðutryggingasjóð, hvað svo sem hann segir nú. Hefur hann gleymt afgreiðslu seinustu fjárl. í þessu sambandi eða afstöðu flokksins til þessa máls nú í fyrradag? — Annars er þýðingarlaust að vera að ræða um aukinn skatt á stórgróðann nema til að vita fyrir fram, til hvers á að nota peninga þá, er á þann hátt koma í ríkissjóðinn. Annars mætti jafnvel búast við, að þeir væru látnir ganga aftur til hátekjumanna, í einhverju formi, og er ekki langt að leita hliðstæðra dæma.

Þá var hv. þm. Str. að tala um, að fé mundi á næstunni verða veitt til alþýðutrygginganna og að ekki mundi standa á Framsfl. í þeim efnum. Hvernig getur hv. þm. lýst þessu yfir, eftir að allur þingheimur hefur séð afstöðu þessa flokks í sambandi við þetta mál við afgreiðslu síðustu fjárl.? Hvernig getur þessum hv. þm. Str. dottið í hug að segja þetta í þessari hv. d.? Býst hann við því, að honum sé trúað? — Hv. þm. Str. er óhætt að ganga út frá því sem gefnu, að þessi ummæli hans verða ekki tekin alvarlega eftir afstöðu flokks hans til þessa máls við afgreiðslu seinustu fjárl. og eftir því, hvernig flokkurinn tók einnig atvinnuleysistryggingunum í vetur, þar sem hann lýsti sig vera á móti þeim. —

Ég geng út frá því sem vísu, að þessar 3 millj. kr. gangi til atvinnuleysistrygginga, en það er engu líkara en verið sé að koma við hjartað í Framsfl., ef rætt er um slíkar tryggingar og einhver eyrir á að fara í slíkan sjóð.

Þá var hv. þm. Str. að tala um bandalag við stríðsgróðavaldið, og var að segja, að sósíalistar væru í því bandalagi, sem auðvitað er ekkert annað en vitleysa. — En þessum hv. þm. ætti sízt að farast það að tala um bandalag við stríðsgróðavaldið, hann, sem árum saman var í bandalagi við Kveldúlfsvaldið á móti verkalýðnum. Er skemmst að minnast þess, að hann var aðalhöfundur gerðardómsl. — Nei — hv. þm. Str. verður að sýna einhverja stefnubreytingu, ef hann ætlast til þess að nokkuð mark sé á því takandi, sem hann segir.

— Ég var að minnast á eitt atriði úr 7. gr. frv. sem ákjósanlegt væri að fá samkomulag um að láta vera eftir í frv., þ.e.a.s. að láta meira fé í nýbyggingarsjóðina og tryggja réttlæti gagnvart smáútvegsmönnum. — En ekki mun samt vera borin fram till. um það, nema hægt verði að komast að samkomulagi um það atriði, til þess að frv. verði ekki stofnað í hættu með því.

Þá er loks eitt atriði enn, sem ég vildi leiða athygli að, en það er, að ég vildi láta það skýrt koma í ljós í frv., að mjólk utan Rvíkur skuli lækka í hlutfalli við þá lækkun, sem hér verður. En þetta atriði er mikið á huldu í frv., eins og það er nú. — Veit ég ekki, hvern skilning hæstv. stj. setur í þetta ákvæði um mjólkina, en væri mjólkin sett í 1.30 lítrinn hér í Rvík, en lækkaði ekki um leið hlutfallslega annars staðar á landinu, þá væri verið að koma aftan að launþegunum í landinu með slíku ákvæði. Þess vegna mun ég við 3. umr. koma fram með brtt., er tæki af öll tvímæli, hvernig þetta ákvæði frv. bæri að framkvæma, ef hæstv. stj. gefur ekki yfirlýsingu um að framkvæmd þessa máls muni verða samkv. því, sem ég hef hér talið rétt, að ætti að vera um útsöluverð mjólkur í landinu.